Um Blóðbankann
Blóðbankaþjónustunni er ætlað að tryggja nægilegt magn blóðhluta á hverjum tíma og uppfylla kröfur um öryggi þeirra.
- Hlutverk Blóðbankans er að veita örugga blóðbankaþjónustu á landsvísu.
- Einnig veitir Blóðbankinn þjónustu vegna fruma og vefja, líffæraflutninga og stofnfrumumeðferðar.
- Blóðbankinn stuðlar að nýjungum og framförum með kennslu og rannsóknum á sínu starfssviði og með samstarfi við erlenda og innlenda aðila.
- Blóðbankinn hefur mikilvægu hlutverki að gegna varðandi kynningu og fræðslu til almennings og blóðgjafa um blóðbankastarfsemi.
- Blóðbankinn stefnir að því að vera í hópi bestu blóðbanka í alþjóðlegum samanburði og í fararbroddi íslenskrar heilbrigðisþjónustu.
- Blóðbankinn setur örugga og góða þjónustu í öndvegi.
- Blóðbankinn vill tryggja velferð blóðgjafa og blóðþega með fagmennsku og markvissri miðlun upplýsinga.
- Í Blóðbankanum er virkt gæðakerfi, grundvallað á innlendum og alþjóðlegum kröfum, sem tryggir rétt vinnubrögð, gæði og öryggi í framleiðslu og þjónustu.
- Blóðbankinn vill skapa aðlaðandi andrúmsloft fyrir blóðgjafa og almenning og stuðla að auknu heilbrigði þeirra.
- Blóðbankinn framleiðir blóðhluta og veitir þjónustu sem miðar að því að mæta þörfum viðskiptavina sinna á landsvísu.
- Með fræðslu til samfélagsins vill Blóðbankinn skapa traustvekjandi umgjörð um starf sitt.
- Blóðbankinn leggur áherslu á öflugar grunnrannsóknir sem stuðla að framförum og leggja grunninn að nýjungum og bættri þjónustu.
- Blóðbankinn ætlar að skapa örvandi og áhugavert starfsumhverfi og um leið laða til sín hæft starfsfólk sem tekur þátt í mótun og þróun starfsins.
Blóðbankinn hefur starfsstöðvar á Snorrabraut 60 í Reykjavík, Glerártorgi Akureyri og í Blóðbankabílnum. Einnig er Blóðbankinn með starfstöð á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Undir blóðsöfnunardeild fellur meðal annars:
- Kaffistofa blóðgjafa
- Markaðsstarf til að viðhalda blóðgjafahópnum
- Heilblóðsgjöf blóðgjafa
- Sértæk blóðsöfnun (rauðkorn, blóðflögur, blóðvökvi)
- Söfnun blóðmyndandi stofnfruma sjúklinga
- Rekstur blóðbankabílsins
- Samvinna við Blóðgjafafélag Íslands
Undir framleiðslu blóðhluta fellur meðal annars:
- Vinnsla heilblóðs og framleiðsla blóðhluta
- Framleiðsla blóðflagna úr heilblóði
- Smithreinsun blóðflögueininga og blóðvökva
- Hvítkornasíun blóðhuta
- Uppskipting eininga í barnaeiningar
- Framleiðsla eigin augndropa
- Veiruskimun
- Ferritínmælingar
Undir þjónusturannsóknir fellur meðal annars:
- Blóðflokkun og blóðflokkamótefnaleit hjá blóðgjöfum og sjúklingum
- Samræmingarpróf
- Úrvinnsla mótefnamælinga
- Rhesusvarnir/mæðravernd
- Afgreiðsla og sendingar blóðhluta til sjúkradeilda/heilbrigðisstofnana
- Eftirlit með blóðkælum á Landspítala og úti á landi
- Þjálfun og umsjón með starfsemi blóðstöðva úti á landi
Vefjaflokkunardeild Blóðbankans er EFI vottuð rannsóknarstofa.
Undir vefjaflokkanir fellur meðal annars:
- Vefjaflokkun sjúklinga
- Vefjaflokkun líffæragjafa og stofnfrumugjafa
- Samræmingarpróf fyrir ígræðslu
Stofnfrumuvinnsla er JACIE vottuð ferli.
Undir stofnfrumuvinnslu fellur meðal annars:
- Mælingar á fjölda CD34 fruma í sjúklingasýni og græðlingi
- Vinnsla stofnfrumugræðlings
- Þíðing græðlings og inngjöf stofnfruma í sjúkling
Starfsmenn
Starfsmenn Blóðbankans eru um 60 talsins
Yfirlæknir
Sveinn Guðmundsson, sveinn@landspitali.is
Deildarstjóri
Ína Björg Hjálmarsdóttir, ina@landspitali.is
Aðrir stjórnendur
Erna Knútsdóttir, gæðastjóri, ernakn@landspitali.is
Guðný Ingibjörg Guðmundsdóttir, aðstoðardeildarstjóri, gig@landspitali.is
Kristjana Bjarnadóttir, einingastjóri vefjaflokkunar, krissa@landspitali.is
Níels Árni Árnason, einingastjóri stofnfrumuvinnslu, nielsa@landspitali.is
Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, einingastjóri rannsókna og nýsköpunar, oes@landspitali.is
Ragna Landrö, einingastjóri framleiðslu blóðhluta, ragnal@landspitali.is
Sandra Karlsdóttir, einingastjóri sértækrar blóðsöfnunar, sandrkar@landspitali.is
Sigurborg Matthíasdóttir, einingastjóri þjónusturannsókna, sigurbm@landspitali.is
Sophia Re-Bon, einingastjóri blóðsöfnunar, sophia@landspitali.is
Valdís Halldórsdóttir, einingastjóri gæðaeftirlits, valdish@landspitali.is
Þorbjörn Jónsson, sérfræðilæknir, thorbjor@landspitali.is
Í eftirfarandi lögum eru sérstök ákvæði um Blóðbankann:
1. Lög um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007
Þar segir m.a. í 20. grein: „Landspítali er aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús. Hann veitir sérhæfða sjúkrahúsþjónustu, m.a. á göngu- og dagdeildum, fyrir alla landsmenn og almenna sjúkrahúsþjónustu fyrir íbúa heilbrigðisumdæmis höfuðborgarsvæðisins. Hlutverk hans er að: ...6. Starfrækja blóðbanka sem hefur með höndum blóðbankaþjónustu á landsvísu.
2. Lyfjalög nr. 100/2020 Þar segir m.a. í 6. grein: Hlutverk Lyfjastofnunar er sem hér segir: ... 13. Hafa eftirlit með söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs og gæðum og öryggi við meðhöndlun frumna og vefja úr mönnum. Um eftirlit landlæknis með starfsemi blóðbanka fer skv. VI. kafla laga um heilbrigðisþjónustu og lögum um landlækni. Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um starfsemi blóðbanka, skráningu aukaverkana, framkvæmd eftirlits o.fl. í reglugerð.
Einnig eru í gildi eftirfarandi reglugerðir um þá þjónustu sem Blóðbankinn sinnir:
- Reglugerð um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs nr. 441/2006 sbr. breytingu (1.) nr. 1024/2007
- Reglugerð um gæði og öryggi við meðhöndlun frumna og vefja úr mönnum nr. 1188/2008
Blóðbankinn fylgir Persónuverndarstefnu Landspítala
2013: Útgáfa í tilefni af 60 ára afmæli Blóðbankans
Talsverðu efni var safnað saman í tilefni 60 ára afmælis Blóðbankans í nóvember 2013 til þess að geta gefið landsmönnum greinargott yfirlit yfir umfang og eðli starfseminnar.
Blóðbankinn í tölum birtir ýmsa áhugaverða tölfræði um starfsemi Blóðbankans en
Blóðbankinn í myndum sýnir skemmtilegar ljósmyndir frá ólíkum tímaskeiðum starfseminnar.
Blóðbankinn er með vottað gæðakerfi samkvæmt stjórnunarstaðlinum ISO 9001:2015
British Standars Institute (www.bsiaislandi.is / www.bsigroup.com) hefur vottað kerfið frá árinu 2000. Gæðavottorð Blóðbankans ISO 9001:2015.
Vefjaflokkunardeild Blóðbankans er með faggildingu samkvæmt Standards for Histocompatibility and Immunogenetics testing vottað af European Federation for Immunogenetics. Vottorð frá EFI.
Stofnfrumusöfnun og –vinnsla Blóðbankans hlaut árið 2019 JACIE vottun. JACIE er alþjóðlegur faggildingarstaðall. Vottorð frá Jacie.
Blóðbankinn á að baki 25 ára feril hvað varðar árangursríkt gæðastarf og er leiðandi í uppbyggingu gæðakerfis í heilbrigðisþjónustu. Blóðbankinn hefur verið með vottað gæðakerfi samkvæmt stjórnunarstaðlinum ISO 9001 frá árinu 2000 eða í 20 ár. Vottunin nær yfir alla starfsemi Blóðbankans í samræmi við kröfur sem settar hafa verið fram í reglugerðum heilbrigðisyfirvalda og einnig alþjóðlegar faglegar kröfur. Gæðakerfið er hornsteinn í starfsemi Blóðbankans og tryggir að stöðugt sé verið að rýna starfsemina til gagns.
Alþjóðleg staðasamtök (ISO) gefa út ISO 9000 staðlaröðina, en Staðlaráð Ísland er fulltrú Íslands í þessi verkefni (https://www.stadlar.is/). ISO 9001 er kröfustaðall og í honum eru settar grunnkröfur til gæðakerfa. Kröfur 9001 eru almennar og hægt er að beita þeim fyrir hvaða skipulagsheild sem er, óháð tegund hennar eða stæðar eða þeim vörum og þjónustu sem hún býður uppá. Meginreglur gæðastjórnunar eru samkvæmt EN ISO 9001:2015:
- Áhersla á viðskiptavini
- Forysta
- Virkni fólks
- Ferlanálgun
- Umbætur
- Ákvarðanataka byggð á sönnunargögnum
- Stjórnun tengsla
Stjórnkerfi Blóðbankans og stuðningsferlar styðja við framleiðsluferla og mynda þannig eina heild, sjá meðfylgjandi mynd. Á myndinni má sjá að kröfur ISO 9001 staðalsins ná yfir heildarferil blóðhluta en aðrar kröfur aðeins hluta hans. Samsvarandi gildir einnig um frumu og vefi.
Mynd 1: Uppbygging á gæðakerfi Blóðbankans og samþætting við aðra staðla og kröfur. Myndin sýnir framleiðsluferla blóðhluta.
Hlutverk stjórnanda
Í Blóðbankanum er starfrækt þverfaglegt teymi stjórnenda sem kallast Gæðaráð. Gæðaráð hittist að jafnaði einu sinni í viku og rýnir helstu mál sem snúa að starfsemi Blóðbankans. Stjórnendur marka stefnu Blóðbankans og forgangsraða verkefnum. Gæðaráð stýrir gæðakerfi Blóðbankans og viðheldur gæðamenningu innan hans.
Mannauðstjórnun
Í Blóðbankanum starfa um 60 manns, læknar, hjúkrunarfræðingar, lífeindafræðingar, náttúrfræðingar og aðrir starfsmenn. Starfsmenn vinna saman í þverfaglegu teymum við ferla Blóðbankans og tryggja þannig gæði og öryggi.
Starfsemi Blóðbankans er flókin og leggur því Blóðbankinn mikið upp úr þjálfun starfmanna og er með skýrt þjálfunarferli. Einungis starfsmenn á stöðulista hafa heimild til að starfa einir. Nýr starfmaður fer í gegnum þjálfun samkvæmt gátlista. Umsjónarmaður verkferilsins yfirfer gátlista með starfsmanni áður en viðkomandi einingarstjóri samþykkir og setur starfmann á stöðulistann. Eftir langtíma fjarveru eða við breytingar fara starfsmenn í endurþjálfun.
Staða Blóðbankans er mikilvæg því hann er eini Blóðbankinn á Íslandi og getur Blóðbankinn ekki leitað annað eftir starfsmönnum með sérþekkingu. Þekkingarstjórnun innan Blóðbankans skiptir því miklu máli við að tryggja samfelldan rekstur.
Gæðahandbók og skjalastjórnun
Blóðbankinn er með skjalastýrða gæðahandbók sem er skrifuð af starfsmönnum. Starfað er eftir skráðu verklagi sem tryggir samræmi í verklagi óháð vinnustöð. Skráð verklag tengir saman ólíka starfsþætti og tryggir þannig samfellu. Gæðahandbók Blóðbankans er lifandi og skjalfesting á verklagi eins og það telst best á hverjum tíma.
Blóðbankinn er í nánu samstarfi við blóðstöðvum úti á landi. Verkferlar og þjálfun samræmist kröfum ISO-9001 og er skjalfest í gæðahandbók Blóðbankans
Blóðbankinn heldur utan um sögu breytinga þannig að rekjanleiki sé til staðar. Blóðbankinn geymir með skipulögðum hætti formleg samskipti við viðskiptavini, birgja og heilbrigðisyfirvöld.
Áhættu- og breytingastjórnun
Blóðbankinn hefur sett sér það markmið að innleiða sýnilegt áhættumat með sífellt betri hætti í starfsemi hans. Áhættumat er mikilvægt verkfæri til að innleiða, viðhalda og bæta gæðakerfi fyrirtækja á áhrifaríkan hátt og til að tryggja að öllum mikilvægum verkferlum sé fylgt eftir. Með virkri áhættustýringu í Blóðbankanum er hægt að vinna með fyrirbyggjandi hætti og stjórna hugsanlegum gæða- og öryggismálum.
Nýjar aðferðir eru innleiddar með fullgildingu þannig að áhætta við breytingar sé lágmörkuð. Þá er meðal annars farið yfir hvert er markmiðið með innleiðingunni eða breytingunni, hver er áhættan, hvað á að prófa til að sannreyna, kortlagt hvaða starfsmenn þurfa að koma að verkefninu og svo framvegis. Einnig áhrif breytinga á aðra starfsþætti eða viðskiptavini. Breyting á verklagi er skjalfest í gæðahandbók Blóðbankans.
Ábendingar og frávik
Kerfi fyrir skráningu og úrvinnslu ábendinga var tekið upp í Blóðbankanum árið 1999. Kerfið heldur utan um ábendingar og frávik sem berast frá starfsmönnum og viðskiptavinum Blóðbankans. Með kerfisbundinni skráningu ábendinga og úrvinnslu þeirra er hægt að greina það sem betur má fara, vinna að úrbótum á vinnuferlum og koma þannig í veg fyrir endurtekningu.
Ábendingar eru rýndar reglulega á starfsmannafundum til að tryggja umræðu og úrbætur. Við yfirferð á ábendingum er metið hvernig bæta má ferla og draga úr áhættu. Með þessari ferlanálgun hefur tekist að virkja starfmenn Blóðbankans við að skrá ábendingar og frávik sem eiga sér stað í starfseminni.
Markmiðið er að verkferlar og girðingar í starfseminni komi í veg fyrir mannleg mistök. Skráning og úrvinnsla ábendinga og frávika er mikilvæg til að tryggja virkni gæðakerfisins.
Úttektir
Reglubundin úttekt á verklagi og gæðakerfi Blóðbankans gefur mikilvægt aðhald. Innri úttektir eru framkvæmdar af starfsmönnum Blóðbankans sem hafa hlotið þjálfun í slíku og hafa þekkingu á kröfum ISO 9001:2015 og lögum og reglugerðum sem gilda um starfsemi Blóðbankans.
Ytri úttektir eru lærdómsríkar og mikilvægar. Lyfjastofnun hefur eftirlit með þeim þætti starfsemi blóðbanka sem snýr að blóðsöfnun, framleiðslu blóðs og blóðhluta, einnig með meðferð, geymslu og meðhöndlun þeirra. Með sambærilegum hætti fellur eftirlit með öryggi blóðþega, aukaverkunum og brestum í vinnuferlum á klínískum deildum undir eftirlit Landlæknis.
British Standards Institution (BSI) gerir úttekt á stjórnkerfi Blóðbankans samkvæmt ISO 9001 árlega. Faggildingaraðilar, s.s. The European Federation for Immunogenetics (Efi) og The Joint Accreditation Committee ISCT-Europe & EBMT (JACIE), gera úttektir samkvæmt þeirra áætlunum. Erlendir sérfræðingar á sviði vefjaflokkunar (EFI) og stofnfrumustarfsemi (JACIE) framkvæma þessar úttektir.
Blóðbankinn rýnir niðurstöður úttekta, gerir áætlun um úrbætur í samræmi við áhættumat, framkvæmir og metur virkni þeirra. Innri og ytri úttektir eru mikilvægar til að tryggja virkni gæðakerfisins.
Yfirsýn yfir framleiðslu
Heilbrigðisyfirvöld gera þá kröfu að rekjanleiki blóðhluta sé tryggður frá söfnun til inngjafar. Til að halda utan um ferli blóðhluta er Blóðbankinn með tölvukerfið ProSang. Blóðbankinn hefur unnið að því að ProSang sé notað á landsvísu til að uppfylla kröfur heilbrigðisyfirvalda.
Við inngjöf blóðhluta nota heilbrigðisstarfmenn Interinfo en það er tengt ProSang. Þar kemur fram hvaða blóðhluta eru tiltækir fyrir sjúkling, inngjafir skráðar og hvort aukaverkunar verði vart. Skyldur klínískrar deilda er að tryggja þennan rekjanleika.
Að innleiða gæðakerfi er umfangsmikið verkefni. Að frumkvæði Blóðbankans var ákveðið árið 1995 að stefna á vottað gæðakerfi á öllum starfsþáttum hans. Í mars 2000 fékk Blóðbankinn ISO 9001 vottun fyrstu starfsþátta sinna við blóðsöfnun, blóðhlutavinnslu, veiruskimun og blóðflokkun.
Blóðbankinn var fyrsta stofnunun innan íslenska heilbrigðiskerfisins til að hljóta ISO 9001 vottun og enn fremur fyrstur blóðbanka á Norðurlöndunum. Frá og með árinu 2000 hefur stöðugt verið byggt við vottað gæðakerfi Blóðbankans og nú eru allir starfsþættir ISO-9001 vottaðir.
Árið 2002 samþykkti Evrópusambandið tilskipun um blóðbankaþjónustu en þar er gerð krafa um gæðakerfi í blóðþjónustustofnunum. Í kjölfarið skilaði Blóðbankinn áliti til heilbrigðisráðuneytisins um tilskipun Evrópusambandsins um blóðbankaþjónustu, þar sem lögð var áhersla á nauðsyn þess að skilgreina skýrar hlutverk Blóðbankans á landsvísu. Sama ár var farið að merkja blóðhluta eftir alþjóðlegum ISBT128-staðli. Tveim árum seinna gaf Evrópusambandið út samsvarandi tilskipun um frumur og vefi.
Innleiðing Evróputilskipunar um blóðbankastarfsemi í lög á Íslandi hefst árið 2005. Árið 2006 setti þáverandi heilbrigðisráðherra reglugerð 441/2006, um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs og tóku ákvæði hennar mið af tilskipunum Evrópuþings og -ráðs um gæða- og öryggisstaðla á þessu sviði, svo og um tæknilegar kröfur. Samkvæmt reglugerðinni skyldi Landspítalinn starfrækja blóðbanka sem hefði með höndum blóðbankaþjónustu á landsvísu. Í reglugerðinni er enn fremur gert ráð fyrir útibúi á Akureyri til blóðsöfnunar og blóðhlutavinnslu og að sjúkrahúsið þar og Landspítalinn geri með sér þjónustusamning um starfsemina. Reglugerðin miðaði að því að skapa samhæfða blóðbankaþjónustu á landinu öllu, að tryggja nægilegan fjölda blóðgjafa, nægilegar blóðhlutabirgðir á hverjum tíma og dreifingu blóðhluta eftir þörfum innanlands. Skyldi landið þannig vera sjálfbært með tilliti til blóðhluta og aðgengi landsmanna jafnt. Hún miðaði einnig að því að blóðhlutar séu gefnir af fúsum og frjálsum vilja og án endurgjalds og að öryggi blóðþega og blóðgjafa sé tryggt. Þar sem Blóðbankinn hafði hafið gæðavegferð sína nokkrum árum fyrr var hann kominn með gott stjórnkerfi til að byggja á. Blóðbanki á Sjúkrahúsi Akureyrar sameinaðist Blóðbankanum árið 2007.
Í áður nefnda reglugerð eru settar fram kröfur til blóðstöðvar á rannsóknastofum sem staðsettar eru á landsbyggðinni. Blóðbankinn annast þjálfun starfsmanna í samræmi við skilgreint verklag og hefur umsjón með starfsemi.
Árið 2008 var sett reglugerð heilbrigðisráðuneytisins nr. 1188 /2008 um um gæði og öryggi við meðhöndlun frumna og vefja úr mönnum. Einnig var árið 2015 sett reglugerð nr.312/2015 um kröfur varðandi gæði og öryggi líffæra úr mönnum sem eru ætluð til ígræðslu. Blóðbankinn vinnur í samræmi við þessar reglugerðir hvað varðar þjónustu vegna fruma og vefja, líffæraflutninga og stofnfrumumeðferðar í samstarfi við deildir Landspítala.
Alþjóðlegar leiðbeiningar og staðlar
Blóðbankinn tekur mið af leiðbeiningaritum sem European Directorate for the Quality of Medicines & HealthCare hafa gefið út. Þau eru
- Tilmæli edqm: Guide to the Preparation, Use and Quality Assurance of Blood Components
- Tilmæli edqm:Guide to the Safety and Quality Assurance for the Transplantation of Organs, Tissues and Cells
Einnig hefur European Directorate for the Quality of Medicines & Health Care nýlega gefið út formlegan kröfustaðal um blóðbankastarfsemi, GPG (Good practice guidelines). Verið er að innleiða þennan staðal í starfsemi Blóðbankans og innleiða nauðsynlegar útbætur.
Faggildingarstaðlar
Blóðbankanum er mikið í mun að þróa gæðakerfi áfram með innleiðingu á faggildingarstöðlum. Það eru staðlar skrifaðir af fagfólki og innihalda ýtarlegar kröfur um tiltekið verklag sem tryggir rétta og örugga þjónustu við sjúklinga. Rótgróið gæðakerfi auðveldar innleiðingu faggildingarstaðla.
Faggilding vefjaflokkunarstarfsemi Blóðbankans
Blóðbankinn fékk vottun samkvæmt EFI faggildingarstaðli fyrir vefjaflokkunarþjónustu sína árið 2009. Í EFI staðlinum (https://efi-web.org/accreditation) er lýst kröfum við vali á aðferðum og verklagi sem á að tryggja gæði rannsókna vegna líffæraflutninga og stofnfrumuígræðslu úr öðrum.
Faggilding stofnfrumustarfsemi Blóðbankans
Meðferð með eigin blóðmyndandi stofnfrumum eftir háskammtameðferð hefur verið veitt á Landspítala frá árinu 2004 á vegum blóðlækningadeildar og Blóðbankans. Stofnfrumusöfnun og –vinnsla Blóðbankans hlaut árið 2019 JACIE vottun. JACIE er alþjóðlegur faggildingarstaðall (https://www.ebmt.org/jacie-accreditation#home). Söfnun eigin stofnfruma, vinnsla og geymsla er á vegum Blóðbankans og hafa þessir þættir nú hlotið JACIE vottun.
Faggilding rannsókna innan Blóðbankans
Undirbúningur hefur verið hafinn á innleiðingu ISO 15189, sem er faggildingarstaðall fyrir rannsóknastofur í heilbrigðisþjónustu. Einnig er verið að skoða hvernig best skuli háttað faggildingu á vísindastarfsemi Blóðbankans.
Tafla 1: Tímalína þróun gæðamála í Blóðbankanum
Ár |
Þættir |
ISO-9001 Vottun |
Faggilding |
1995 |
Nýir verkferlar innleiddir í Blóðbankanum |
||
1995 |
Skipulegt gæðastarf hefst í Blóðbankanum, ákveðið að stefna að ISO-9001 vottun starfseminnar |
||
1998 |
Vinnu lokið við skilgreiningu á hlutverki og stefnu Blóðbankans |
||
2000 |
Blóðsöfnun, blóðhlutavinnsla, blóðflokkun, veiruskimun, vöktun öryggisbirgðaí Blóðbankanum, ISO-vottun |
|
|
2002 |
Afgreiðsla blóðhlutaí Blóðbankanum, ISO-vottun |
|
|
2003 |
Evróputilskipun um blóðbankastarfsemi tekur gildi í Evrópu
|
||
2005 |
Innleiðing Evróputilskipunar um blóðbankastarfsemi hefst á Íslandi |
|
|
2006 |
Stofnfrumustarfsemi Blóðbankans, ISO-vottun |
|
|
2007 |
Reglugerð 441/2006 um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs. |
|
|
2007 |
Blóðbankinn á Akureyri verður hluti Blóðbankans |
|
|
2008 |
Starfstöð á Akureyri (innan SAk), ISO-vottun |
|
|
2008 |
Reglugerð 1188/2008 um gæði og öryggi við meðhöndlun frumna og vefja úr mönnum. |
|
|
2009 |
Vefjaflokkunarstarfsemi Blóðbankans, EFI faggilding |
|
|
2013 |
Vefjaflokkunarstarfsemi Blóðbankans, ISO-vottun |
|
|
2015 |
Reglugerð 312/2015 um kröfur varðandi gæði og öryggi líffæra úr mönnum sem eru ætluð til ígræðslu. |
|
|
2019 |
Stofnfrumustarfsemi Blóðbankans, JACIE faggilding |
|
|
2022 |
ÁætluðfaggildingrannsóknaBlóðbankans, ISO 15189 |
|
|
Vottun gæðakerfis felur í sér að utanaðkomandi aðili metur hvort gæðakerfið uppfylli kröfur viðkomandi staðals og hvort unnið sé eftir skilgreindu verklagi gæðakerfisins. Heimsóknir vottunaraðila eru reglubundnar og gera það að verkum að gæðakerfinu er haldið við.
Ef vottun er faggilt er tryggt að vottunaraðilinn uppfylli ákveðin skilyrði. BSI er faggilt vottunarstofa og hefur séð um úttektir á Blóðbankanum skv. ISO-staðlinum.
Vottað gæðakerfi á tímum heimsfaraldurs
Mikið álag hefur verið á starfsemi Blóðbankans í ár í heimsfaraldri vegna nýrrar tegundar af kórónuveiru (SARS-CoV2). Áhætta í starfseminni hefur verið rýnd reglulega eins og stjórnkerfið gerir ráð fyrir og settar stýringar til að draga úr áhættu. Þannig hefur samfelldur rekstur Blóðbankans verið tryggður.
Galen, ögður og bíldskerar
Blóðlækningar eiga sér langa og áhugaverða sögu. Merkilegt nokk koma blóðgjafir þó aðeins við sögu lítils hluta hennar. Lengst af var þeim lækningum sem snéru að blóðbúskap mannsins að langmestu leyti þveröfugt farið – allsráðandi voru blóðtökur.
Blóðtökur voru stundaðar fram á síðari hluta nítjándu aldar, um það leyti sem vísindalegur grundvöllur blóðgjafa nútímans var að byrja að mótast. Þær höfðu þá verið stundaðar um þriggja árþúsunda skeið að minnsta kosti svo vitað sé eða allt frá stórveldistíma Egypta. Meðal annars hafa varðveist skrif um þær frá klassískri fornöld Grikkja og ber þar kannske helst að nefna verk Hippókratesar, sem nefndur hefur verið faðir læknisfræðinnar. En þótt deila megi um það hversu lengi blóðtökur hafa nákvæmlega verið stundaðar er víst að hugmyndir Forn-Grikkja um tengsl frumefnanna fjögurra: jarðar, lofts, elds og vatns og hinna fjögurra vessa mannslíkamans áttu eftir að hafa feykileg og segja má ráðandi áhrif á vestræna læknisfræði allt fram á nýöld. Enn sér þessarar arfleifðar merkis í ýmsum evrópskum tungumálum, þar á meðal íslensku þegar talað er um svartagallsraus eða melankolíu. Svartagall var einn umræddra vessa og var talinn stýra skapbrigðum og andlegu ástandi manna. Hinir vessarnir voru gult gall, slím og blóð. Veikindi voru talin stafa af ójafnvægi á milli vessanna og meðferðir fólust oftar en ekki í því að tilteknu magni eins eða annars vessa var hleypt af líkamanum.
Á fyrstu öld eftir Krist voru blóðtökur þegar orðnar útbreidd lækningaraðferð en vegur þeirra jókst þó til muna á annarri öld þegar rómverski læknirinn og heimspekingurinn Galen frá Pergamum lýsti því ræðu og riti hvernig blóð væri ráðandi vessi. Galen var snjall ræðumaður og rithöfundur og átti auðvelt með að hrífa fólk til fylgis við hugmyndir sínar. Áhrif hans urðu enda gríðarleg og liggja hugmyndir hans meðal annars mjög til grundvallar evrópskrar miðaldalæknisfræði.
Notkun blóðagða í læknisfræðilegum tilgangi hefur nokkuð sótt í sig veðrið á síðustu áratugum, svosem í kjölfar vefjaígræðslu. En jákvæðir eiginleikar blóðögðunnar hafa þekkst frá fornu fari. Líkt og er um blóðtöku með opnun æðar má finna vitnisburð um notkun blóðagða til lækninga meðal forn-Egypta. Elsta heimildin er áletrun í egypsku grafhýsi sem talið er vera frá árabilinu 1567-1308 f.Kr. Elsta ritaða heimildin er þó komin frá gríska skáldinu og lækninum Níkander frá Kolófón. Hann orti meðal annars ljóðabálkinn Þeríöku, Θηριακά, þar sem hann lýsir eituráhrifum ýmissa dýrabita. Þar kemur þó einnig fram það öndvegisráð að beita blóðögðum til að draga eitur úr líkama þess sem bitinn hefur verið.
Á næstu öldum um og eftir Krists burð fer síðan skrifum um notkun blóðagða til lækninga smám saman fjölgandi og er þar mælt með þeim til meðferðar við hinum ólíkustu kvillum, allt frá því að hreinsa eitur eins og fyrr hefur verið lýst til þess að bregðast við lifrarkvillum og blóðgnótt, draga úr bólgum, magaverkjum og yfirdrifinni kynþörf. Meðal annarra höfunda fornaldar sem fjölluðu um lækningagildi blóðagða eru ofangreindur Galen, Rómverjinn Plinius hinn eldri og gríski sjöundu aldar læknirinn Páll frá Aegineta. Hinn síðastnefndi hafði líkt og Galen afar mikil áhrif á bæði vestræn og íslömsk læknavísindi allt fram á nýöld og í skrifum hans og ýmissa sporgöngumanna hans lifðu blóðögðulækningar góðu lífi allt fram á 19. öld þegar þær áttu sína gullöld í Frakklandi.
Blóðtökur voru stundaðar á Íslandi eins og annarsstaðar í Evrópu og virðast hafa sótt í sig veðrið eftir siðaskipti. Mest voru þær iðkaðar af ólæknismenntuðum mönnum, svokölluðum bíldskerum. Eru þeir kenndir við bílda sem voru algeng tól til blóðtöku. Þó er einnig vitað að lækningar voru stundaðar af þjónum kirkjunnar og á Skriðuklaustri, þar sem ýmislegt bendir til að hafi verið lækningamiðstöð eða hospital fyrr á öldum, hafa meðal annars fundist tveir bíldar við uppgröft. Bæði er vitað að munkarnir í klaustrinu tóku sér blóð fimm sinnum á ári af trúarlegum ástæðum en einnig er þekkt að blóðtaka var eitt þeirra meðala sem beitt var gegn holdsveiki, sem allt fram á nítjándu öld var landlæg hérlendis sem víðar.
Í Íslenzkum þjóðháttum lýsir Jónas Jónasson frá Hrafnagili blóðtökuvenjum hérlendis á fyrri öldum. Kemur þar fram að á líkamanum hafi verið alls fimmtíuogþrír blóðtökustaðir og fór staðarval hverju sinni eftir því hvaða kvilli hrjáði sjúkling. Fyrir gat komið að opna þurfti æðar á fleiri en einum stað í einu og algengt var að fólki væri látið blæða á fimm til sex stöðum í senn. Dæmi þekktust af mun fleiri, allt upp í átján. Annað sem mjög varð að hafa í huga voru tímasetningar og taldist Jónasi til að þrettán dagar mánaðar hefðu verið taldir henta til blóðtöku, en aðrir dagar alls ekki. Þá varð ennfremur að taka aldur sjúklingsins með í reikninginn, ungu fólki skyldi taka blóð á vaxandi tungli en því eldra á minnkandi tungli.
Eins og gefur að skilja gat allnokkur hætta verið fólgin í blóðtökum, ekki síst þar sem sú trú var við lýði að ef blóðið fossaði greitt væri mikið loft í því og þeim mun brýnna að það fengi að flæða. Naumast þarf að sökum að spyrja ef bíldskeri hitti á slagæð sjúklings og ekkert var að gert í góðri trú! Eftir því sem menntuðum læknum fjölgaði smám saman hérlendis og þekking jókst á starfsemi líkamans lögðust blóðtökur smám saman af og voru mjög orðnar hverfandi upp úr 1870. Fylgdi sú þróun hér á landi hliðstæðum breytingum erlendis. Læknavísindum fleygði fram og tekið var að móta fyrir mörgu því sem einkennir greinina enn í dag. Að því sögðu er vert að skoða forsögu þess að tekið er að beita blóðgjöfum með markvissum hætti í læknisfræðilegum tilgangi á fyrri hluta 20. aldar, bæði hér á landi og annarsstaðar.
Blóðdrykkja í hringleikahúsum og dýrablóð Denis
Að ofan hefur því verið lýst hvernig blóðtaka var ein af höfuðstoðum læknisfræðinnar lengi vel mannkynssögunnar. Þó er ekki þar með sagt að engum hafi til hugar komið að gera hið andstæða, að bæta blóði í líkamann. Elstu heimildir um slíkt eru þó allólíkar og annars eðlis en nútíma blóðgjafir, einkum frásagnir af heilsusamlegum áhrifum þess að innbyrða blóð og var þá allajafna átt við drykkju þess.
Títtnefndur Galen mælti til að mynda með því að við hundaæði væri sjúklingum gefið blóð úr hreysiköttum eða hundum. Ráðleggingar sínar byggði hann bæði á krufningu dýra og eldri hugmyndum Hippókratesar svo og vessakenningunni.
Frægasta dæmið um blóðdrykkju í heilsubótarskyni er að líkindum að finna í lýsingum Pliniusar hins eldri á því hvernig áhorfendur í hringleikahúsum Rómarveldis áttu það til að ryðjast inn á svið hringleikahúsanna í þeim tilgangi að drekka blóð fallinna skylmingaþræla. Þannig töldu þeir sig geta öðlast hlutdeild í þeim krafti og því hugrekki sem bjó í skylmingaþrælnum í lifanda lífi. Svo mikil brögð urðu að þessari hegðun áhorfenda að keisarinn Septimus Severus fann sig knúinn til þess árið 193 e.Kr. að gefa út sérstaka tilskipun þess efnis að athæfi þetta væri bannað! Tengdist þessi trú rómverskra borgara ævafornum hugmyndum um að í blóðinu sé sjálfur lífskrafturinn fólginn. Sem er kannske ekki algalin hugmynd þótt í trú umræddra Rómverja hafi óneitanlega gætt allnokkurrar einföldunar.
Þessi trú Rómverjanna átti eftir að verða lífseig og er vel þekkt í sögunni. Sem þekkt dæmi úr bókmenntum og dægurmenningu mætti nefna vampíruna, sem nærist á blóði annarra og getur í krafti þess öðlast eilíft líf. Vampírur eru ekki aðeins fyrirbrigði úr bókum og kvikmyndum heldur eru þær fyrirferðarmiklar í hjátrú víða um lönd og lifðu löngum góðu lífi í alþýðutrú. Þaðan hafa þær síðan fundið sér leið inn í bókmenntir, dægurmenningu og almannavitund samtímans.
Það kann að sýnast undarlegt að tengja hugmyndina um vampíruna við blóðgjafir, en þegar rætt er um forsögu blóðgjafa er sem fyrr segir að nokkru stigið inn á svið goðsögunnar. Það er enda varla fyrr en á 19. öld sem menn fara með vísindalegum aðferðum að þekkja eiginleika og virkni blóðs, þótt mönnum hafi lærst sitthvað í gegnum aldirnar og á síðustu öldunum þar á undan hafi þekking á líkamsstarfseminni aukist til muna. Lengst af var blóðið einkum þekkt sem dulúðugur, dumbrauður vökvi sem skildi á milli lífs og dauða. Lífsvökvinn.
Annað og sértækara dæmi um hjátrú tengda blóði er saga Elísabetar Báthory. Elísabet þessi var ungversk greifynja á 16. öld og að líkindum eitt afkastamesta morðkvendi sögunnar. Í tímans rás hefur saga hennar þó afbakast nokkuð og fengið á sig þjóðsögulegan blæ. Hefur greifynjunni meðal annars verið gefið að sök að hafa baðað sig upp úr blóði fórnarlamba sinna, ungra kvenna, til að halda í æskuljómann. Sú trú á sér langa sögu og er talin eiga rætur sínar að rekja til Forn-Egypta en heimildir benda til þess að þeirra á meðal hafi þrifist trú á allsherjar lækningamátt blóðbaða. Engar heimildir benda til þess að kvitturinn um blóðböð Báthory greifynju sé á rökum reistur en hann rennir þó frekari stoðum undir það sem áður var sagt, um langlífa trú á dulúðuga eiginleika blóðs.
En nóg af hryllingi. Líkt og áður segir var það blóðtakan sem átti eftir að verða ráðandi læknismeðferð frá klassískum tíma Grikkja og Rómverja og allt fram á 19. öld. Tilraunir með blóðgjafir voru lengst af bæði fáar og umdeildar í samanburði og oftar en ekki fremur tengdar hjátrú og óglöggum ystu jöðrum læknisfræðinnar heldur en henni sjálfri.
Fyrsta dæmið um blóðgjöf sem mögulega var eitthvað í líkingu við þá sem við þekkjum úr heilbrigðisþjónustu nútímans er frá lokum 15. aldar. Samkvæmt sumum túlkunum ku páfinn Innocensíus VIII hafa þegið blóð þriggja ungra pilta í veikindum þeim sem þó áttu eftir að leiða hann til dauða. Eins og fyrr segir er um túlkun að ræða og fræðimenn eru fjarri á einu máli um það hvort Innocensíus drakk blóð piltanna eða fékk það um æð. En þótt hugmyndir manna um blóð og blóðrás væru lengi vel byggðar á hindurvitnum og hjátrú voru líka stigin skref í átt til betri þekkingar á þessu sviði. Arabíski læknirinn Ibn al-Nafis lýsti ferð súrefnissnauðs blóðs frá hjarta til lungna þar sem upptaka súrefnis fór fram og aftur til hjartans á 13. öld. En þar sem hann var uppi og starfandi á tíma bæði Mongólainnrása úr austri og krossferða úr vestri höfðu uppgötvanir hans lítil sem engin áhrif í Evrópu lengi vel.
Fyrsti Evrópumaðurinn til að lýsa fyrirbrigðinu svo óyggjandi sé vitað er Spánverjinn Michael Servetus, sem gerði það í ritinu Christianismi Restitutio um miðbik 16. aldar. Servetusi var þó ekki ætlað að hafa áhrif á lækningasöguna, en fyrir utan að rit hans væri guðfræðirit en ekki læknisfræði var það ásamt honum sjálfum bannfært, og líkt og hann sjálfur enduðu mörg eintök þess á bálkestinum. Sextánda öldin var háskaleg fyrir framsækna lækna ekki síður en guðfræðinga, en Servetus var hvort tveggja!
Það var á 17. öld sem boltin tók virkilega að rúlla. Þá tóku að birtast á prenti víðsvegar í Evrópu læknisfræðirit þar sem lesa mátti nýjar og róttækar hugmyndir um starfsemi líkamans. Smám saman nálguðust menn blóðgjafir til lækninga, viðruðu til að mynda hugmyndir um inngjöf víns í æð til heilsubótar, spreyttu sig á blóðskiptum hænsna í milli og veltu jafnvel upp hugmyndinni um blóðgjafir í æðar manna á prenti.
Eitt það sem sterkast orkaði til að kveikja þennan áhuga manna á blóði og má kalla risaskref í sögu læknavísindanna voru tilraunir, uppgötvanir og skrif enska læknisins Williams Harveys (f. 1578 – d. 1657) sem hann birti í verkinu De Motu Crodis árið 1628. Harvey nam við hinn fræga læknaskóla í Padúa á Ítalíu og byggði að nokkru á verkum forvera síns þar á bæ, Ítalans Realdo Colombo sem hafði komist að sömu niðurstöðum og Servetus um blóðrásina en alls óháð honum. Harvey staðfesti með tilraunum þær niðurstöður, bætti við þær og kom hugmyndinni um alssherjarblóðrás líkamans á framfæri. Þar með má segja að áhuga manna hafi verið vakinn fyrir alvöru. Áður hafði útbreiddasta kenningin um flæði blóðs í líkamanum verið sú að því skolaði einfaldlega fram og aftur, næsta handahófskennt eða í takti við hreyfingar líkamans. Þriðji Padúa-maðurinn sem nefna verður í þessu samhengi er Giovanne Colle sem árið 1628, sama ár og rit Harveys um blóðrásina kom út, skrifaði um blóðgjafir sem mögulega leið til að lengja líf. Líklegt verður að teljast að hann hafi þekkt til verka Harveys en ekkert bendir þó til þess að Colle hafi reynt að gera alvöru úr þessari hugmynd sinni.
Á næstu áratugum í kjölfar þessara uppgötvana lifnaði mjög yfir tilraunum aðlútandi blóðgjöfum og ritaðar heimildir eru til um ýmis tæki sem hönnuð voru í þeim tilgangi að taka mönnum blóð og gefa öðrum. Segja má að 17. öldin hafi verið gróskutími í þessum fræðum. Undarlegt nokk eru þó fáar heimildir til þess efnis að blóðgjöf hafi verið reynd. Tilraunir voru þó gerðar á skepnum, hundum einkum, með gjöf ýmissa vökva og lyfja í æð. Þegar komið er fram yfir miðja öldina fer svo að bera á raunverulegum tilraunum til blóðgjafa. Nokkur áhöld eru um nákvæmar dagsetningar fyrstu blóðgjafanna en heimildir benda þó sterklega til þess að fyrstur til að framkvæma blóðgjöf frá skepnu til skepnu hafi verið enski læknirinn Richard Lower, í nóvember 1666. Fyrstur til þess að framkvæma blóðgjöf frá skepnu til manns var þó að líkindum Jean Denis, einn hirðlækna Lúðvíks XIV Frakklandskonungs – Sólkonungsins – í júní 1667. Áhugavert er að Lower virðist hafa hugsað tilraunir sínar á nótum líkari þeim sem gert er nú til dags en Denis. Þannig kynnti Lower niðurstöður sínar fyrir enska vísindafélaginu og lýsti því hvernig hann framkvæmdi velheppnaða blóðgjöf á hundi.
Denis á hinn bóginn hugsaði blóðgjafir sem meðferð við geðveiki. Það var einmitt þess vegna sem hann kaus að nota lambsblóð til tilrauna sinna fremur en mannsblóð, hann taldi það laust við ástríður og lesti – og má í þeirri skoðun hans sjá hve fornar hugmyndir um blóðið voru þrautseigar. Denis gerði fjölda tilrauna árið 1667 og fram á 1668 en þá kom að tilraun sem átti eftir að hafa afdrifarík áhrif á sögu blóðgjafa um langt skeið.
Denis var þá fenginn til að taka til meðferðar hinn þrjátíuogfjögurra ára gamla Antoine Mauroy sem lýst var sem óðum. Lýsti sjúkleiki hans sé að sögn meðal annars í því að hann hljóp allsnakinn og öskrandi um götur Parísar. Denis gaf Mauroy blóð úr kálfi. Um tíma í kjölfar aðgerðarinnar var tvísýnt um líf Mauroys en þó braggaðist hann að lokum. Lifði hann svo nokkra mánuði uns hann lést að því er virtist óforvarendis. Það tók íhaldssöm læknastétt Parísarháskóla óstinnt upp og fór svo að tilraunir með blóðgjafir voru alfarið bannaðar í Frakklandi. Sá úrskurður hafði áhrif yfir til Englands þar sem sambærilegar tilraunir lögðust af og árið 1679 fór svo að sjálfur páfinn í Róm lýsti yfir banni á blóðgjöfum. Að því sögðu er vert að benda á að skilningur þeirra 17. aldar manna sem fengust við tilraunir með blóðgjafir var fjarri þeim sem síðar varð og í engu tilfelli var blóðgjöf beinlínis nefnd sem meðferð við alvarlegri blæðingu.
Blundell, Pasteur og Landsteiner
Hugmyndinni um blóðgjöf sem meðferð við alvarlegum blóðmissi var fyrst velt upp árið 1749 af Frakkanum Cantwell að því er best er vitað. Þá átti þó enn eftir að líða allnokkur tími uns tekið var að gera tilraunir sem horfðu að einhverju verulegu marki í átt til nútíma blóðgjafalækninga. Fyrst og fremst voru það tilraunir enska fæðingarlæknisins James Blundells (f. 1790 – d. 1877) sem komu hreyfingu á þessi mál á nýjan leik. Með nokkurri vissu má segja að Blundell hafi fyrstur manna framkvæmt blóðgjöf á milli tveggja manneskja. Þess ber að geta að á fyrri hluta 19. aldar voru enn um það talsverð áhöld meðal evrópskra lækna hvort blóðgjafir hefðu yfirleitt nokkuð til síns gildis og tilraunir Blundells því fjarri sjálfgefnar.
Um nokkurra áratuga skeið framkvæmdi Blundell fjölda tilrauna með blóðgjafir manna á milli, sem gengu misvel. Líkleg dagsetning fyrstu blóðgjafarinnar þar sem manneskju var gefið blóð úr annarri manneskju er 22. desember 1818. Blundell áttaði sig á því að ótækt væri að blanda blóði ólíkra tegunda og byggði það á eigin tilraunum. Þrennt má þó nefna sem einkum stóð í vegi fyrir honum: Fyrst er ABO-blóðflokkakerfið sem enn var handan sjóndeildarhrings læknavísindanna lengst af 19. öld. Í öðru lagi skal nefna sýkingarhættu, sem ekki var byrjað að leysa fyrr en með uppgötvunum Pasteurs þaraðlútandi á 7. áratug aldarinnar. Eins og gefur að skilja var sýkingarhætta því æði mikil þegar blóðgjafir áttu sér stað. Í þriðja lagi var sá vandi sem stafaði af kekkjun blóðs og ekki fannst praktísk lausn á fyrr en komið var fram á 20. öld.
Á árabilinu 1818 til 1829 framkvæmdu Blundell og samstarfsmenn hans alls tíu blóðgjafir, hvar af aðeins fjórar virðast hafa haft tilætluð áhrif. Af heimildum má reyndar ráða að í tveimur tilfellanna hafi sjúklingar hreinlega verið látnir áður en þeir komu til meðferðar hjá Blundell. Mikilvægi framlags hans verður þó tæpast ýkt. Eitt það sem merkast er í störfum Blundells er það hversu hann brýndi fyrir meðlæknum sínum að beita blóðgjöfum til sængurkvenna sem misst höfðu mikil blóð við fæðingu. Það var enda einmitt í þessum tilgangi sem áhugi hans á blóðgjöfum vaknaði. Árið 1824 lýsti Blundell á prenti aðferð við að dæla blóði beint úr blóðgjafa í blóðþega en þó beitti hann þeirri aðferð aldrei sjálfur, heldur safnaði blóði í þartilgert ílát og dældi því síðan þaðan yfir í sjúklingana. Árið 1830 virðist Blundell hafa misst áhugann á lækningum og lét hann í kjölfarið af þeim störfum, en hann var þá auðugur maður og hafði ráðrúm til að snúa sér að öðrum hugðarefnum. Það var svo annarra að stuðla að viðgangi þeirrar þróunar sem heita má að hann hafi hrint af stað.
Blóðgjöfum óx smám saman ásmegin á áratugunum í kjölfar starfs Blundells. Rússneskur læknir sem kynnst hafði störfum Blundells og félaga í Lundúnum framkvæmdi að líkindum fyrstu blóðgjöfina í Rússlandi árið 1832 en heimildir benda til að blóðgjafir hafi tæpast verið stundaðar í Bandaríkjunum fyrr en árið 1854. Áður höfðu þær verið framkvæmdar allvíða um Evrópu.
Fyrstur manna til að nýtast við aðferð til að færa blóð beint úr gjafa til þega var svissneski læknirinn J. Roussel, árið 1865. Það sama ár gerði Louis Pasteur líka merkar uppgötvanir sínar á áhrifum sýkla- og sveppasýkinga sem áttu eftir að hafa mikil áhrif innan læknavísindanna í heild. A.E. Wright birti árið 1894 niðurstöður tilrauna sinna með saltlausnir til að koma í veg fyrir kekkjun en þá áttu þó eftir að líða tveir áratugir og ári betur uns nothæfar lausnir á þessu vandamáli fundust og tóku að hreyfa verulega við þróun nútíma blóðbankatækni. Þess ber þó að geta að frá 8. áratug 19. aldar höfðu menn prófað sig áfram með það að fjarlægja fibrín úr blóði til að koma í veg fyrir kekkjun þess, með dálitlum árangri. Þjóðverjinn Leonard Landois sýndi árið 1875 fram á það með tilraunum hví ekki var fýsilegt að blanda saman blóði ólíkra dýrategunda, en merkilegt nokk höfðu tilraunir með gjafir á milli tegunda haldið áfram fram eftir öldinni og áttu sér öfluga málsvara lengi vel fram til uppgötvunar Landois. Þá má nefna einkennilega uppsveiflu í tilraunum til mjólkurgjafar í æð í Bandaríkjunum á 8. áratug aldarinnar. Það ævintýri var þó skammvinnt og leið undir lok um árið 1880.
Svo sem sjá má höfðu blóðgjafarfræði komist furðu skammt á veg í lok 19. aldar, frá því sem verið hafði heilum tveimur og hálfri öld fyrr. Mestu framfarirnar fram á við í þessum geira urðu í byrjun 20. aldar þegar nothæfar sótthreinsunaraðferðir fundust, þróaðir voru nothæfir storkuvarar og ABO-blóðflokkakerfið var uppgötvað.
Rover-skátar og blóðgjafasveitir
Framan af var blóðgjafarþjónusta víðast hvar í veröldinni í formi sveita sjálfboðaliða sem verið höfðu blóðflokkagreindir og skráðir og skuldbundu sig til að mæta þangað sem þeirra var þörf og gefa blóð þegar kallið barst. Fyrsta starfsemin sem skipulögð var á þessa vísu hérlendis var blóðgjafasveit Rover-skáta Væringjafélagsins í Reykjavík, sem sett var á laggir árið 1935.
Blóðgjafir voru þá enn sem komið var framkvæmdar í mun minni mæli en síðar varð. Fyrir tíma blóðgjafaskrár skáta ku hjúkrunarnemar, læknakandidatar og fleiri einkum hafa verið fengnir til að gefa blóð eftir því sem aðstæður kröfðust en vitanlega var sú tilhögun lítt áreiðanleg. Reyndar voru ástæðurnar fyrir því öllu skrautlegri en maður gæti ímyndað sér nú á tímum, en á þessum tíma var sú hugmynd ráðandi innan læknisfræðinnar að karlmenn væru heppilegri til blóðgjafa en konur og hjúkrunarnemarnir því ekki ákjósanlegir blóðgjafar! Reynt hafði verið að leysa úr þessari klemmu sjúkrahússins með því að fá lögregluþjóna bæjarins til að gefa blóð þegar þurfa þótti en þeirri umleitan lækna Landspítalans var synjað af yfirmönnum lögreglunnar í Reykjavík.
Það urðu því skátarnir sem fyrstir urðu til þess að stofna með sér félagsskap um blóðgjafir. Þetta tiltæki reykvískra Rover-skáta var ekki tilkomið fyrir einskæra tilviljun. Enskir Rover-skátar höfðu hafið viðlíka starfsemi nokkrum árum fyrr og á ferðalagi þar í landi árið 1930 kynntist danski skátaforinginn Tage H. Carstensen starfi hinna ensku blóðgjafasveita. Carstensen flutti hugmyndina með sér heim til Danmerkur þar sem blóðgjafasveitir skáta, Spejdernes og Væbnernes Frivillige Bloddonorkorps, voru stofnaðar tveimur árum síðar, árið 1932.
Hinir íslensku Rover-skátar höfðu þessa starfsemi félaga sinna í Danmörku að fyrirmynd þegar þeir byrjuðu blóðgjafarstarfsemi sína árið 1935. Var það gert undir handleiðslu Guðmundar Thoroddsens prófessors á handlækningadeild Landsspítalans. Blóðgjafastarf reykvískra skáta var þó með heldur lausmótaðra lagi fyrstu árin en þó voru þeir skátar sem tekið gátu þátt í starfinu skráðir niður og blóðflokkaðir. Aðeins var um að ræða karlmenn en konur tóku ekki þátt í starfi Rover-skáta. Leifur Guðmundsson, sem skráður er númer sjö í blóðgjafasveitina var þeirra fyrstur til að gefa blóð samkvæmt skrá sem haldin var yfir starfsemina. Í þessa daga voru vinnferlar aðlútandi blóðgjöfum með öllu lausmótaðra lagi en síðar varð. Þegar umrædd skrá er skoðuð er til að mynda áhugavert að sjá hversu mismikið blóð menn gáfu. Ennfremur að ef tiltekinn gjafi kom oftar en einu sinni, eða oftar en tvisvar, gaf viðkomandi einatt mismikið í hvert skipti og má sjá að mönnum voru dregnir allt frá sjötíu millilítrum í og upp í áttahundruðogfjörutíu. Virðist svo vera sem þörf hverju sinni hafi mestu ráðið um það hversu mikið blóð menn gáfu.
Það var svo á fundi Rover-skáta í Reykjavík í ársbyrjun 1939 sem upp kom sú hugmynd að stofna formlega blóðgjafasveit. Úr varð að á fundinum var samþykkt reglugerð fyrir sveitina, nafn hennar ákveðið „Blóðgjafasveit skáta í Reykjavík" og stofnendur hennar taldir allir þeir skátar sem gefið hefðu blóð. Sveitin kom saman um vorið sama ár og var þeim Jóni Oddgeiri Jónssyni og Þorsteini Bergmann falið að vinna að skipulagningu og frekari eflingar sveitarinnar. Þeir Jón og Þorsteinn urðu einskonar varðstjórar sveitarinnar og til þeirra leituðu læknar þegar á blóði þurfti að halda og sáu þeir þá um að virkja meðlimi sveitarinnar. Meðlimirnir voru blóðflokkaðir og undirgengust læknisskoðun tvisvar á ári og fengu skírteini þar sem fram komu blóðflokkur þeirra og staðfesting þess að þeir hefðu undirgengist læknisskoðun. Var til þess mælst að félagar í blóðgjafasveitinni lifðu heilbrigðu líferni, neyttu áfengis í hófi og reyktu lítið! Meginreglan var sú að blóðgjafi gæfi um fimmhundruð millilítra blóðs í hvert skipti en þó gat svo farið að þeir yrðu að gefa upp undir einn lítra. Varðstjórarnir sáu svo um að hæfilegur tími liði á milli blóðgjafa hvers skáta, að minnsta kosti þrír mánuðir. Fljótlega eftir stofnun sveitarinnar voru meðlimir hennar orðnir fimmtíu talsins. Í framhaldi af stofnuninni tóku svo ýmsir aðrir hópar sig til og stofnuðu formlegar sveitir blóðgjafa, sem einnig störfuðu í samstarfi við heilbrigðisstarfsfólk. Hefur þessi siður að nokkru haldið velli eftir stofnun Blóðbankans þó með óformlegra móti sé, og mætti í því samhengi nefna starfsmenn ýmissa fyrirtækja og stofnana, meðlimi nemendafélaga, félagasamtaka svo sem Lions og Round Table og fleiri. Til að byrja með tók Landspítali upp á því með sjálfum sér að greiða dálitla þóknun fyrir blóðgjafir líkt og þá tíðkaðist víða erlendis, fimmtán krónur fyrir hverja gjöf. Skátarnir stofnuðu árið 1940 með sér sérstakan sjóð, sjúkrasjóð skáta, og runnu allar greiðslur vegna blóðgjafa beint í hann. Úr honum var sjúkum skátum síðan veitt eftir þörfum. Árið áður en hin formlega blóðgjafasveit skáta var stofnuð fengu blóðgjafar úr röðum skáta þrjúhundruðfjörutíuogfimm krónur fyrir vikið. Á fyrsta heila starfsári sveitarinnar, 1941, gáfu meðlimir hennar alls um fjórtán lítra af blóði í þrjátíu blóðgjöfum.
Starfsemin var þó með allólíku lagi framan af þar eð ekki var eiginlegum blóðbanka fyrir að fara og möguleikar til geymslu blóðs ekki fyrir hendi. Blóðgjafa og blóðþega var því stefnt saman upp á Landspítala eða annarri sjúkrastofnun eftir atvikum og blóðið leitt beint úr gjafanum yfir í þegann. Ýmislegt fleira við þessa starfsemi kann að koma okkur nútímafólki spánskt fyrir sjónir svo sem það að til að tryggja flæði blóðs í rétta átt var hafður hæðarmunur á bekkjum gjafa og þega svo að blóð streymdi niður frá gjafanum, jafnt þótt að notast væri við þartil gerða dælu. Þá var á þessum tíma beitt staðdeyfingum við blóðgjafir sem ýmsir þeir sem þekktu tímana tvenna í blóðgjafahlutverkinu sögðu síðar meir að hefðu síst verið til þess fallnar að gera aðgerðina þægilegri! Það kann að virðast hjákátlegt en er þó ekki svo mjög úr takti við blóðgjafir á síðari tímum að reynt var að koma í veg fyrir að gjafi og þegi sæjust, jafnt þótt þeir lægju hlið við hlið. Enn fremur var þess svo gætt að þeir fengju ekki pata af nöfnum hvor annars. Eitt er það svo sem ekki er á minnstu skjön við það sem við eigum að venjast í dag en það er sá siður að bjóða blóðgjöfum að þiggja veitingar eftir blóðgjöf, í öllu falli kaffi, gosdrykk eða ávaxtasafa. Hefur sá siður haldist alla tíð.
Árið 1941 hóf Rauði kross Íslands beina aðkomu að blóðbankamálum á landinu þegar hann gekkst fyrir stofnun blóðgjafaþjónustu líkri þeirri sem stofnuð var á Englandi tuttugu árum fyrr. Í 12. tölublaði Sjómannablaðsins Víkings frá árinu 1941 er fjallað um þetta framtak og í því samhengi talað um stofnun blóðbanka. Má því að vissu leyti segja að þar sé um að ræða fyrstu stofnun blóðbanka á Íslandi, þótt ekki sé þar átt við blóðbanka í þeim skilningi sem lagður er í það hugtak í dag. Er það í öllu falli hið fyrsta sem birtist um blóðbankastarfsemi á prenti á Íslandi. Í Víkingi kemur enn fremur fram að nemendur Sjómannaskólans hafi verið fyrstir til að gefa sig fram til blóðgjafa.
Miðað við þróun þessara mála erlendis voru framfarirnar þó hægar á Íslandi, svo hægar að ýmsum þótti nóg um. Í Þjóðviljanum 31. desember 1947 birtist harðorð grein eftir Ragnheiði Ólafsdóttur sem spurði þess hví ríkisstjórnin sæji ekki til þess að stofnaður yrði eiginlegur blóðbanki í landinu, til að leysa af hólmi „það úrelta fyrirkomulag, að nokkrir skátapiltar og stúlkur gefa blóð öðru hvoru." Í greininni vísar Ragnheiður til eigin reynslu frá Svíþjóð þar sem almennir blóðbankar að hinni bandarísku fyrirmynd voru þá teknir til starfa.
Stuðningsmenn stofnunar almenns blóðbanka þurftu ekki að bíða ýkja lengi eftir því að hreyfing kæmist á málið í kjölfar skrifa Ragnheiðar. Níels Dungal, sem þá var forstöðumaður Rannsóknastofu Háskólans, skrifar grein í Stúdentablaðið árið 1948 þar sem hann lýsir heimsókn sinni í enskan blóðbanka. Í greininni kemur líka fram að áform voru þá þegar uppi um að koma á fót blóðbanka í Reykjavík. Af skrifum Níelsar má enn fremur ráða að áformin hafi þá þegar verið vel á veg komin, þótt framkvæmdir hefðu ekki enn hafist. Téður Níels var enda einn helsti hvatamaðurinn að stofnun Blóðbankans og var hlutur hans í henni slíkur að ekki væri orðum aukið að kalla hann stofnanda bankans, ef tiltaka á einn mann sérstaklega í því samhengi. Níels sá meðal annars um skipulagningu húsrýmis í Blóðbankanum til að það hentaði starfseminni. Mikið samband var líka á milli Rannsóknastofu Háskólans og Blóðbankans á fyrstu árum hans. Skrifum Níelsar til stuðnings birtist svo grein í Vísi þann 14. júlí 1948 þar sem haft er eftir Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins, að fyrirhuguð sé bygging húss fyrir blóðbanka á lóð Landspítalans. Drög höfðu þá þegar verið lögð að gerð hússins og bæðis stærð þess og tilhögun ákveðin að nokkru. Má því segja að þegar hér er komið við sögu hafi boltinn sannarlega verið farinn að rúlla.
Húsið við Barónstíg og hvað svo?
Saga Blóðbankans er kannski ekki hvað síst merkileg fyrir það hversu tvíklofin hún er. Það er að segja, í einn streng er hún vitanlega saga einnar tiltekinnar stofnunar sem ætíð hefur gegnt því hlutverki að safna blóði, flokka það og geyma fyrir sjúkrastofnanir landsins. En í annan er hún saga gjörbyltingar í starfsemi. Til dæmis um það hve starfsemin er breytt má nefna eftirfarandi: Þegar stofnunin tók til starfa árið 1953 gegndi svæfingarlæknir við Landspítala stöðu yfirlæknis í Blóðbankanum í hlutastarfi og að honum meðtöldum voru starfsmenn bankans fimm talsins eins og fyrr segir. Sextíu árum síðar, árið 2013, er yfirlæknir Blóðbankans sérstaklega ráðins til þess starfs – sem þykir sjálfsagt – og starfsmennirnir um fimmtíu talsins. Gróflega má segja að á sama tímabili og fjöldi Íslendinga hefur ríflega tvöfaldast hefur starfsmannafjöldi Blóðbankans tífaldast, og er ekki vanþörf á þar eð umsvif hafa margfaldast að umfangi og gerbreyst. Til að varpa frekara ljósi á þær breytingar sem orðið hafa á starfinu mætti nefna tilkomu veiruskimunar, blóðhlutavinnslu, tölvukerfis og strangra alþjóðalegra gæðastaðla. Jafnvel tilkomu vísindastarfs, sem í dag þykir sjálfsagður hluti blóðbankastarfsemi en var ekki fyrir að fara í árdaga stofnunarinnar. Breytingarnar felast ekki bara í nýjum og betri tólum og tækjum eða síauknum umsvifum heldur líka í nýjum starfsþáttum og gerólíku verklagi og aðferðum sem áreynslulaust hafa runnið inn í það sem kalla má reglubundna blóðbankastarfsemi. Hin auknu umsvif votta um mun meira en bara fjölgun fólks eða aukna blóðþörf í takt við hana heldur einnig um ógnarhraðfara þróun.
Þannig höfum við hina tvíklofnu sögu; sögu samfellu og rofs, fasta og breytinga. Það er saga Blóðbankans. Kannski má sjá báðar þessar hliðar sögunnar í húsnæðissögu Blóðbankans – sögu breytinga sem þó áttu sér að mestu stað í einu og sama húsinu. Einhverjum kann að þykja einkennilegt í ljósi þessa að rekja þurfi húsnæðismál Blóðbankans sérstaklega. Hann var jú til húsa að Barónstíg fyrstu fimmtíuogfjögur starfsár sín. En sagan er ekki alveg svo einföld.
Rétt er að lengst af var Blóðbankinn til húsa í sama húsinu. En hitt er víst að þar gekk á ýmsu – ítrekað voru breytingar gerðar á húsinu, það lagað að starfseminni og hún á móti að því, mikið var rætt um annað húsnæði og svo mætti lengi telja. Sem sagt, Blóðbankahúsið við Barónstíg var í raun ekki bara eitt og óbreytanlegt. Til að byrja með er rétt að ítreka það sem að ofan var sagt, að til að byrja með deildi Blóðbankinn húsinu með Rannsóknastofu Háskólans, sem hafði allan kjallara hússins til umráða utan eitt herbergi sem Blóðbankinn réði. Taldi efri hæð hússins 280 fermetra. Raunar var ekki gert ráð fyrir því við hönnun hússins að Blóðbankinn þyrfti stærri hluta þess undir starfsemi sína og birtist það til að mynda í því að ekki var innangengt á milli hæða. Efri hæð hússins var enda yfrið nógu stór fyrir starfsemi bankans til að byrja með. Líkt og áður hefur komið fram voru umsvif hans miklum mun minni í upphafi en síðar átti eftir að verða og starfsmennirnir aðeins fimm (og má þá jafnframt ítreka að fyrstu nítján starfsár bankans gengu forstöðlæknar bankans þeirri stöðu aðeins í hlutastarfi, meðfram störfum sem yfirsvæfingalæknar við Landsspítalann). Raunar var svo rúmt um starfsemina til að byrja með að í desember 1953 var undirritaður samningur þess efnis að Krabbameinsfélagi Reykjavíkur væru veitt afnot af einu herbergi á efri hæð hússins til reksturs skrifstofu. Félagið flutti inn snemma næsta árs og fljótlega bættist Krabbameinsfélag Íslands í hópinn.
Tiltölulega litlar breytingar urðu á starfsemi bankans á næstu árum og reyndist húsnæðið framan af vel. Blóðsöfnun tvöfaldaðist reyndar um það bil á árunum 1953 til 1960 en var ásamt annarri starfsemi bankans þó ekki meiri en svo að húsnæðið réð vel við hana. Til marks um það má nefna að árið 1954 stóð Rauði krossinn fyrir námskeiðum í hjálp í viðlögum, sem Elías Eyvindsson hafði umsjón með, og fór kennslan fram í húsnæði bankans.
Næst dró til tíðinda í húsnæðismálum Blóðbankans í maí 1962 þegar Krabbameinsfélög Íslands og Reykjavíkur festu í sameiningu kaup á húsnæði að Suðurgötu 22 og fluttu í kjölfarið skrifstofu sína sem verið hafði til húsa í Blóðbankanum þangað. Var það vel þar sem blóðsöfnun bankans jókst jafnt og þétt allan 7. áratuginn og var í lok hans þrefalt meiri en við upphaf hans. Það var svo fljótlega upp úr því sem húsnæðisskortur tók að gera vart við sig og hófst þá barátta fyrir stærra húsnæði sem segja má að hafi staðið allt fram til ársins 2006, jafnt þótt reglulega hafi lítillega verið stækkað við það húsnæði sem stofnunin hafði til umráða.
Enska skipulags- og ráðgjafarfyrirtækið Llewelyn-Davies Weeks Forestier-Walker & Bor skilaði árið 1972 af sér skýrslu sem nefndist „Landspítalinn: Framtíðaráætlun" og var unnin fyrir Læknadeild Háskóla Íslands og Landspítala. Í henni má sjá að ekki yrði lengi unað við þáverandi húsnæðiskost Blóðbanka. Skýrsluhöfundar eru afdráttarlausir í ummælum sínum um efnið og ekki úr vegi að láta þeim eftir orðið:
Loks eru húsnæðismöguleikar blóðbanka ófullnægjandi, og þarf að flytja hann til þess að verða við kröfum um nægilegt húsrými. Blóðbankinn þjónar öllu landinu, en húsnæði hans er of lítið, rannsóknarstofur ófullnægjandi, og lega hans mundi hindra æskileg tengsl hans við paraklínískar rannsóknardeildir, einkum deildir fyrir blóðvatns- og ónæmisfræði. Þangað þarf einnig aðkeyrslumöguleika. (Bls. 5)
Ekki aðeins benda skýrsluhöfundar á að húsnæði bankans sé of lítið – þeir töldu bankann þurfa um sexhundruð fermetra til starfsemi sinnar – heldur dæma þeir það ennfremur að mörgu leyti óhentugt til þeirrar starfsemi sem þar fór fram. Síðar í skýrslunni segja höfundarnir að þeir telji æskilegast til langframa að Blóðbankinn verði tengdur annarri starfsemi sjúkrahússins mun meir, að honum verði fundinn staður
í húsnæði í læknadeildarbyggingunni sunnan Hringbrautar, nálægt paraklínískum deildum. Ef seinka þarf flutningi blóðbanka, og ef nýbygging slysa- og skyndilækningadeildar hefur ekki þá verið hafin, verður hagkvæmt að bæta úr núverandi húsnæðisskorti blóðbankans með því að bæta við hann til bráðabirgða rými í meinafræðibyggingunni, blokk J. Við teljum samt sem áður, að heppilegri staður fyrir hann sé sunnan Hringbrautar. Gert verður ráð fyrir blóðgeymslum í spítalanum. (Bls. 13)
Að þessu sögðu ber að hafa í huga að skýrsluhöfundar hugsa umsögn sína sem langtímaáætlun er taki til spítalasvæðisins alls og þar sem gert er ráð fyrir að heita má algerri endurbyggingu Landspítala. Engu að síður benda þeir á að úrbóta sé þegar þörf, að húsnæðismál séu þegar í ólestri. Þannig leggja þeir til að sem bráðabirgðaráðstöfun verði bankanum fengið eitthvað fjögurhundruð fermetra húsnæði til umráða, á meðan þess sé beðið að starfseminni verði fundinn staður í þeim sexhundruð fermetrum sem þeir telja að þurfi undir hana. Starfsemi bankans var enda farin að taka stórstígum breytingum, ekki aðeins í umsvifum heldur eðli einnig. Auk þess sem blóðsöfnun hélt áfram að aukast allan áratuginn líkt og þann fyrri höfðu smám saman bæst við ýmsir aðrir starfsþættir, markvisst rannsóknastarf var hafið, almennar Rhesus-varnir, veiruskimun blóðs, vinnsla blóðvökva og sitthvað fleira eins og raunar má ráða af fyrri tilvitnuninni í skýrsluna. Það er því hægur vandi að ímynda sér að húsnæðisþörfin hafi aukist umtalsvert.
Samdóma umsögn skýrsluhöfundanna ensku eru orð Ólafs Jenssonar þá tiltöluleg nýráðins yfirlæknis Blóðbankans í samtali við dagblaðið Tímann í ágúst árið eftir. Segir Ólafur húsnæðismál bankans vera slæm, hann þurfi minnst tvöfalt stærra húsnæði til að geta sinnt hlutverki sínu almennilega og innt af hendi þau verkefni sem honum bar. Bæta þyrfti aðstöðu fyrir bæði blóðgjafa og starfsfólk auk þess sem pláss skorti til rannsóknastarfs. Ólafur hafði raunar byrjað að berjast fyrir auknu húsrými Blóðbankanum til handa árið áður. Þann 10. mars 1972 sendi Ólafur stjórnarnefnd Ríkisspítalanna bréf þar sem hann fer þess á leit að byggð verði hæð ofan á Blóðbankahúsið. Segir hann jafnframt að vegna þrengsla sjái hann sér ekki fært að biðja um fjölgun starfsfólks nema sem svari starfsgildi einnar rannsóknarkonu en hann taldi að bankinn yrði að fjölga starfsfólki talsvert meir til að geta rækt hlutverk sitt almennilega. Nefndarmenn tóku ekki illa í tillögu Ólafs og í bókun frá fundi nefndarinnar hinn 23. október 1972 er samþykkt að nefndin mæli með því að hæð verði byggð ofan á húsið. Enn fremur er þar lagt til að þeirri starfsemi Rannsóknastofu Háskólans sem enn var í kjallara Blóðbankahússins verði tímabundið fundinn staður í leiguhúsnæði að Eiríksgötu 5. Athugasemdin um Rannsóknarstofuna er ekki tilkomin af framsýni einni saman. Ólafur hafði nefnilega ekki látið sér nægja að skrifa bréf um húsnæðisvanda Blóðbankans heldur hafði hann um haustið 1972 tekið að ryðja starfsemi Rannsóknastofunnar í kjallaranum burt, herbergi fyrir herbergi og koma þar í staðinn upp rannsóknaraðstöðu fyrir Blóðbankann. Segja má að umrætt ár hafi verið nokkurs konar kreppuár í húsnæðismálum beggja áðurnefndra stofnana, því ekki var síður þrengt að Rannsóknarstofunni árið 1972 eins og raunar um nokkurra ára skeið og er því ekki að undra að til nokkurs núnings hafi komið.
Það fór þó ekki svo að af ofanábyggingunni yrði jafnt þótt stjórnarnefndin hafi ályktað í þá veru. Um vorið 1973 hefur nefndin endurskoðað afstöðu sína lítillega, það er að segja að hún leggur til að Blóðbankanum verði fengið húsrými í fyrsta byggingaráfanga nýbygginga fyrir rannsóknarstofnanir á Landspítalalóð en þær framkvæmdir voru þá áætlaðar fyrr en seinna. Gæti hins vegar ekki orðið af þessu, bætti nefndin við, yrði ekki hjá því vikist að grípa til bráðabirgðalausna svo sem þeirrar sem Ólafur hafði lagt til. Hugmyndin um ofanábyggingu Blóðbankans átti eftir að dúkka upp höfðinu oftar á komandi áratugum og lifði lengi með Ólafi.
Það húsnæði sem bankinn hafði til umráða stækkaði enda nokkuð á 8. áratugnum þótt hvorki kæmi sú stækkun til í formi rýmis í nýbyggingu né nýrrar hæðar. Enn minnkaði það rými sem Rannsóknastofa Háskólans hafði til afnota í kjallara Blóðbankahússins árið 1976 og fékk Blóðbankinn það rými þá undir starfsemi sína. Árið 1976 flutti Rannsóknastofa Háskólans endanlega út úr kjallara hússins þegar reist var bráðabirgðahús henni til handa á lóð Landspítalans, svo bankinn hafði þá loks allt húsið til umráða. Var svo komið að á tuttuguogfimm ára afmæli bankans árið 1978 hafði hann yfir um það bil tvöfalt meira húsrými að ráða en í byrjun áratugarins, alls um fimmhundruðogsextíu fermetrum. Að því sögðu má þó minna á það sem segir í skýrslu Llewelyn-Davies Weeks Forestier-Walker & Bor frá árinu 1972, að þá þegar var það mat sérfræðinga að bankinn þyrfti að lágmarki sexhundruð fermetra undir starfsemi sína.
Síðla árs 1978 var ráðist í frekari framkvæmdir við Blóðbankahúsið sem urðu til þess að auðvelda starfsemi bankans nokkuð um sinn. Var þá byggt stigahús við gömlu bygginguna svo innangengt var á milli hæða, en svo hafði ekki verið fram að því. Í stigahúsinu voru ennfremur tvö herbergi og hafði viðbyggingin verið hönnuð með það í huga að hún styddi við þær breytingar sem gera varð á innra skipulagi Blóðbankahússins sem taldar voru óhjákvæmilegar þegar hér var komið. Starfsemi bankans hafði enda tekið stórstígum breytingum árin á undan, með stofnun nýrra rannsóknareininga og -deilda. Þrátt fyrir þessar breytingar mátti húsnæði bankans þó tæpast vera minna enda hafði hann þá búið við mikinn hússnæðisskort um alllangt skeið eins og rakið hefur verið.
Það má enda sjá þegar skoðaðar eru skýrslur Ríkisspítala frá 9. áratugnum að endurbæturnar sem gerðar voru árið 1978 voru skammgóður vermir. Segja má að þar verði til fastur liður í kaflanum um Blóðbankann, þar sem drepið er á slæmu ástandi í húsnæðismálum stofnunarinnar. Þrátt fyrir ítrekaðar umkvartanir forstöðulæknis og annarra starfsmanna stofnunarinnar urðu lengi vel litlar breytingar á stöðu mála. Eigi að tiltaka nokkuð yfirhöfuð mætti ef til vill nefna viðgerð á þaki Blóðbankahússins árið 1979, en hún var þá orðin afar brýn! Athyglisvert er að húsnæðismál bankans haldist óbreytt á 9. áratugnum þegar það er haft í huga að áfram héldu miklar umbreytingar á starfsemi hans. Sú stöðuga aukning sem varð í blóðsöfnun bankans allt frá byrjun 7. áratugarins stöðvaði þó loks árið 1984, og má rekja þá breytingu til tilkomu HIV-veirunnar og ótta fólks við hana. Þessi samdráttur í blóðsöfnun þýddi þó síst að starfsemi bankans drægist saman enda jókst blóðhlutavinnsla mjög á sama tíma auk þess sem blóðsöfnun tók fljótlega að aukast á nýjan leik. Blóðhlutavinnslan var sérstaklega fyrirferðarmikil og tengdist því mjög að árið 1986 var byrjað að framkvæma hjartaskurðaðgerðir hérlendis sem eins og gefur að skilja jók þörf fyrir blóðhluta gífurlega. Það var því nokkur þraut að rýma alla starfsemi bankans í hinu mjög svo takmarkaða húsnæði.
Það ber nokkuð merkilegt vitni um hina undarlegu stöðnun í húsnæðismálum bankans að árið 1988 virtist sem enn væri að komast hreyfing á byggingu hæðar ofan á Blóðbankahúsið. Samþykkti borgarstjórn þá teikningar af þriðju hæð sem embætti húsameistara ríkisins hafði unnið. Sem fyrr varð þó ekki af framkvæmdum um sinn en þremur árum síðar, árið 1991, var í útgjaldaáætlun ríkisspítala fyrir árið 1992 gert ráð fyrir þrjátíu milljónum króna til stækkunar á Blóðbankanum. Virtist þá sem af hinum löngu fyrirhuguðu framkvæmdum ætlaði loks að verða. Ekki var þó ráðist í umræddar framkvæmdir árið 1992. Þann 11. nóvember 1993 birtist í Tímanum grein um Blóðbankann í tilefni af fjörutíu ára starfsafmæli hans. Þar er rætt við Ólaf Jensson um starfsemi bankans og koma húsnæðismálin til tals. Segist Ólafur þar „vænta þess að hafist verði handa við byggingu hæðar ofan á Blóðbankahúsið á næsta fjárhagsári[.]" Þá voru liðnir ríflega tveir áratugir frá því að Ólafur hreyfði fyrstur manna hugmyndinni og kom henni á framfæri við yfirstjórn Landspítalans. Skemmst er frá því að segja að Ólafi varð ekki að ósk sinni. Hringferð þessarar hugmyndar á tveimur áratugum, sem lá meðal annars utan um brottflutning Rannsóknarstofu Háskólans úr kjallara og byggingu stigahúss, sýnir það kannski best hversu mikils vandræðagangs gætti í húsnæðismálum bankans. Áratugum saman var ljóst að ekki yrði við svo unað en hvernig sem á því stóð virtust ekki koma fram hugmyndir að framtíðarbreytingum sem sátt náðist um eða sem unnt var að framkvæma. Þannig varð lítil breyting á þessum málum sem þó skiptu svo miklu fyrir starfsemi stofnunarinnar. Aðeins voru gerðar bráðabirgðaendurbætur þegar starfsemin krafðist þess svo mjög að hún myndi hreinlega stöðvast ef ekkert yrði að gert. Þó gekk þetta svo enn um sinn.
Árið 1994 voru enn gerðar nokkrar endurbætur á Blóðbankahúsinu, einkum á aðstöðu blóðgjafa. Var ráðist í þær framkvæmdir í kjölfar skipulagsbreytinga á tölvu- og tækjavæðingu bankans. Enn um sinn urðu slíkar innri tilfæringar einu breytingarnar sem gerðar voru á húsakosti bankans enda þótt löngu væri ljóst að starfsemin krefðist stóraukins húsnæðis. Þegar Ólafur Jensson lét af stöðu yfirlæknis í lok árs 1994 hafði hann starfað við bankann í tuttuguogtvö ár og allan þann tíma barist fyrir stærra húsnæði. Vissulega höfðu orðað talsverðar breytingar á aðbúnaði bankans og húsakosti hans við Barónstíg, en engin bylting hafði þó orðið þar á og raunar voru húsnæðismálin enn með lagi líku því sem talið hafði verið óviðunandi í Weeks-skýrslunni svonefndu frá árinu 1972.
Undir lok 10. áratugarins kom til tals hjá stjórn Ríkisspítalanna að Blóðbankinn fengi nýjan og hentugri samastað í nýrri og endurbyggðri Templarahöll. Í viðtali við Morgunblaðið sagði Sveinn Guðmundsson yfirlæknir bankans það hús hafa ýmsa kosti sem henta myndu rekstri Blóðbankans, en þó komst þessi tillaga aldrei af hugmyndastiginu.
Árið 2002 kom enn fram hugmynd að verulegum endurbótum á húsnæðismálum bankans. Stjórn Landspítala - Háskólasjúkrahúss fór þess þá á leit við skipulagsyfirvöld í Reykjavík að fá að byggja um 960 fermetra viðbyggingu á þremur hæðum við húsnæði Blóðbankans. Komst nokkur hreyfing á þessi mál. Framkvæmdastjórn LSH beitti sér fyrir áætlanagerð og undirbúningi fyrir viðbygginguna sem hugsuð var til framtíðar og með henni skyldi verða hægt að leiða starfsemi bankans inn í nýja tíma. Í ársskýrslu LSH fyrir árið 2002 segir berum orðum að húsnæði bankans sé „fyrir löngu orðið of þröngt og ófullkomið fyrir starfsemina." Skemmst er frá því að segja að ekkert var af umræddum áformum. Ásmundur Brekkan, prófessor emeritus og fyrrum forstöðulæknir, kom með enn eina tillögu í grein í Morgunblaðinu árið 2005 þegar hann lagði til að Blóðbankanum yrði fundinn staður í gömlu Heilsuverndarstöðinni, sem hann kvað henta vel til þess hlutverks. Ekkert varð frekara úr þeirri hugmynd en um þetta leyti virtist þó vera svo sem að loks kynni að verða af flutningi Blóðbankans í hentugra húsnæði. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2006 var „heilbrigðisráðherra heimilt að selja gamla Blóðbanka-húsið á horni Barónstígs og Eiríksgötu og kaupa eða leigja annað hentugra[,]" líkt og segir í Stjórnartíðindum frá desember 2005. Komust þessi mál í kjölfarið á fullt skrið og í júní 2006 fékk Blóðbankinn, þá enn til húsa við Barónsstíg eftir heil fimmtíuogþrjú ár, leyfi heilbrigðisráðuneytis og fjármálaráðuneytis til að flytja starfsemi sína um haustið í leiguhúsnæði við Snorrabraut 60, þar sem Skátabúðin og síðar líftæknifyrirtækið Urður Verðandi Skuld höfðu áður verið til húsa. Nokkur styr átti eftir að standa um skiptingu nýja hússins, en hvernig sem á það var litið voru flutningarnir gríðarstórt skref fram á við. Það var svo loks hinn 7. maí 2007 sem Blóðbankinn hóf starfsemi í nýjum húsakynnum sínum að Snorrabraut 60, eftir fimmtíuogfjögur ár í upprunalegu húsnæði sínu. Í því ljósi einu saman mega flutningarnir kallast tímamót. Bankinn er enn að Snorrabraut 60. Húsið er á þremur hæðum og telur um sextánhundruðogfimmtíu fermetra og til að byrja með var gert ráð fyrir að Blóðbankinn fengi um tólfhundruð fermetra þar af til afnota. Síðar hefur enn rýmkað um starfsemi bankans og er húsið allt nú haft undir starfsemi hans. Á miðhæð fer fram móttaka blóðgjafa og blóðsöfnun og þar er að finna hina frægu kaffistofu Blóðbankans. Á fyrstu hæð og þeirri þriðju fer síðan fram önnur starfsemi, blóðhlutavinnsla, geymsla, þjónusturannsóknir og fjölbreytt vísindastarf auk þess sem þar eru matsalur og önnur aðstaða fyrir hinn stóra hóp starfsólks sem núorðið starfar við bankann.
Þegar Blóðbankinn tók til starfa haustið 1953 voru starfsmenn hans fimm. Í dag eru þeir um fimmtíu. Í ljósi þess mætti segja – óvarlega og án sérstakrar sögulegrar úttektar – að hann hafi tífaldast að umsvifum á þeim sextíu árum sem liðin eru frá stofnuninni. Blóðsöfnun hefur reyndar aukist mun meir en svo en ekki er þó ætlunin hér að fara út í nákvæma útreikninga á stækkun bankans. Hitt er áhugavert að skoða hvernig starfsemi bankans hefur breyst í tímans rás.
Til hæginda verður þróunarsögu bankans gróflega skipt í þrjá hluta. Fyrst er að nefna blóðsöfnun, þá blóðhlutavinnslu og þjónusturannsóknir og í þriðja lagi vísindastarf. Enn mun svo hinum þremur hlutum að nokkru skipt eftir efni. Það væru ýkjur að kalla mörk þessara þriggja sviða fljótandi, hið rétta er að þau eru ekki til. Hvað sem öllum deildarskiptingum líður verður sviðaskipting sögunnar alltaf tilbúningur. Skörun er mikil og flokkun tiltekinna atriða undirorpin mati hverju sinni. Með því að greina söguna í smærri þætti auðveldum við okkur þó að fá heildarsýn yfir hana, eins undarlegt og það kann að hljóma. Í öllu falli verður sýnin skýrari.
Líkt og eðli þeirrar starfsemi sem fram fer í Blóðbankanum ber með sér getur svo borið við að blóðbirgðir verði hættulega litlar. Veltur birgðastaðan á ýmsum þáttum sem að takmörkuðu eða engu lagi er í valdi bankans að stýra. Alvarlegt slys getur gert það að verkum að í einni svipan verði þörf fyrir mikið magn blóðs, blóðs sem bankinn á ekki til nema fyrir sjálfviljugar gjafir fólks og mætti því kalla endurnýjanlega en mögulega kenjótta auðlind. Blessunarlega er sjaldnast hætta á því að blóðbirgðir þrjóti en starfsreglur Blóðbankans krefjast þess að ávallt séu til ákveðnar lágmarksbirgðir blóðs í bankanum. Veldur þetta því að stundum þarf að gera sérstakar ráðstafanir til að mæta blóðþörf. En það kemur líka fyrir að í Blóðbankanum þurfi að hafa sérstakan viðbúnað án þess að með honum sé verið að bregðast við orðinni blóðþörf. Þannig hefur nokkrum sinnum brugðið svo við að Blóðbankinn hefur orðið að gera sérstakar ráðstafanir án þess að slys hafi borið að garði, án þess að þörf sé fyrir sérstaklega mikið blóð til gjafar þá stundina. Fæstir leiða sjálfsagt hugann að því að Blóðbankinn er meðal þeirra aðila sem þurfa að hafa sérstakan viðbúnað þegar vissir mektargestir heimsækja Ísland.
Að líkindum hefur aldrei verið viðhafður jafn mikill viðbúnaður vegna komu nokkurra gesta til Íslands og hafður var vegna komu Mikhaíls Gorbachevs aðalritara sovéska kommúnistaflokksins og Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta á leiðtogafundinn sem haldinn var í Reykjavík haustið 1986. Segja má að borgin hafi nokkurn veginn farið á hvolf vegna fundarins, sem var enda stórviðburður á alþjóðasviði stjórnmálanna. Hvarvetna voru blaða- og fjölmiðlamenn, öryggisverðir og aðrir fylgdarmenn leiðtoganna, lögregluþjónar, mótmælendur og svo mætti lengi áfram telja. Og að sjálfsögðu var mikill viðbúnaður í heilbrigðiskerfinu. Sérstakir sjúkrabílar voru hafðir í stöðugri viðbragðsstöðu, svo og teymi lækna og hjúkrunarfólks á sjúkrahúsum. Ekki má heldur gleyma Blóðbankanum sem mátti gjöra svo vel að setja sig í hamfaraham til að verða við ströngum kröfum vegna viðveru leiðtoganna tveggja og fylgdarliða í landinu. Voru yfirlækni Blóðbankans meðal annars kunngjörðir blóðflokkar Gorbachevs og ýmissa annarra í föruneyti hans. Blessunarlega gekk fundurinn þó stórslysalaust fyrir sig, í öllu falli í bókstaflegri merkingu.
Það gerði líka stutt heimsókn Jóhannesar Páls páfa II til Íslands á ferðalagi sínu um Norðurlönd í júníbyrjun 1989. Sem gefur að skilja var þó gríðarmikill viðbúnaður vegna heimsóknarinnar enda höfðu nokkur tilræði verið gerð við líf páfans árin á undan. Meðal þess sem huga varð að var því viðbúnaður í heilbrigðiskerfinu. Í formlegu skeyti sem barst utanríkisráðuneytinu frá skrifstofu páfa í Róm, og var sent áfram til Blóðbankans, eru settar fram ýmsar kröfur um viðbúnað. Þá koma þar fram allítarlegar upplýsingar um blóðflokka páfans og fleiri úr fylgdarliði hans og kröfur um tiltekinn blóðforða. Þannig varð Blóðbankinn meðal þeirra sem hafa þurftu uppi sérstakan viðbúnað vegna heimsóknarinnar.
Þriðja og síðasta dæmið af líkum meiði snertir heimsókn Vaclavs Havels Tékkóslóvakíuforseta til Íslands í febrúar 1990. Havel, þá nýtekinn við embætti, kom í stutta opinbera heimsókn á ferð sinni vestur um haf til Bandaríkjanna. Var hann mjög í sviðsljósi og hringiðu heimsmálanna vegna stöðu Tékkóslóvakíu í því pólitíska breytingaferli sem átti sér stað í Mið- og Austur-Evrópu um þær mundir. Líkt og var í ofangreindum tilfellum var því mikill viðbúnaður hafður vegna komunnar. Litlum spurnum fór af því í fjölmiðlum, en enn var Blóðbankinn virkjaður. Sendi utanríkisráðuneytið bréf þaraðlútandi til ýmissa stjórnenda heilbrigðisstofnana, þeirra á meðal Ólafs Jenssonar yfirlæknis Blóðbankans. Í bréfinu komu fram dálitlar upplýsingar um heilsufar forsetans, þar á meðal blóðflokkur hans, auk Olgu konu hans og forsætisráðherrans Chalfa sem voru með í för. Skyldi hafa blóð í téðum flokkum á hraðbergi, færi svo að eitthvað bæri út af. En líkt og í sögunum sem að ofan voru raktar gekk heimsóknin sem betur fer fyrir sig án teljandi vandræða eða slysa og ekki kom sérstaklega til kasta Blóðbankans.
Nokkuð ber í milli öðrum síðar tíma heimildum þar sem segir að Valtýr Albertsson læknir hafi fyrstur manna hreyft hugmyndinni um stofnun blóðbanka í Reykjavík árið 1949. Hitt er víst að á fundi Læknafélagsins það ár lagði Valtýr til að stofnaður yrði blóðbanki og má ætla að upptaka málsins á þeim vettvangi hafi enn aukið þrýsting á yfirvöld um að hefja framkvæmdir. Það var svo enda hinn 17. september 1949 sem bygging blóðbankahússins á horni Barónstígs og Eiríksgötu hófst. Var byggingin sem fyrr segir sérstaklega hugsuð undir starfsemi Blóðbankans og hönnuð og byggð sem slík.
Þörfin fyrir blóðbanka sýndi sig enn greinilega í maí árið eftir þegar mislingafaraldur gekk yfir Reykjavík. Til þess að verja þá sem ástands síns eða aðstæðna vegna máttu illa við mislingasmiti var tekið upp á því að útbúa blóðvökva með mótefni til að gefa viðkomandi. Til þess að vinna blóðvökvann þurfti vitanlega blóð og því voru þeir sem höfðu smitast og náð átján ára aldri hvattir til að gefa blóð á Rannsóknastofu Háskólans. Fengju viðkomandi sjötíuogfimm krónur greiddar fyrir blóðgjöfina, að því gefnu að þeir gætu framvísað læknisvottorði smiti til sönnunar. Á þessum árum tíðkaðist það enn víða á Vesturlöndum að blóðgjafar fengju greitt fyrir viðvikið og sú tilhögun því ekki úr takti við það sem gerðist í nágrannalöndunum.
Skömmu áður en mislingafaraldurinn kom upp hafði framtíð hins væntanlega blóðbanka reyndar enn skýrst. Elías Eyvindsson var þá ráðinn sem svæfingalæknir við Landspítalann en undangengin þrjú ár hafði hann lagt stund stund á svæfingalæknisfræði svo og deyfingar við skurðaðgerðir í Mayo-spítalanum í Rochester í Minnesota – sem einmitt var í fararbroddi í blóðbankastarfsemi á heimsvísu. Elías var þá jafnframt ráðinn til Rannsóknarstofu Háskólans „og síðan til að veita forstöðu blóðbanka, ef til kemur," eins og segir í Lögbirtingarblaðinu 21. apríl 1951. Líkt og bent var á í Læknablaðinu þetta sama ár eru lok málsgreinarinnar um ráðningu Elíasar sérlega varfærnislega orðuð, ekki síst í ljósi þess að hús Blóðbankans hafði þegar hér var komið við sögu þegar verið reist að mestu. Einhver tregða var þó í kerfinu, nóg til þess að fyrrnefndur Níels Dungal sá sig ítrekað knúinn til þess í greinum í Fréttabréfi um heilbrigðismál þetta sama ár að ítreka þörfina fyrir blóðbanka í Reykjavík. Notar hann meðal annars grein sína um uppgötvun bandarískra vísindamanna á því að nýtast megi við gammaglóbúlín í blóði til að bólusetja gegn mænusótt til að hnýta í yfirvöld vegna tafa á frágangi og standsetningu Blóðbankans. Í hyggju væri einmitt, segir Níels, að vinna téð gammaglóbúlín í Blóðbankanum. Hið sama gerir Níels svo í grein sinni um blóðbankastarfsemi í Miami í Bandaríkjunum um haust 1951 þar sem hann bendir á nauðsyn blóðbanka fyrir krabbameinsmeðferðir. Níels nýtti fleiri tækifæri til að brýna nauðsyn stofnunar Blóðbankans í Fréttabréfi um heilbrigðismál, en þess má reyndar geta að hann ritstýrði því sjálfur.
Um þetta leyti virðist forvígismönnum um stofnun blóðbanka enda hafa verið farin að gremjast nokkuð töfin á stofnun hans. Kemur þetta berum orðum fram í Morgunblaðinu hinn 3. ágúst 1952. Þar kemur líka fram að húsið við Barónstíg hafði þá staðið svo gott sem fullklárað um alllangt skeið en aðeins var eftir að ganga frá innra byrði Blóðbankans og tækjum.
Sumarið 1953 var svo ráðist í lokaundirbúning að stofnun bankans og í ágúst var hann svo gott sem tilbúinn. Aðeins var þá eftir að ganga lítillega frá innréttingum en öll nauðsynleg áhöld til reiðu. Kostnaður við stofnun Blóðbankans nam alls um hálfri annarri milljón króna á þávirði og komu peningarnir að mestu úr ríkissjóði en þó lagði Reykjavíkurbær til tvöhundruðsjötíuogníuþúsund krónur til framkvæmdarinnar. Smíði sjálfs hússins kostaði um milljón krónur. Ráð var gert fyrir því að bankinn tæki til starfa um mánaðarmót októbers og septembers. Þau áform gengu að mestu eftir, með dálítilli seinkun og Blóðbankinn tók formlega til starfa hinn 14. nóvember. Blóðsöfnun hafði þó hafist í vikunni á undan og fyrsta blóðtakan var raunar framkvæmd nærri tveimur vikur fyrr, 2. nóvember. Það var svo nokkuð viðeigandi í samhengi við framtak Íslandsdeildar Rauða krossins tólf árum áður að fyrstir til að gefa blóð í hinum nýja blóðbanka voru nemendur Stýrimannaskólans og á fyrstu starfsviku hans gáfu um sjötíu þeirra blóð.
Starfsemi Blóðbankans var ekki ýkja stór í sniðum til að byrja með. Auk Elíasar Eyvindssonar yfirlæknis störfuðu fjórar manneskjur hjá bankanum, þar á meðal Halla Snæbjörnsdóttir hjúkrunarkona sem hafði kynnt sér starfsemi hliðstæðra stofnana í Bandaríkjunum og þekkti þar af leiðandi vel til þeirra. Elías hafði líka að sótt sér nokkra menntun í blóðbankafræðum til Boston í Bandaríkjunum, þar sem hann dvaldi við nám í þrjá mánuði vor og sumar 1953. Aðrir starfsmenn bankans við stofnun hans voru Ívana Eyjólfsdóttir aðstoðarstúlka, Sonja Hákonardóttir skrifstofustúlka og Guðmunda Guðmundsdóttir starfsstúlka. Þegar hér var komið við sögu var þörfin fyrir blóðbanka í Reykjavík orðin afar brýn og í ræðu Níelsar Dungal við opnun hans kom meðal annars fram að vöntun á blóði hefði að nokkru staðið í vegi fyrir því að læknar, einkum skurðlæknar, hefðu getað framkvæmt allar nauðsynlegar aðgerðir. Má af því ráða að tafir við stofnun bankans hafi staðið læknisvísindum í landinu fyrir þrifum. Um hlutverk stofnunarinnar í upphafi segir eftirfarandi í opinberum Heilbrigðisskýrslum fyrir árið 1953:
[T]ilgangur hennar [er] sá að hafa stöðugt til taks nægilegt magn af blóði, þannig að það fullnægi þörfum sjúkrahúsanna í Reykjavík og víðar, eftir því sem við verður komið. Enn fremur eru sjúklingar með alvarlegt blóðleysi sendir í blóðbankann, þar sem þeim er gefið blóð. Auk þess annast stofnunin blóðflokkun og aðrar rannsóknir í sambandi við blóðflokka.
Í skýrslunni er talað um „Reykjavík og víðar[,]" en frá upphafi var það skýrt að Blóðbankinn væri starfræktur fyrir landið allt og Níels Dungal hamraði á því í ræðunni við opnun bankans. Þegar bankinn hóf starfsemi sína var fólst hún ekki í öðru en söfnun og geymslu blóðs en þó höfðu þá þegar verið pöntuð frá Bandaríkjunum tæki til vinnslu gammaglóbúlíns, sem meðal annars var notað gegn mænusótt, úr því blóði sem ekki var notað innan þeirra þriggja vikna geymslumarka sem blóð í vörslu bankans hafði. Líkt og starfsmannafjöldi Blóðbankans við stofnun hans ber með sér var starfsemin öll miklum mun minni en síðar varð. Raunar hafði bankinn aðeins efri hæð Blóðbankahússins til umráða í upphafi. Á neðri hæðinni hafði hins vegar Rannsóknastofa Háskólans aðstöðu og voru þar meðal annars haldnar skepnur í rannsóknatilgangi! Að því sögðu er vert að skoða sögu húsnæðismála bankans.
Staðbundin blóðsöfnunarátök hafa fjarri verið eina leið Blóðbankans til að ýta undir blóðgjafir og auka birgðir sínar. Blóðsöfnunarferðir hafa líka verið stór þáttur í starfsemi bankans og raunar þess eðlis að ekki er þar alltaf rétt að tala um átök heldur frekar reglubundinn þátt starfseminnar, þótt ferðirnar hafi vissulega verið misreglulegar eftir tímabilum. Langstærsti hluti blóðsöfnunarferða hefur verið farinn á blóðsöfnunarbílum sem Rauði kross Íslands hefur frá upphafi séð um að fjármagna og útvega Blóðbankanum.
Rauði krossinn festi kaup á fyrsta blóðsöfnunarbílnum árið 1965 fyrir gjafafé frá bönkum landsins og Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Um var að ræða bíl af gerðinni Mercedes Benz sem var innréttaður sérstaklega til verksins árið á eftir og svo loks tekinn í gagnið árið 1967. Ekki var það þó svo að fólki væri tekið blóð í bílnum sjálfum heldur var búnaður fluttur í honum og blóðsöfnunarstöðvum komið upp þar sem safna skyldi hverju sinni. Lagði Blóðbankinn til sérmenntað starfsfólk til reksturs bílsins en félagar í Rauða krossinum komu líka að blóðsöfnun auk þess að sjá um skráningu.
Bíllinn var vígður hinn 1. febrúar með því að ekið var að skrifstofu borgarstjóra og tekið blóð af borgarstjóra og fleira starfsfólki. Um vorið hófst síðan eiginleg söfnun með bílnum. Í síðari hluta maímánaðar var haldið til Hafnafjarðar þar sem meðlimir Hafnafjarðardeildar RKÍ gáfu blóð, alls 31 félagi. Næst var lagt upp hinn 13. júní og haldið í Garðahrepp og næstu mánuði var farið um Reykjanes og suðurland austur að Hvolsvelli, þá um Vesturland og Snæfellsnes. Í september var svo farið alla leið norður til Akureyrar, Húsavíkur og Ólafsfjarðar, í október í Hveragerði og að Laugavatni. Loks voru nokkrir stórir vinnustaðir í Reykjavík heimsóttir í nóvember. Alls fékkst blóð úr 768 gjöfum í söfnunarferðum bílsins það árið. Ekkert var dregið af árið á eftir, fyrst lagt upp í janúar og alls safnaði bíllinn blóði úr 1050 gjöfum á árinu 1968. Enn fjölgaði þeim svo árið 1969 þegar þeir voru 1353, og árið 1970 voru blóðgjafarnir sem gáfu í bílinn 1222. Tölur fyrir árið 1970 eru ófullkomnar, færslur ná ekki nema fram í júní og afrakstur fleiri ára er ekki færður til bókar. Af fréttum dagblaða má þó sjá að áfram fór bíllinn í söfnunarferðir.
Í samtali við blaðamann Tímans síðsumars 1973 ítrekar Ólafur Jensson, yfirlæknir Blóðbankans, mikilvægi bílsins. Á viðtalinu má þó líka sjá að bíllinn má muna sinn fífil fegurri þegar blaðamaður bætir því við að bíllinn sé talsvert mikið notaður, „þótt hann sé svolítið úr sér genginn[...]." Raunin var enda sú að árið eftir var bíllinn góði dæmdur ónýtur og starfsemi hans hætt. Þegar í stað var hafin leit að staðgengli og ráð gert fyrir því að nýr bíll yrði kominn til landsins í nóvember 1974. Aftur má sjá á blaðaumfjöllun að bíllinn var mikið á ferðinni árið 1976. Þá um sumarið var meðal annars sett fjöldamet í einu stoppi bílsins þegar alls hundraðsextíuogsex starfsmenn við Sigöldu gáfu blóð!
Þegar kom fram á 9. áratuginn fólst hreyfanleg starfsemi Blóðbankans einkum í því að bílar á vegum Rauða krossins voru notaðir til að ferja starfsfólk fyrirtækja og stofnana, nemendur skóla á höfuðborgarsvæðinu og fleiri í Blóðbankann. Þó var áfram reynt að safna blóði á landsbyggðinni eftir föngum og meðal annars fór starfsfólk Blóðbankans í sína fyrstu og einu blóðsöfnunarferð með flugi um sumarið 1981. Samstarf Blóðbankans og Rauða krossins var svo með uppteknum hætti á 10. áratugnum og farið var í blóðsöfnunarferðir í skóla, á vinnustaði og út á land þar sem færanlegum blóðsöfnunarstöðvum var komið upp. Þó horfði til breytinga árið 1996 þegar Rauði krossinn ákvað að gefa Blóðbankanum nýjan blóðsöfnunarbíl og afhenti gjafabréf þaraðlútandi á aðalfundi Blóðgjafafélags Íslands í febrúar það ár. Var þar um að ræða bíl allfrábrugðinn fyrri blóðsöfnunarbílum, bókstaflega færanlega blóðsöfnunarstöð sem ekki krefðist annars búnaðar þar sem hún kæmi en aðgangs að rafmagni. Rúmu ári eftir að Rauði krossinn afhenti gjafabréfið var tekið að undirbúa fjármögnun bílsins. Samtökin höfðu þá gefið þrettán milljónir króna til verksins en talið var að tíu til tólf milljónir aukalega þyrfti til. Fjármögnun tók nokkur ár en í desember 2001 undirrituðu fulltrúar RKÍ og Blóðbankans samning um afhendingu bílsins sem fara skyldi fram sumarið á eftir. Þá var tekstur bílsins líka tryggður með yfirlýsingu Landspítala – Háskólasjúkrahúss þar að lútandi.
Það var svo loks hinn 6. september 2002 sem Rauði krossinn afhenti Blóðbankanum bílinn. Má segja að um hafi verið að ræða blóðbanka á hjólum, afar fullkominn. Að grunni til er blóðsöfnunarbíllinn Scania langferðabifreiðs sem var sérútbúin að finnska fyrirtækinu Kiitokuori. Hann er þrettán og hálfur metri að lengd og búinn öllum nauðsynlegum tækjum til blóðtöku. Í bílnum eru samtals fjórir bekkir fyrir blóðgjafa og mögulegt að taka á móti fimmtíu til hundrað blóðgjöfum á dag og jafnvel fleiri í neyðartilvikum. Auk þess er vitanlega dálítil kaffiaðstaða fyrir blóðgjafa í bílnum. Þá er hann ennfremur nettengdur og þannig beintengdur tölvukerfi Blóðbankans. Sem von er olli bíllinn byltingu í möguleikum Blóðbankans á söfnun blóðs, bæði við vinnustaði og skóla í Reykjavík og ennfremur úti á landi. Starfssvæði hans eru einkum byggðir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og á Reykjanesi. Blóðbankabíllinn gerði víðreist á fyrsta heila starfsárinu og hlutverk hans efldist til muna frá því byrjað var að nota hann til blóðsöfnunar í árslok 2002. Árið 2003 fór bíllinn í tvær ferðir á viku og þannig söfnuðust nærri tvöþúsund einingar blóðs af þeim tæplega fjórtánþúsund sem alls var safnað á árinu. Eftirfarandi tafla sýnir vel hvílík áhrif tilkoma bílsins hafði, ekki hvað síst á fjölda nýrra blóðgjafa:
2001 |
2002 |
2003 |
|
Safnaðar einingar | |||
Barónsstígur | 13.110 | 13.835 | 11.714 |
Bíllinn | 694 | 673 | 1.916 |
Samtals | 13.804 | 14.508 | 13.630 |
Nýir blóðgjafar | |||
Barónsstígur | 1.431 | 1.345 | 931 |
Bíllinn | 313 | 468 | 1.368 |
Samtals | 1.744 | 1.813 | 2.299 |
Blóðbankabíllinn er enn í fullri notkun og er hvergi slegið af. Nú síðast fékk hann heilmikla andlitslyftingu sumarið 2013 og skipar stóran sess í reglubundinni starfsemi Blóðbankans.
En sem von er hefur fleira sem snýr að tæknilegri hlið blóðsöfnunar breyst en bara bílarnir sem notaðir eru til blóðsöfnunarferða. Óhætt er að segja að gjörbreyting hafi orðið á öllum aðbúnaði og tæknistig aukist til muna. Nánar verður farið út í ýmsar rannsóknir sem snúa að blóðgjafastarfsemi síðar en rétt er að drepa nú á tækjum til söfnunarinnar sjálfrar. Nærtækast er vitanlega að nefna geymsluílátið sjálft – blóðpokann. Eins sjálfsagt og nú þykir að gjafablóð sem geymt á þartilgerðum pokum fer því þó fjarri að alltaf hafi verið notast við þá til að geyma blóð. Þrátt fyrir að blóðpokinn, líkur þeim sem við þekkjum í dag, hafi fyrst komið til sögunnar í Bandaríkjunum árið 1950, þremur árum áður en Blóðbankinn var stofnaður, tók það allnokkurn tíma að koma honum í almenna notkun. Lengi framan af starfsferli Blóðbankans var notast við margnota glerflöskur til að geyma í blóð og gúmmísnúrur sem einnig voru margnota. Tóku flöskur þessar sama magn og plastpokarnir síðar en á notkuninni var sá reginmunur að þær voru að notkun lokinni færðar í Lyfjaverslun ríkisins þar sem þær voru þvegnar og sótthreinsaðar og að því loknu notaðar aftur.
Raunar réð þessi tilhögun og aðkoma Lyfjaverslunarinnar sér í lagi nokkru um það nákvæmlega hvenær flöskunum gömlu og snúrunum var endanlega skipt út fyrir einnota poka og plastsnúrur. Árið 1968 var byrjað að flytja hingað til lands poka og snúrur og nota til flutnings og geymslu blóðs. Ekki urðu plastpokarnir og –snúrurnar þó einráð enn um sinn heldur voru flöskurnar og margnota snúrurnar áfram notaðar jafnframt þeim. Var það fyrirkomulag á um tveggja ára bil, til vorsins 1970. Gerðist það þá í byrjun apríl að eldur kom upp í húsnæði Lyfjaverslunar ríkisins að Borgartúni 6 og stöðvaðist öll starfsemi, þar á meðal í sterildeild. Var þá ekki um annað að ræða en að finna önnur úrræði í skyndi og úr varð að einnota plastumbúðir sem hægt var að panta erlendis frá með skömmum fyrirvara. Var í kjölfarið tekið að panta plastumbúðirnar frá Belgíu og voru þær allnokkru dýrari en þær sem áður hafði verið notast við en þóttu betri, komu hingað til lands sótthreinsaðar og innihéldu storkuvara. Var þá svo komið að alfarið var tekið að notast við plastpoka til geymslu blóðs hérlendist, réttum tuttugu árum eftir að slíkir pokar voru fyrst kynntir til sögunnar.
Ýmsar betrumbætur hafa verið gerðar á blóðpokunum í áranna rás, eins og gefur að skilja. Meðal þess helsta sem nefna mætti í því samhengi er að árið 1984 var tekið að nota nýja gerð plastpoka. Þessir nýju blóðpokar innihéldu andstorknunar- og næringarlausn sem lengdi geymslutíma blóðs svo um munaði, úr þremur vikum í fimm. Á þessum árum hraðaði mjög á þróun í þessum málum og voru stigin fjölmörg stór skref í átt til lengri geymslutíma, meira öryggis og skilvirkari nýtingar blóðs. Í nóvember 1988, aðeins fjórum árum eftir að nýju pokarnir voru teknir í gagnið, var enn tekin í notkun ný gerð af blóðpokum. Voru það svokallaðir SAGM-pokar, fyrir hvítkornasnautt rauðkornaþykkni. Með tilkomu nýju pokanna varð óþarft að þynna innihald poka með saltvatni fyrir notkun. Tilkoma þessara poka þótti valda byltingu í blóðhlutavinnslu sem aftur er mikilvægur liður í betri nýtingu blóðs og verða gerð frekari skil síðar.
Með tilkomu blóðpokanna var stigið stórt skref fram á við í blóðbankastarfsemi hérlendis og þá jafnframt í heilbrigðismálum almennt. Er hún aðeins einn liður í síaukinni tæknivæðingu samfélagsins og sérhæfingu því samfara. Skoða má þá þróun í víðara samhengi og berst sagan þá fljótt að tölvuvæðingunni sem hefur gerbylt vestrænum samfélögum á örfáum áratugum, á minna en einni kynslóð. Tölvur hafa haldið innreið sína í öll svið mannlífsins og víðast hvar orðið að órjúfanlegum þáttum daglegrar starfsemi. Blóðbankastarfsemi, eins og heilbrigðiskerfið allt, er þar ekki undanskilið. Nú er svo komið að nær ómögulegt er að sjá fyrir sér starfsemi á borð við þá sem fram fer í Blóðbankanum án tölvutækni. Starfsemi sem þó var fullkomlega ótölvuvædd fyrir ekki svo ýkja löngu síðan. Er því ekki úr vegi að huga stuttlega að tölvuvæðingu Blóðbankans.
Með nokkurri vissu er hægt að fullyrða að tölvur hafi í fyrsta sinn nýst að beinu leyti við störf unnin í Blóðbankanum þegar hin svokallaða Systkinabarnarannsókn hófst miðsumars árið 1972. Rannsókn þessi var fyrsta mannerfðafræðilega rannsóknarverkefni Blóðbankans og skal nánar vikið að henni síðar. Hér nægir okkur að segja að til rannsóknarinnar hafi verið nýtt gögn sem færð höfðu verið á tölvutækt form að frumkvæði Erfðafræðinefndar. Í því samhengi má geta þess að Ólafur Jensson, sem ráðinn var forstöðumaður Blóðbankans í mars þess árs tók einmitt sæti Sigurðar Sigurðssonar landlæknis í Erfðafræðinefndinni þetta sama ár.
Og þótt þessi fyrsti samsláttur Blóðbankans og tölvualdar snérist ekki að hinni skyldubundnu starfsemi bankans þá var það einmitt Ólafur Jensson sem átti eftir að leiða hann inn eiginlega tölvuöld. Ári eftir að systkinabarnarannsóknin hófst skrifaði Ólafur greinina „Viðfangsefni nútíma blóðbanka" sem birtist í Blaði meinatækna. Í upphafi greinarinnar leggur Ólafur mjög línurnar fyrir það sem koma skyldi, nefnilega tölvutæknina. Reyfar hann þar gagnsemi tölvuskráningar, sem falli sérlega vel að starfsemi blóðbanka, „þar sem unnt er að skrá margar nákvæmar og afdráttarlausar niðurstöður um erfðaeiginleika blóðsins, þ.e. blóðflokkakerfi og mótefni í blóðvökva." Og áfram heldur Ólafur og bendir jafnframt á það hvernig tölvur geti nýst við boðun blóðgjafa: „Tölvutæknin opnar marga nýja möguleika til að nýta spjaldskrá um blóðgjafasveitir. Og þegar kemur að gagnaúrvinnslu og skýrslugerð er hverjum manni núorðið ljósir yfirburðir þessarar tækni. ... Fram til þessa hefur þessi tækni ekki verið notuð í daglegu starfi Blóðbankans, en að því mun þó koma." Og svo framvegis. Ekkert fer á milli mála hvert stefndi að mati yfirlæknisins og möguleikar tölvutækninnar virðast nær óþrjótandi. Sama ár og grein þessi birtist komu tölvur enn nokkuð við sögu þess starfs sem unnið var í Blóðbankanum þegar önnur grein birtist, en reyndar í hinu virta tímariti Annals of Human Genetics. Nefndist grein þessi „The Blood Groups of Icelanders" og var Valtýr Bjarnason fyrrum yfirlæknir Blóðbankans einn höfunda hennar. Við vinnslu greinarinnar var stuðst við gögn úr Blóðbankanum sem færð voru inn í tölvu og keyrð saman við Þjóðskrá en nánar skal vikið að efni hennar síðar. Enn um sinn varð þó bið á því að tölvur yrðu hluti af daglegu starfi Blóðbankans þótt fyrirséð framtíð Ólafs tæki reyndar að láta lítillega á sér kræla. Þetta sama ár var þannig byrjað að undirbúa upptöku samræmds tölvukerfis fyrir ríkisspítalana, en þá þegar hafði verið tekið í gagn tölvukerfi á Borgarstpítalanum.
Næstu árin mjökuðust tölvumál hægt áfram. Frá 14. til 25. apríl 1975 sótti Ólafur námskeið um tölvutækni í blóðbankarekstri á vegum Evrópuráðsins í Montpellier, Toulouse, Rouon og París í Frakklandi, undir stjórn prófessors Paul Cazal. Fátt dró til tíðinda á næstu árum. Árið 1981 var þó hafist handa við það að koma gögnum Blóðbankans yfir blóðgjafa, sjúklinga og vanfærar konur inn í sameiginlegt tölvukerfi Landspítalans. Það var svo loks árið 1985, tíu árum eftir að Ólafur sótti samevrópskt námskeið um tölvutækni í blóðbankarekstri, sem tölvukerfi var tekið í gagnið í Blóðbankanum. Þar var haldin skrá yfir og geymdar upplýsingar um alla blóðgjafa- og þega. Gaf þessi nýjung möguleika á hraðari uppslætti og auðveldaði störf á ýmsa vegu eins og gefur að skilja. Þar að auki var nú hægt að nálgast á einum stað yfirlit yfir alla starfsemi bankans. Tölvuskráning blóðgjafa á Reykjavíkursvæðinu var lokið á árinu og tekið var til við skráningu blóðgjafa í öðrum landshlutum. Um mitt ár hófst líka tölvuskráning sérverkefna og á sama tíma fékkst mikilvæg tenging við tölvubanka erfðafræðinefndar Háskólans sem auðveldaði ættfræðivinnu fjölskyldurannsókna, sem verið höfðu ríkur þáttur í rannsóknastörfum bankans um langt skeið. Í kjölfar þess varð hröð þróun í tölvumálum bankans. Þess má líka geta að árið 1989 veitti tölvunefnd Krabbameinsfélagi Íslands leyfi til að tengja saman krabbameinsskrá félagsins og skrá Blóðbankans yfir blóðflokka í því skyni að afla frekari upplýsinga vegna rannsókna á tengslum blóðflokka og krabbameins. Eru slíkar samtengingar ágætt dæmi um þá ótal möguleika sem tölvutæknin hefur veitt í blóðbankarekstri, aðra en þá sem snéru að reglubundinni starfsemi banka eða rannsóknum innan þeirra. Aftur voru gerðar umfangsmiklar skipulagsbreytingar á tölvu- og tækjavæðingu bankans árið 1994 þegar tekið var upp tölvukerfið ProSang. Slíkt kerfi er enn í notkun í bankanum þó vitanlega sé himin og haf á milli þess og kerfisins sem tekið var í notkun fyrir tæpum tveimur áratugum.
Þá má líka segja að Ólafur reyndist sannspá hvar víkur að gagnsemi tölvutækni við skipulagningu blóðgjafa. Ómögulegt er þó að segja hvort hann sá fyrir sér hversu mjög tölvur hafa nýst í slíkum tilgangi en árið 2003 tók Blóðbankinn í notkun nýja tækni til innköllunar, boðunar og bókunar blóðgjafa. Var umrætt kerfi þróað í samstarfi við starfsfólk Blóðbankans og því sérsniðið að þörfum hans. Nýttist kerfi þetta, sem nefnist REV-Blood Donor, meðal annars við SMS-skilaboð og tölvupóst til boðunar blóðgjafa í bankann.
Er nú svo komið að líkt og víðar eru tölvur algerlega órjúfanlegur hluti af allri starfsemi Blóðbankans. Óþarft er að reyfa að ekki sér fyrir endann á þróun í átt til frekari tölvu- og tæknivæðingar blóðbankastarfsemi.
Minnst hefur verið á mikilvægi þess fyrir starfsemi Blóðbankans að hann standi fyrir öflugu kynningarstarfi. Annað sem hefur í gegnum árin verið mikilvægur þáttur í því að efla blóðsöfnunarstarf og vekja frekari athygli á mikilvægi blóðgjafa hefur verið starfsemi Blóðgjafafélags Íslands.
Blóðgjafafélagið var formlega stofnað þann 16. júlí 1981 í þeim yfirlýsta tilgangi að annars vegar efla tengsl íslenskra blóðgjafa og almennings við Blóðbankann og hins vegar að fræða bæði þá sömu aðila og stjórnvöld um mikilvægi blóðs til lækninga. Til fundarins voru boðnir velkomnir allir blóðgjafar og aðrir þeir sem vildu styrkja blóðsöfnunarstörf og blóðbankastarfsemi í lækninga- og rannsóknaskyni. Forgöngu um stofnunina hafði Ólafur Jensson, yfirlæknir Blóðbankans, sem jafnframt var fyrsti formaður félagsins. Auk tilheyrandi skipulagsmála var á stofnfundinum sett upp lítil sýning þar sem drepið var á atriðum úr sögu skipulagðrar blóðgjafarstarfsemi og blóðbankaþjónustu hérlendis og dregnar upp af henni myndir.
Fyrsta stjórn félagsins var skipuð þeim Ólafi Jenssyni, Hólmfríði Gísladóttur, Jóhanni Diego Arnórssyni, Ómari Friðþjófssyni og Loga Runólfssyni. Síðan hafa alls fjórir einstaklingar gegnt formannsstöðu í félaginu. Ólafur Jensson sat sem formaður til ársins 1993 þegar Anna María Snorradóttir hjúkrunarfræðingur tók við og sat í eitt ár, til 1994. Þá tók við Björn Harðarson líffræðingur sem gegndi stöðunni í áratug, til ársins 2004 þegar Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður tók við formennsku sem hann gegnir enn. Fljótlega eftir stofnun félagsins tók það yfir sjóð sem hafði umsjón með tekjum sem fengust af útflutningi blóðvökva og var því þannig tryggður dálítill tekjustofn og rekstrarfé. Ekki varði þetta fyrirkomulag þó lengi því téður útflutningur lagðist af árið 1985. Var félagið í kjölfarið tekjulaust um árabil en hefur verið úthlutað fé af Alþingi um nokkurra ára bil en þó hefur svo borið við að það hefur orðið að leita til systurfélaga sinna á Norðurlöndum um fjárstuðning til ýmissa verkefna.
Sem fyrr segir felst starfsemi félagsins að miklu leyti í kynningarstarfi. Hefur það meðal annars staðið fyrir allnokkrum fjölþjóðlegum ráðstefnum hér á landi um mál sem varða blóðgjafir, og ennfremur tekið þátt í öðrum. Félagið létt fljótt til sín taka á þessu sviði og sem dæmi um merkilegt framtak mætti nefna komu Rodney R. Porters, prófessors við lífefnafræðideild Háskólans í Oxford og nóbelsverðlaunahafa í ónæmisfræði 1972, til landsins árið 1985. Porter heimsótti landið í boði Blóðbankans og Blóðgjafafélags Íslands og flutti á meðan á heimsókninni stóð tvo fyrirlestra í fyrirlestrasal Geðdeildar Landspítalans. Þá hefur félagið reglulega haldið smærri fræðslufundi um skyld mál. Meðal þess sem félagið hefur sérstaklega beint kröftum sínum að í seinni tíð er kynning á félaginu, starfsemi þess og mikilvægi. Hefur þessi kynning meðal annars falist í því að fræða heilbrigðisyfirvöld um þýðingu þess að halda úti starfsemi hagsmunaaðila fyrir blóðgjafa á Íslandi. Sem dæmi um stærri kynningarverkefni sem félagið hefur ráðist í mætti nefna að það stóð fyrir gerð fræðslumyndbands árið 1997 um blóðgjafir og notkun blóðs á Íslandi.
Þá tekur félagið þátt í því þann 23. maí ár hvert að halda blóðgjafadaginn hátíðlegan í samstarfi við Blóðbankann. Hérlendis hefur það verið gert allt frá árinu 1998 en blóðgjafadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur erlendis árið 1995. Þá heiðrar Blóðgjafafélagið árlega þá blóðgjafa sem náð hafa merkum áföngum á blóðgjafaferlum sínum, gefið blóð fimmtíu sinnum, sjötíuogfimm sinnum, hundrað sinnum og þar fram eftir götunum.
Í apríl 1998 var Blóðgjafafélaginu formlega veitt aðild að Alþjóða blóðgjafasamtökunum I.F.B.D.O. (e. International Federation Of Blood Donor Organizations) á fundi samtakanna í Túnis. Meðal markmiða alþjóðasamtakanna eru sjálfbærni í notkun blóðs sem fengið er frá sjálfboðaliðum, það er að segja gjöfum sem þiggja ekki greiðslu fyrir, og jafnframt að stuðla að auknu trausti almennings á gjafablóði með því að samræma öryggisstaðla og eftirlit með blóðgjöfum.
Frá stofnun félagsins og allt til ársins 2003 var sá háttur hafður á að litið var á alla blóðgjafa sem félagsmenn. Breytingin sem gerð var þar á árið 2003 fólst í því að þeir sem gerast vildu félagar yrðu að skrá sig formlega í félagið og var hún lögum samkvæm. Önnur allstór breyting var gerð á skipulagi félagsins haustið 2010 þegar stofnuð var ungmennadeild innan þess, UBGFÍ. Hefur ungmennadeildin starfað af talsverðum krafti síðan og látið nokkuð á sér bera, tekið þótt í alþjóðamótum viðlíka deilda og staðið fyrir gerð kynningarmyndabanda í samstarfi við nemendur í Kvikmyndaskóla Íslands.
Áður en Blóðbankinn var stofnaður var þess lítill sem enginn kostur hérlendis að geyma blóð til notkunar síðar meir. Var blóði þá dælt beint frá blóðgjafa til -þega þegar á þurfti að halda. Sem gefur að skilja gat þessi tilhögun valdið vandkvæðum í neyðartilvikum. Það segir sig ennfremur sjálft að blóðhlutavinnsla fór ekki heldur fram að neinu marki fyrr en Blóðbankinn kom til sögunnar.
Fyrst um sinn var slík vinnsla þó fyrirferðalítill hluti af starfsemi bankans. Var þá enn að mestu leyti nýst við heilblóð til blóðgjafa. Smám saman tók síðan starfsemi bankans breytingum í takt við framfarir í læknavísindum og á tæknisviðinu. Er nú svo komið að allt það blóð sem í Blóðbankann kemur er unnið í blóðhluta og bankinn lætur ekkert heilblóð frá sér. Með þessum starfsháttum hefur náðst fram mun betri nýting blóðs. Þar fyrir utan hefur vinnsla ýmissa blóðhluta verið mikilvæg í sambandi við sóttvarnir og meðferð við vissum sjúkdómum. Þá hefur Blóðbankinn sinnt ýmsum þjónusturannsóknum á blóði, bæði sem snúa beint að starfsemi hans og fyrir aðila sem einhverra hluta vegna hafa ekki haft tök á að sinna umræddum rannsóknum. Loks má nefna að á síðari árum hefur Blóðbankinn fengið nýtt og æ mikilvægara hlutverk í sambandi við svokallaðar merg- eða stofnfrumumeðferðir sem hvarvetna hafa færst inn á svið blóðbanka.
Þótt aðstæður til slíkra verka væru bágbornar á landinu var reyndar byrjað að vinna blóð að nokkru áður en Blóðbankinn tók til starfa. Var það þá ekki gert að staðaldri heldur aðeins eftir því sem brýn þörf kallaði hverju sinni. Vorið 1950 gekk skæður mislingafaraldur yfir Reykjavík. Til þess að verja þá sem ástands síns eða aðstæðna vegna máttu illa við mislingasmiti var gripið til þess ráðs að útbúa blóðvökva með mótefni til að gefa viðkomandi. Til þess að vinna blóðvökvann þurfti blóð og því voru þeir sem þegar höfðu smitast og höfðu náð 18 ára aldri hvattir til að gefa blóð á Rannsóknastofu Háskólans. Fengju viðkomandi 75 krónur greiddar fyrir blóðgjöfina, að því gefnu að þeir gætu framvísað læknisvottorði smiti til sönnunar, en á þessum árum tíðkaðist það enn víða um lönd að blóðgjafar fengju greitt fyrir viðvikið.
Það kemur því lítt á óvart að áður en Blóðbankinn tók til starfa hafi verið uppi áform um að í honum yrði unnið blóð til annara nota en hefðbundinnar blóðgjafar. Um mitt ár 1951, þegar nokkur kurr var kominn í forvígismenn um stofnun Blóðbankans vegna þess hve það dróst að hann tæki til starfa, skrifaði Níels Dungal grein í Fréttabréf um heilbrigðismál sem jafnframt er lítt dulin ádrepa á stjórnvöld fyrir seinagang í málinu líkt og áður hefur verið rakið. Í greininni rekur Níels uppgötvun bandarískra vísindamanna þess efnis að nýtast megi við gammaglóbúlín í blóði til að bólusetja gegn mænusótt. Segir Níels þar enn fremur að búast megi við mænusóttarfaraldri hvað á hverju á Íslandi og því enn frekari ástæða en ella til að flýta stofnun Blóðbankans því í hyggju sé einmitt að vinna téð gammaglóbúlín í bankanum. Síðar sama ár skrifar Níels í sama blað grein um starfsemi blóðbankans í Miami í Bandaríkjunum. Brýnir hann þar jafnframt mikilvægi blóðbankastarfsemi til að unnt sé að veita krabbameinssjúkum viðeigandi meðferð og má af því ráða að fyrirhugað hafi verið að notast við Blóðbankann til slíkra meðferða.
Sú varð enda raunin og því var frá upphafi nokkur vinnsla blóðs í bankanum. Húsnæði, tækjakostur og starfsmannafjöldi var þó framan af slíkur að ekki var mikið svigrúm til slíkra starfa. Voru framfarir á þessu sviði því hægar framan af. Þegar kemur fram á 7. áratuginn aukast umsvifin þó smám saman og stórt skref er svo tekið fram á við árið 1967 þegar tekin var í notkun ný skilvinda sem gerði kleift að skilja blóðvökva frá blóðkornum. Blóðvökvann var í kjölfar þess hægt að frysta og geyma mun lengur en heilblóð. Um þetta leyti var viðhorf lækna til blóðbankastarfsemi enda talsvert tekið að breytast. Læknafélag Reykjavíkur skipaði árið 1964 nefnd til að fjalla um framtíðarskipulag spítalalæknisþjónustunnar. Nefndarálit lá fyrir 1966 og birtist í Læknablaðinu 1967. Í umfjöllun um svæfingaþjónustu Landspítalans er það fyrirkomulag m.a. gagnrýnt að „[f]rá stofnun Blóðbankans [hafi] sérfróður læknir aldrei annazt eftirlit með starfsemi hans og svæfingarlækni Landspítalans falin forstaða hans í hjáverkum." Þess má geta að á meðal nefndarmanna var Ólafur Jensson, sem skömmu síðar varð fyrsti læknirinn sem ráðinn var í fullt starf sem forstöðulæknir Blóðbankans. Undir lok 7. áratugarins og þegar kemur fram á þann 8. tók starfsemi Blóðbankans miklum breyting, umfang jókst og ný verkefni færðust inn á verksvið hans. Í samantekt sem gerð var um starfsemi bankans árið 1978 var áætlað að umfang blóðgjafastarfseminnar einnar saman hafði að jafnaði aukist um sjö til níu prósent á fyrstu tuttuguogfimm starfsárum bankans. Í samantektinni er Ólafur Jensson ómyrkur í máli þegar kemur að breytingum á starfsemi stofnunarinnar og endurnýjun tækjakosts. Hann skrifar þar eftirfarandi:
Nútíma skurðlækningar, slysameðferð, fæðingahjálp og erfiðari lyflækningar og geislalækningar á illkynja meinum gera sífellt meiri kröfur til blóðbankastarfseminnar: Blóðsöfnunar, blóðflokkagreiningar blóðgjafa og blóðþega og vinnslu einstakra blóðþátta til að fullnægja sérþörfum sjúklinga, sem þurfa meðferð. Þessi þróun hefur gert kröfu til nákvæmari greiningartækni á erfðaþáttum blóðs og vefja bæði hjá sjúklingum og blóðgjöfum og ennfremur til bættra aðferða við samræmingarpróf, svo að komist yrði hjá sem flestum aukakvillum við blóð- og blóðhlutagjafir. Tæplega er hægt að segja að þannig hafi verið búið að blóðbankastarfsemi á Íslandi, að hún væri í samræmi við vöxt og þróun þeirra deilda sjúkrahúsanna, sem helst þurfa að hafa nútíma blóðbankarekstur að bakhjarli.
Í kringum áramótin 1969-1970 voru teknar upp almennar, altækar Rhesus-varnir hér á landi og var landið hið fyrsta í heiminum til að gera slíkt. Helgaðist það meðal annars af fæð landsmanna. Rhesus-blóðflokkakerfið hafði verið uppgötvað af Alexander S. Wiener og Karli Landsteiner árið 1937 án þess þó að þeir gerðu sér þegar í stað grein fyrir mikilvægi þess. Tveimur árum síðar, í júli 1939, birtu Philip Levine og Rufus E. Stetson svo grein þar sem ályktuðu fyrstir manna hverjar orsakirnar væru að baki banvænni mótefnamyndun vegna Rhesus-kerfisins. Þeir báru þó ekki kennsl á umrætt mótefni sérstaklega þegar í stað en vinna þeirra auk áframhaldandi rannsókna Wieners urðu til þess að árið 1940 fannst hugsanleg orsök nýburagulu og aukaverkana eftir blóðinngjöf, sem var anti-D(Rhesus) blóðflokkamótefnið. Árið 1946 varð Wiener svo fyrstur til að finna meðferð við nýburagulu sem meðal annars orsakast af Rhesus-misræmi, og voru það blóðskipti. Blóðskipti björguðu á næstu árum lífi ótal nýbura og í ágúst 1951 framkvæmdi Elías Eyvindsson, sem síðar varð fyrsti forstöðulæknir Blóðbankans, fyrstu blóðskiptin vegna Rhesus-misræmis hjá nýfæddu barni hér á landi. Blóðskiptin voru þó erfið aðgerð og áfram var leitað lausna á þeim vanda sem af misræmi stafaði.
Það var aðeins tæpum áratug áður en almennar Rhesus-varnir voru teknar upp hérlendis, árið 1960, sem enskir og bandarískir vísindamenn fundu út að með því að gefa Rhesus negatífum konum óvirkt Rhesus-mótefni, mætti hindra hjá þeim mótefnamyndun gegn pósitífum blóðkornum. Árið 1968 kom síðan fyrsta Rhesus-mótefnið á markað. Skömmu síðar eða í ársbyrjun 1969 landlæknisembættinu upplýsingar frá Kanada þess efnis að unnt væri að afla nægilegs magns af Rhesus-mótefni til að veita öllum Rhesus neikvæðum konum á Íslandi viðeigandi meðferð. Undirbúningur var hafinn þegar í stað og ákveðið að mistöð Rhesus-varna skyldi vera í Blóðbankanum. Um haustið var Auður Theódórs meinatæknir svo ráðin til að vinna að Rhesus-vörnum og í desember voru komnar í gang samræmdar Rhesusvarnir sem náðu til allra kvenna á landinu. Sem gefur að skilja var þar um að ræða umtalsverða viðbót við og breytingu á starfsemi blóðbankans. Ónæmisaðgerðir með anti-D immúnglóbúlíni höfðu borið árangur fljótlega eftir að þær hófust árið 1969 en árið 1978 kom marktæk fækkun anti-D tilfella vegna Rhesusvarna meðal barnshafandi kvenna fyrst fram.
Enn jukust svo ýmiss konar rannsóknir á næstu árum. Í nóvember 1971 var byrjað að rannsaka allar blóðeiningar frá Blóðbankanum með tilliti til lifrarbólguveiru B en til að byrja með voru rannsóknirnar gerðar á rannsóknastofu Landakotsspítala. Það var svo tæpum tveimur árum seinna, í október 1973, sem þessar rannsóknir færðust alfarið yfir til Blóðbankans sem síðan hafði þær með höndum. Starfsemin hélt svo áfram að taka örum breytingum í átt til frekari tæknivæðingar og sérhæfingar. Síðla árs 1974 eignaðist Blóðbankinn sjálfvirkan storkuefnamæli sem keyptur hafði verið fyrir gjafafé til stofnunarinnar og árið 1975 var erfðarannsóknadeild Blóðbankans sett á stofn. Til starfa við deildina réðst Alfreð Árnason líffræðingur. Það var svo í mars 1976 sem vefjaflokkun hófst af fullum krafti. Skyldi deildin meðal annars veita þjónustu við sjúkdómsgreiningu og samræmingarannsóknir vegna líffæraflutninga. Þá veitti stofnun deildarinnar möguleika á lausn barnfaðernismála. Með tilkomu deildarinnar varð unnt að flokka erfðamörk nákvæmar en áður var á landinu, en fram til þessa hafði rannsóknarstofa Háskólans slíkar rannsóknir með höndum. Lá þegar hér var komið fyrir hali óleystra barnsfaðernismála sem rannsóknastofa Háskólans hafði ekki getað leyst úr vegna „stöðnunar í erfðarannsóknum[,]" eins og Ólafur Jensson orðaði það í viðtali í Morgunblaðinu. Útilokunarprósenta í faðernismálum hækkaði við þetta til muna. Bankinn átti síðan eftir að hætta þessum prófum árið 1986 í kjölfar deilna um greiðslur
Frekari framfarir urðu sama ár þegar byrjað var að nota aðkeyptar próffrumur og ensím-aðferð með papaíni við skimpróf og mótefnagreiningu. Áður höfðu verið notuð rauð blóðkorn úr fullflokkuðum blóðgjöfum til slíkra verka. Þá rýmkaði líka nokkuð um starfsemi bankans þegar hluti af starfsemi rannsóknastofu Háskólans sem verið hafði í kjallara Blóðbankahússins við Barónstíg flutti þaðan burt og bankinn fékk rýmið til afnota. Var ekki vanþörf á enda tæknivæðing orðin hröð og hún gerði kröfu um aukið rými.
Árið 1978 voru tekin upp í vélræn skimpróf á blóði vegna anti-D Rhesus-varna og varð þá unnt að leita mótefna hjá bæði D-jákvæðum og –neikvæðum konum, en fram að því takmörkuðust mótefnaskimpróf við D-neikvæðar. Í kjölfarið fór svo nýgreindum mótefnum hjá D-neikvæðum konum fjölgandi. Seinna sama ár fagnaði Blóðbankinn tuttuguogfimm ára starfsafmæli og í skrifum af því tilefni var til þess tekið hve mjög tækjakostur bankans hafði batnað á undangengnum þremur til fjórum árum. Á sama tímabili hafði deildaskipting innan hans einnig verið fest í sessi líkt og áður hefur að nokkru verið getið. Á 9. áratugnum jókst blóðhlutavinnsla til mikilla muna og má segja þá hafi hafist þróun sem lyktaði svo mörgum árum síðar með því að tekið var að vinna blóðhluta úr öllu blóði sem barst Blóðbankanum svoleiðis að alfarið var hætt að notast við heilblóð. Var það ekki hvað síst þessi þróun sem réði því að vel gekk að takast á við þann umtalsverða samdrátt sem varð á blóðgjöfum í kjölfar tilkomu HIV-veirunnar á fyrri hluta áratugarins. Jókst nýting blóðs til muna. Var það meðal annars vegna þessa sem bankinn réði vel við að anna blóðeftirspurn þegar byrjað var að gera hjartaskurðaðgerðir hérlendis árið 1984, jafnvel þótt slíkar aðgerðir krefðust þá feykimikils blóðs.
Blóðbankinn fékk enn nýtt hlutverk í ársbyrjun 1980 en það var allólíkt þeim sem hann hafði áður gegnt. Var þá byrjað að gera tæknifrjóvganir á Íslandi og til þess notað frosið sæði sem keypt var frá sæðisbankanum Central Sædbank í Kaupmannahöfn, sem þá var eini sæðisbankinn á Norðurlöndum og einn sá stærsti í Evrópu. Sæðið var flutt til landsins í mjóum plaströrum og síðan geymt í kjallara Blóðbankans við nístandi 196 gráðu frost. Að öðru leyti en því hafði bankinn ekki beina aðkomu að þessum málum, þótt því hafi reyndar verið slegið upp í skopfrétt í Helgarpóstinum nokkru síðar að Blóðbankinn væri að hefja sæðistöku með útflutning fyrir augum. Aldrei stóð útflutningur til að því best fæst séð en hins vegar var í byrjun árs 1989 komið á fót frumurannsóknastofu við erfðafræðideild Blóðbankans, í þeim tilgangi að gera glasafrjóvganir mögulegar. Var Leifi Þorsteinssyni líffræðingi falið það verk fyrir hönd deildarinnar. Tekið var að framkvæma glasafrjóvganir í október 1991. Aðgerðirnar fóru fram á Kvennadeild Landspítalans en öll vinna á frumurannsóknastofu var unnin af sérþjálfuðum líffræðingum Blóðbankans.
Á 9. áratugnum hófst eiginleg tölvuvæðing bankans sem hafði mikil áhrif á alla starfsemi hans. Sama ár og tölvukerfi bankans var tekið í gagnið, árið 1985, varð líka að gera aðra breytingu á starfsháttum hans en var sú til komin af illri nauðsyn. Var þá byrjað að skima allar blóðeiningar fyrir alnæmi, um líkt leyti og sambærileg skimun hófst erlendis. Um mitt ár 1990 fékk Blóðbankinn svo efni til að greina lifrarbólgu C í blóði og varð þá um að ræða þriðja veirurannsóknarprófið sem bankinn tók að gera, á eftir alnæmi og lifrarbólgu B. Árið 1991 var skimað fyrir lifrarbólguveiru C í bráðabirgðaúrtaki 3000 manns, en skimprófin voru þá enn vanþróuð og gáfu ósjaldan falska, jákvæða niðurstöðu. Mikil bragabót varð á þessum málum í september 1992 þegar Blóðbankinn fékk ný og fullkomnari blóðskimunartæki en hann hafði áður haft til umráða sem skimað gátu fyrir lifrarbólguveiru C. Miklar framfarið höfðu orðið í blóðskimun á undangengnum þremur árum og á þeim tveimur síðustu höfðu komið fram próf sem reyndust tiltölulega örugg, ólíkt þeim eldri. Búnaður þessi var sjálfvirkur og skimaði jafnframt fyrir lifrarbólgu B og HIV-veiru. Blóðbankinn sjálfur átti frumkvæði að því að skimun þessi var hafin. Ólafur Ólafsson þáverandi landlæknir og nafni hans Jensson í Blóðbankanum höfðu um sinn farið fram á aukafjárveitingu til skimunar þegar hún loks fékkst um haustið 1992.
Umtalsverð breyting varð á blóðhlutavinnslu og þar með blóðflöguvinnslu Blóðbankans í apríl 1994. Í stað þess að vinna blóðflögur úr blóðflöguríku plasma og þess að hver blóðflöguskammtur teldi sex poka sem innhéldu blóð úr jafn mörgum einstaklingum, líkt og áður hafði verið, voru blóðflögur unnar úr svokölluðu buffy coat frá fjórum einstaklingum og hver skammtur rúmaðist í einum poka. Buffy coat er það nefnt sem eftir er í blóðeiningu þegar bæði rauð blóðkorn og plasma hefur verið fjarlægt. Um líkt leyti hófst líka undirbúningur þess að hægt væri að vinna í Blóðbankanum blóðvökva sem nota mætti til lyfjaframleiðslu. Sú vinna bar lokst ávöxt árið 1998 þegar tókst að vinna slíkan blóðvökva. Blóðhlutaframleiðsla tók á þessum árum hröðum og stórstígum framförum. Árið 2002 var svo komið að allt blóðflöguþykkni sem Blóðbankinn framleiddi var hvítkornasíað og á sama ári hækkaði hlutfall þess rauðkornaþykknis sem síað var ennfremur úr 5% upp í 15% af heildarmagni þess. Skipti þetta sérstaklega máli fyrir sjúklinga sem þurftu eða höfðu fengið ígrædd líffæri eða stofnfrumur, sjúklinga í erfiðri krabbameinsmeðferð og öll börn sem fengu blóðhluta. Á vordögum 2003 hófst undirbúningur að stofnfrumu- og nýrnaígræðslum hér á landi og var Blóðbankinn virkur þátttakandi í þeim verkefnum. Í desember sama ár hófst svo stofnfrumumeðferð með blóðmyndandi stofnfrumum á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi. Undirbúningur hafði lengi staðið yfir og fyrst og fremst verið samstarfsverkefni tveggja eininga á LSH, Blóðbankans og blóðlækningadeildar 11G ásamt fleiri starfsmönnum á lyflækningasviði II. Söfnun stofnfrumna fór fram á dagdeild blóð- og krabbameinslækninga 11B þar sem annað af tveimur frumuskiljutækjum Blóðbankans var staðsett. Hlutverk starfsmanna bankans var söfnun stofnfrumnanna með blóðfrumuskiljum (aferesis), vinnsla, gæðaeftirlit og frysting stofnfrumnanna. Fyrsta stofnfrumusöfnunin fór fram 9. til 12. desember og gekk að óskum.
Rúmu árið síðar, í janúar 2005, kynnti Blóðbankinn íslenska stofnfrumugjafaskrá sem verða skyldi hluti af norsku stofnfrumugjafaskránni. Stofnfrumur eru einkum notaðar við meðferð sjúklinga með illkynja blóðsjúkdóma eða eitlaæxli en þó er þeim jafnframt beitt við meðferð sjúklinga með meðfædda ónæmisgalla. Stefnt er að hnattvæðingu stofnfrumugjafaskráa og var þetta framtak liður í þeirri viðleitni. Sé sjálfboðaliði með sama, eða mjög líkan, vefjaflokk og sjúklingur með illkynja sjúkdóm einhvers staðar í heiminum er þess farið á leit við viðkomandi að hann gefi sjúklingi stofnfrumur. Með stofnun skrár á Íslandi jukust enn frekar líkur á því að sjúklingar hér á landi gæti fengið stofnfrumur ef á þarf að halda og var því um afar mikilvægt framtak að ræða. Íslendingar tóku kynningu bankans vel og tugir fólks gáfu sig fram til gjafa strax í fyrstu viku. Liður í þessu verkefni bankans var einnig opnun vefjarins stofnfrumur.is, þar sem fræðast mátti um stofnfrumur og framgöngu stofnfrumurannsókna hér á landi og erlendis.
Á 10. áratugnum var hafið mikilvægt starf í Blóðbankanum við innleiðingu formlegra gæðastaðla fyrir starfsemi bankans. Var ráðist í þetta verk að frumkvæði Blóðbankans meðal annars vegna þess að regluverk um starfsemi bankans skorti hér á landi. Sá skortur hafði reyndar lengi verið tilfinnanlegur. Viðleitni í þessa átt hafði þannig hafist löngu fyrr innan bankans. Árið 1978 skrifaði Ólafur Jensson eftirfarandi í samantekt sem hann sendi stjórnarnefnd ríkisspítalanna:
Síðustu fjögur ár hefur verið leitast við að gera umbætur, sem stefna að því marki að fullnægja staðli þeim, sem settur er af sérstakri nefnd Evrópuráðs um blóðbankastarfsemi. Þessar umbætur ná til starfsliðs, tækjabúnaðar og húsnæðis.
Áfram stóð það lengi vel alfarið upp á bankann sjálfan að skapa sér starfsramma. Þannig var það að árið 1996 hóf Blóðbankinn undirbúning fyrir innleiðingu alþjóðlegra staðla, svokallaðra ISO-staðla. Það er að nokkru til marks um skort á regluverki að ekki fyrr en tveimur árum síðar var á Alþingi samþykkt þingsályktunartillaga sem tryggja átti öryggi blóðbankaþjónustu við þjóðarvá, með tilliti til húsnæðis, fjölda blóðgjafa og starfsliðs.
Það var svo í mars 2000 sem Blóðbankinn fékk vottun á starfsemi sinni á sviði blóðsöfnunar, blóðhlutavinnslu, veiruskimunar, blóðflokkunar, gæðaeftirlits og fleiri starfsemisþátta samkvæmt hinum alþjóðlega ISO-9002-gæðastaðli. Varð hann þar með fyrsta stofnunin innan íslenska heilbrigðiskerfisins til að hljóta slíka vottun og enn fremur fyrstur blóðbanka á Norðurlöndum. Segja má að sérlega viðeigandi hafi verið að bankinn fengi vottunina á einmitt þessu ári en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO hafði tileinkað árið blóðgjöfum og voru þær því nokkuð í deiglunni.
Árið eftir voru tekin í notkun tæki og mótað vinnuferli sem snertir blóðflokkanir og skyldar aðferðir, svo og veiruskimun. Talsvert annríki var í bankanum vegna þess. Hin nýju tæki og vinnuferli kröfðust nákvæmra fullgildinga eins og gert er ráð fyrir í ISO-staðlinum. Nýr tækjabúnaður til blóðflokkunar leysti af hólmi 7 ára gamla blóðflokkunarvél sem ekki þótti lengur skila sínu hlutverki eins og vera skyldi og nýr búnaður til veiruskimunar sem einnig var tekinn í gagnið uppfyllti fullkomlega alþjóðlegar kröfur um rekjanleika og vinnuaðferðir.
Enn dró til tíðinda á þessari vegferð bankans árið 2002, nánar tiltekið í mars, þegar hann hlaut alþjóðlega ISO-9000 fyrir allflesta þætti starfseminnar. Í júlí sama árs bættist svo við afgreiðsla blóðhluta til deilda fyrir ákveðna sjúklinga. Blóðbankinn var eina opinbera stofnunin á Íslandi sem hafði fengið slíka vottun á starfsemi sinni og jafnframt fyrsti blóðbankinn á Norðurlöndum til að ná svo langt í vottunarferlinu. Var þá svo komið að allir starfsþættir Blóðbankans nema vefjaflokkun höfðu alþjóðlega vottun.
Um haustið 2003 skilaði Blóðbankinn áliti til heilbrigðisráðuneytisins um tilskipan Evrópusambandsins um blóðbankaþjónustu, þar sem lögð var áhersla á nauðsyn þess að skilgreina skýrar hlutverk Blóðbankans á landsvísu. Sama ár var farið að merkja blóðhluta eftir alþjóðlegum ISBT128-staðli.
Það var svo loks hinn 24. maí 2006 sem þáverandi heilbrigðisráðherra setti reglugerð 441/2006, um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs og tóku ákvæði hennar mið af tilskipunum Evrópuþings og -ráðs um gæða- og öryggisstaðla á þessu sviði, svo og um tæknilegar kröfur. Samkvæmt reglugerðinni skyldi LSH starfrækja blóðbanka sem hefði með höndum blóðbankaþjónustu á landsvísu. Í reglugerðinni er ennfremur gert ráð fyrir útibúi á Akureyri til blóðsöfnunar og blóðhlutavinnslu og að sjúkrahúsið þar og LSH gerðu með sér þjónustusamning um starfsemina. Reglugerðin miðaði að því að skapa samhæfða blóðbankaþjónustu á landinu öllu, að tryggja nægilegan fjölda blóðgjafa, nægilegar blóðhlutabirgðir á hverjum tíma og dreifingu blóðhluta eftir þörfum innanlands. Skyldi landið þannig vera sjálfbært með tilliti til blóðhluta og aðgengi landsmanna jafnt. Hún miðaði einnig að því að blóðhlutar séu gefnir af fúsum og frjálsum vilja og án endurgjalds og að öryggi blóðþega og blóðgjafa sé tryggt. Samkvæmt teglugerðinni rann svo blóðbanki Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri inn í Blóðbankann í Reykjavík og varð hluti hans árið 2007
Að ofan hefur aðeins verið stiklað á stóru og óhætt að segja að fjölmargt annað hafi breyst í starfsháttum og tækjabúnaði Blóðbankans, ekki hvað síst á síðustu áratugum. Er það í raun efni í sérstakt verk. En auk þess sem breytingar hafa orðið á þeirri starfsemi sem sem snýr að bjóðgjöfum og –vinnslu, svo og ýmsum þjónusturannsóknum sem bankinn hefur sinnt hefur líka verið unnið í honum margvíslegt vísindastarf.
Vísindastarf í Blóðbankanum hófst að miklu leyti með ráðningu Ólafs Jenssonar í stöðu yfirlæknis árið 1972. Staða hans var um margt frábrugðin stöðu forrennara hans þar sem hann var fyrsti forstöðlæknirinn sem gegndi þeirri stöðu í fullu starfi. Fyrri yfirlæknar höfðu fengið þá stöðu í kaupbæti ef svo má segja með stöðu svæfingayfirlæknis á Landspítalanum, það er að segja þeir sem ekki tóku stöðuna að sér tímabundið þegar ekki fengust aðrir til að sinna henni. En Ólafur var líka ástríðufullur vísindamaður og duglegur rannsakandi sem réði um margt þróun bankans frá ráðningu sinni og næstu tvo áratugina. Að því sögðu lagði forrennari hans í starfi, Valtýr Bjarnason, þó líka stund á merkilegar rannsóknir í bankanum, einkum á síðari árum sínum í starfi. Niðurstöður helstu rannsóknar Valtýs birtust þó ekki fyrr en nokkrum árum eftir að hann lét þar af störfum.
Í apríltölublaði hins virta tímarits Annals of Human Genetics 1973 birtist greinin „The Blood Groups of Icelanders." Höfundar greinarinnar eru skráðir O. Bjarnason, V. Bjarnason, J.H. Edwards, S. Friðriksson, M. Magnússon & A.E. Mourant og D. Tills. Grein þessi fjallar eins og nafnið gefur til kynna um blóðflokkasamsetningu Íslendinga, tengsl þjóðarinnar við nágrannaþjóðir og mögulegt mannfræðilegt ætterni hennar. Við vinnslu greinarinnar var byggt var á viðamiklum gögnum Blóðbankans um blóðgjafa, blóðþega og væntanlegar mæður (upplýsingum um blóðflokka sem fengust við mæðraeftirlit). Náðu þessi gögn aftur til stofnunar bankans árið 1953 og fram til 1967. Um var að ræða um það bil tólfþúsund blóðgjafa, álíka marga blóðþega og um sextánþúsund mæður. Voru gögn Blóðbankans líkt og áður hefur komið fram færð inn í tölvu og keyrð saman við Þjóðskrá þannig að unnt var að bera áreiðanleg kennsl á einstaklinga hverra ABO-blóðflokkar og Rhesus voru þekktir og ennfremur að sjá hver var fæðingastaður viðkomandi. Hafði Valtýr varið talsverðum hluta síðustu þriggja til fjögurrar ára sinna sem yfirlæknir Blóðbankans í rannsókn á umræddum gögnum og úrvinnslu þeirra.
Áður en grein Valtýs og samstarfsmanna um blóðflokka Íslendinga birtist hafði þó hafist önnur rannsókn í Blóðbankanum undir stjórn þá nýráðins yfirlæknis, Ólafs Jenssonar. Það var í júlí 1972 og hefur umrætt verkefni verið nefnt Systkinabarnarannsóknin. Var hún fyrsta meiriháttar verkefni Blóðbankans á sviði mannerfðafræði. Rannsóknin sem var allmikil að umfangi tók til fimmhundruðogfimm einstaklinga úr eitthundrað fjölskyldum þar sem foreldrar voru systkinabörn. Til rannsóknarinnar var stofnað af erfðafræðinefnd Háskólans sem hafði yfirumsjón með henni en hún var unnin í samvinnu ýmissa innlendra og erlendra aðila. Framkvæmd rannsóknarinnar fór svo fram í Blóðbankanum undir stjórn Ólafs. Segja má að hún hafi verið bæði fyrirmynd og æfing fyrir starfsfólk bankans sem í kjölfar hennar tókst á við allmörg meiriháttar verkefni af líku tagi og um árabil hverfðust þær rannsóknir sem þar fóru fram að miklu leyti um mannerfðafræði. Það var engin tilviljun.
Skoða þetta bláa!!!!!!!
Segja má að með ráðningu Ólafs Jenssonar í stöðu forstöðulæknis Blóðbankans í mars 1972 hafi mannerfðafræðirannsóknir hafist fyrir alvöru á Íslandi. Ólafur var þegar vanur rannsóknarmaður og menntaður meina- og sérstaklega blóðmeinafræðingur. Í Blóðbankanum kom Ólafur upp rannsóknarstofu og rannsakaði þar fjölda sjúkdóma en áður hafði hann rekið eigin rannsóknarstofu í Reykjavík. Áður en deildin var stofnuð hafði vissulega verið fengist við afmarkaðar rannsóknir á einstaka sjúkdómi, en Blóðbankinn varð miðstöð mannerfðafræðirannsókna í starfstíð Ólafs. Stóran hluta rannsókna sinna vann hann í samstarfi við erlenda lækna. Merkastar rannsókna Ólafs voru að líkindum þær á arfgengri heilablæðingu en þann sjúkdóm náði hann ásamt fleirum að greina og kortleggja eftir fjölskyldum. Arfgeng heilablæðing er séríslenskur erfðasjúkdómur sem erfist ókynbundið og er ríkjandi. Hann hefur fundist í níu íslenskum fjölskyldum frá héruðum í nágrenni Breiðafjarðar og úr Rangárvallasýslu. Sjúkdómurinn stafar af stökkbreytingu sem veldur því að stökkbreytt prótín hleðst upp sem svokallað mýlildi (e. amyloid) í heilaslagæðum arfbera og veldur heilablæðingum í ungu fólki.
Að þessu sögðu ætti ekki að koma á óvart að árið 1975 var komið á fót erfðarannsóknadeild við Blóðbankann. Til starfa við hana réðs líf- og erfðafræðingurinn Alfreð Árnason sem átti mjög eftir að vinna að erfðafræðirannsóknum á starfstíma sínum við bankann. Hlutverk deildarinnar var að leggja stund á rannsóknir á erfðamörkum í sjúkdómum til að afla grunnþekkingar, veita þjónustu við sjúkdómsgreiningu og samræmingarannsóknir vegna líffæraflutninga auk þess sem þar var unnið að úrlausn barnfaðernismála. Segja má að stofnun erfðarannsóknadeildarinnar hafi markað upphaf eiginlegrar deildaskiptingar í Blóðbankanum en hún var jafnframt mikilvægur liður í þeim uppgangi rannsóknarstarfs sem varð í bankanum í kjölfarið. Í deildinni var unnt að flokka erfðamörk nákvæmar en áður hafði verið hægt hér á landi. Deildin var reyndar ekki formlega stofnuð fyrr en í mars 1977 og þá hófst vefjaflokkun loks af fullum krafti eftir þriggja ára undirbúning, með styrkjum til sjúkdómsrannsókna frá Vísindasjóði og lyfjafyrirtækinu Astra Syntex. Allra fyrsta vefjaflokkunin fór fram hinn 26. mars og var framkvæmd af Alfreði Árnasyni sem hafði þessar rannsóknir með hendi.
Það er til nokkurs marks um þann kraft sem lagður var í erfðarannsóknir við bankann að þegar haldinn var í Reykjavík sumarið 1978 fræðslufundur Sambands norrænna krabbameinsfélaga voru þar ræddar erfðir og illkynja sjúkdómar. Í tengslum við fundinn efndi Blóðbankinn til erfðasýningar. Þar voru hengdar upp ættfræðiupplýsingar, rannsóknarniðurstöður og skrásetningaraðferðir sem erlendir þátttakendur gátu skoðað. Í framhaldinu var sýningin höfð til sýnis fyrir lækna og starfslið sjúkrahúsanna sem þessi mál vörðuðu og var hún opin fram yfir tuttuguogfimm ára afmæli bankans í nóvember. Erfðafræðirannsóknir héldu áfram við bankann í kjölfarið og enn fram á 9. áratuginn í samstarfi við ýmsa aðila, bæði innlenda og erlenda.
Erfðafræðideild Blóðbankans efndi árið 1982 til samstarfs við rannsóknahópa í New York University Medical Center, hjá Almänna sjukhuset í Malmö og í ársbyrjun 1983 við prófessor Anders Grubb og samstarfsmenn við lífefnafræðideildina í Lundi um rannsóknir á arfgengri heilablæðingu vegna cystatin C mýlildis (AHCCM). Áttu erfðafræðirannsóknir við Blóðbankann mjög eftir að hverfast um þennan sjúkdóm á komandi árum þótt einnig snéru þær að ýmsu öðru. Blóðbankinn var á þessum árum virkur í fjölbreyttu samstarfi við erlenda aðila en auk þess sem unnið var að rannsóknum sótti starfsfólk bankans ráðstefnur erlendis og eins voru haldnir fundir hérlendis um ýmis efnis sem snéru að vísindastarfi innan bankans. Í júní 1985 sótti Rodney R. Porter prófessor við lífefnafræðideild Háskólans í Oxford og nóbelsverðlaunahafi í ónæmisfræði árið 1972 til dæmis landið í boði Blóðbankans og Blóðgjafafélags Íslands. Porter flutti tvo fyrirlestra í fyrirlestrasal Geðdeildar Landspítalans þriðjudaginn 25. júní. Sá fyrri fjallaði um komplementkerfið og sameindaerfðafræðiþætti þess. Hinn síðari var um erfðasvipmyndir og svörun þátta komplementkerfisins og með hvaða hætti hún getur tengst sjálfsónæmissjúkdómum. Fyrirlestrarnir voru hluti einsdags fundar um komplementkerfið, sem haldinn var á vegum Blóðbankans og nokkurra samstarfsaðila og áhugamanna um efnið, í tilefni af komu Porters.
Hvergi var slegið af það árið en í byrjun september sama árs var fyrsta þingið um arfgeng æðamein vegna amyloid efnamyndunar í miðtaugakefi haldið í Reykjavík, á Geðdeild Landspítalans. Þingið sótti fjörutíuogeinn þátttakandi og þar af voru sautján erlendir. Komu þátttakendur frá Japan, BNA, Englandi, Hollandi og Svíþjóð auk Íslands. Rannsóknahópur um arfgenga þætti heilaæðameina á vegum Blóðbankans, Taugalækningadeildar Landspítalans og Rannsóknastofu Háskólans við Barónsstíg og Líffærafræðideildar Læknadeildar stóð fyrir þinginu. Sá hópur hafði þá skipulagt alþjóðlegt samstarf um þessar rannsóknir í fjögur ár. Í skipulagsnefnd þingsins voru meðal annars Ólafur Jensson og Alfreð Árnason, starfsmenn Blóðbankans. Loks var þetta sama ár hafin uppbygging á rannsóknareiningu fyrir DNA-rannsóknir í Blóðbankanum. Var hún fljót að sanna sig við greiningu og rannsóknir á erfðasjúkdómum hérlendis.
Árið 1986 stofnuðu ættingjar fólks með arfgenga heilabæðingu félagið Heilavernd sem ætlað var að stuðla að og styðja við rannsóknir á sjúkdómnum. Átti félagið eftir að styðja vel við bakið á þeim rannsóknum sem stundaðar voru á sjúkdómnum í Blóðbankanum og Malmö. Raunar færði félagið Blóðbankanum fimmhundruðþúsund krónur sem safnast höfðu með sölu á drykkjarkrúsum strax á stofnárinu. Frá og með árinu 1986 og fram á 10. áratuginn gaf Heilavernd Blóðbankanum skilvindu, litrófsmæli, vatnsbað, tölvustýrða hitablokk, myndavél fyrir útfjólubláa myndatöku og fleira, tæki sem metin voru á tæplega tværoghálfamilljón króna á þávirði.
Rannsóknir héldu áfram af krafti í bankanum á næstu árum. Dr. Leifur Þorsteinsson lagði stund á rannsóknir þar sem leitast var við að varpa ljósi á það hvernig vissar frumur líkamans framleiða og nota það efni sem umbreytist í mýlildisefni hjá sjúklingum með arfgenga heilablæðingu. Var hann í samstarfi við íslenska og erlenda vísindamenn um þennan rannsóknarþátt. Dr. Ástríður Pálsdóttir lífefnafræðingur í Blóðbankanum vann um sama leyti einkum að rannsóknum á hinu stökkbreytta geni. Með rannsóknunum sínum greindi hún stökkbreytingu í cystatin C-geninu og fannst hún hjá öllum sjúklingum í öllum ættunum. Hún og samstarfsfólk hennar gátu líka rannsakað sýni úr sjúklingum sem látist höfðu á síðasta áratug en sýni þessi höfðu sérstaklega verið geymd með það í huga að með rannsóknum á þeim yrði síðar meir hægt að fá svarað spurningum sem ekki var mögulegt þegar viðkomandi létust.
Um haustið 1987 fór hópur íslenskra vísindamanna, skipaður dr. Gunnari Guðmundssyni og þeim dr. Ólafi Jenssyni, dr. Ástríði Pálsdóttur og dr. Leifi Þorsteinssyni starfsmönnum Blóðbankans, til Japan á þing um arfgenga heilablæðingu. Þar kynnti hópurinn nýjustu niðurstöður rannsókna sinna á sjúkdómnum auk þess sem Gunnar og Ólafur voru fundarstjórar. Rannsóknirnar allar báru talsverðan árangur, þekking og skilningur á sjúkdómnum jókst til muna og í maí 1988 tókst að greina arfbrigðilegan erfðavísi sem orsakar hina arfgengu heilablæðingu. Enn hefur ekki fundist lækning á sjúkdómnum en hann er enn til rannsóknar hjá bæði íslenskum og erlendum vísindamönnum.
Þrátt fyrir að rannsóknir á arfgengri heilablæðingu hafi lengi vel verið fyrirferðarmiklar við Blóðbankann voru þær fjarri einu rannsóknirnar sem þar voru stundaðar. Þegar kom fram á 9. áratuginn var tekið að stunda fjölbreyttar rannsóknir við stofnunina, ekki aðeins á mönnum heldur einnig hvölum.
Þegar Ísland hóf veiðar á hvölum í vísindaskyni seint í júní 1986 voru vísindamenn á vegum Blóðbankans meðal þeirra sem að þeim komu. Snéri hlutverk þeirra á næstu árum einkum að erfðarannsóknum á sýnum úr veiddum langreyðum. Nánar tiltekið snéru þær að fækkun, fjölbreytni og skyldleika innan hvalastofnsins. Þessar upplýsingar voru þær einu sinnar tegundar og samkvæmt mati Alfreðs Árnasonar erfðamarkafræðings haldbestu upplýsingar um erfðamörk nokkurrar hvalategundar sem til var í heiminum. Auk þess að vera forstöðumaður erfðarannsóknardeildar Blóðbankans var Alfreð jafnframt fulltrúi í vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins. Veiðum á langreyðum í vísindaskyni var hætt árið 1989 og hvalarannsóknum í erfðafræðideild Blóðbankans lauk tveimur árum síðar.
En rannsóknir á hinum skíðmynntu frændum okkar í hafinu voru ekki einu rannsóknirnar utan þeirra á arfgengri heilablæðingu sem stundaðar voru í bankanum á þessum tímabili. Árið 1986 hóf erfðafræðideild Blóðbankans einnig samstarf sitt við Royal Postgraduate Medical School við Queen Charlotte‘s og Chelsea Hospital í London um rannsóknir á hryggrauf (l. spina bifida) í íslenskri fjölskyldu þar sem fæðingargallinn virtist arfgengur. Árið 1992 var efniviðurinn fyrir meingenaleitinni fluttur frá London til Háskólans í Nijmegen í Hollandi og stofnað til samvinnu við Dr. Edwin Mariman og samstarfsmenn þar.
Þá voru í desember árið eftir birtar í grein í tímaritinu Nature Genetics niðurstöður leitar að og staðsetningu meingena sem valda arfgengum blöðrunýrum. Byggðu niðurstöðurnar sem teljast vera merkur áfangi á þessu sviði meðal annars á íslenskum rannsóknum og meðal höfunda greinarinnar í tímaritinu var Ragnheiður Fossdal, líffræðingur í erfðafræðideild Blóðbankans. Í íslenska rannsóknarhópnum voru auk Ragnheiðar þeir Magnús Böðvarsson læknir og Páll Ásmundsson yfirlæknir á skilunardeild Landspítalans, Jóhann Ragnarsson læknir á lyflækningadeild Borgarspítalans og prófessor Ólafur Jensson, þáverandi forstöðumaður Blóðbankans. Fjórum árum fyrr, árið 1989, höfðu erfðafræðideild Blóðbankans og lyfjadeildir Landspítalans og Borgarspítalans efnt til samstarfs við rannsóknahópinn Concerted Action í Leiden í Hollandi. Hópur þessi var samvinnuhópur Evrópusambandsríkja auk fleiri ríkja um sameindaerfðafræðilegar rannsóknir á arfgengum blöðrunýrum.
Merkur áfangi náðist síðan í mars 1995 í rannsókn á öðrum erfðasjúkdómi, augnsjúkdómi í íslenskum ættum sem nefnist arfgeng sjónu- og æðuvisnun. Eftir tveggja ára rannsóknarstarf í erfðafræðideild Blóðbankans tókst að kortleggja meingenið, sem veldur sjúkdóminum, á efri hluta litnings nr. 11. Grein um niðurstöður þessara rannsókna birtist í marshefti fræðiritsins Human Molecular Genetics, sem er eitt hið virtasta á sviði sameindaerfðafræði erfðasjúkdóma. Höfundar greinarinnar voru áðurnefnd Ragnheiður Fossdal, Loftur Magnússon, augnlæknir á Akureyri, Dr. James L. Weber, erfðafræðingur á Marschfield Medical Research Foundation, í Wisconsin í Bandaríkjunum og Ólafur Jensson sem látist hafði árið á undan.
Árið 1995 var einnig byrjað að vinna með blóðmyndandi stofnfrumur í Blóðbankanum eftir að líffræðingarnir Kristbjörn Orri Guðmundsson og Leifur Þorsteinsson í Blóðbankanum og dr. Sveinn Guðmundsson, forstöðulæknir hans, höfðu einangrað þær úr fylgju- og naflastrengsblóði í samstarfi við prófessor Ágúst Haraldsson á Barnaspítala Hringsins. Frumurnar voru svo nýttar til ýmissa rannsókna á eiginleikum stofnfruma svo sem þroskun blóðmyndandi stofnfruma.
Hér hefur eins og að ofan aðeins verið stiklað á stóru en eftir allt það vísindastarf sem unnið hefur verið í Blóðbankanum liggja ótal greinar, erindi og framsögur; starfsmenn bankans hafa farið ótal ferðir erlendis tengdar rannsóknum sínum, sótt ráðstefnur og málþing og fengið fjölda samstarfsmanna hingað til lands í sama tilgangi. Allt er þetta slíkt að umfangi að ómögulegt er að gera grein fyrir því hér en það bíður betri tíma.
Þegar Elías Eyvindsson tók til starfa sem forstöðumaður Blóðbankans við opnun hans í nóvember 1953 var hann eini læknirinn við stofnunina. Og jafnvel hann gegndi þeirri stöðu í hlutastarfi, meðfram starfi sínu sem fyrsti svæfingarlæknirinn sem ráðinn var við Landspítalann. Svæfingarlækningar voru þá fremur ung sérgrein, rétt eins og blóðbankastarfsemi var ungt svið innan heilbrigðisgeirans. Auk Elíasar störfuðu við bankann í byrjun Halla Snæbjörnsdóttir hjúkrunarfræðingur, Ívana Eyjólfsdóttir aðstoðarstúlka, Sonja Hákonardóttir skrifstofustúlka og Guðmunda Guðmundsdóttir starfsstúlka. Alls voru starfsmennirnir því fimm. Á engan er hallað þó sagt sé að áðurnefnd Halla hafi verið hjartað í starfsemi bankans framan af. Halla hafði sótt sér sérmenntun á sviði blóðbankastarfsemi til Bandaríkjanna og var fyrst Íslendinga til að að mennta sig sérstaklega í þeirri grein. Framan af snéri starfsemi bankans að mun meira leyti en síðar hefur orðið að blóðflokkagreiningu, blóðsöfnun og geymslu blóðs og því sá Halla í þá daga að miklu leyti um daglega starfsemi stofnunarinnar. Sjálfstætt vísindastarf og jafnvel hinar ýmsu þjónusturannsóknir sem gerðu kröfu um annars konar sérmenntun komu ekki til kasta Blóðbankans fyrr en nokkru síðar.
En þótt umsvif bankans hafi verið margfallt minni í árdaga hans en síðar varð gat það reynst fullt eins erfitt þá og nú að fá nægilega marga blóðgjafa til að mæta þörfum spítalanna. Að vissu leyti er það skiljanlegt, Blóðbankinn var eftir allt saman ung stofnun og blóðbankastarfsemi var ung grein. Starfsfólk heilbrigðiskerfisins var vitanlega kunnugt starfseminni og þær blóðgjafasveitir sem stofnaðar höfðu verið áratugina áður en Blóðbankinn kom til sögunnar voru enn um sinn helstu bakhjarlar blóðsöfnunarstarfsins. En þekking alls þorra fólks á starfsemi og mikilvægi bankans var eðli málsins samkvæmt mun minni en varð í tímans rás. Nákvæmar tölur yfir blóðsöfnun á fyrstu árum stofnunarinnar hafa því miður ekki varðveist en áætlanir þeirra sem best til þekkja gera ráð fyrir að um það bil þúsund einingar blóðs hafi safnast árlega hin fyrstu ár. Á eftirfarandi mynd má sjá þróun blóðsöfnunar frá 1953 til 1992:
Eins og sjá má er þróunin fremur hæg framan af, allt fram á miðjan 7. áratuginn þegar hún tekur kipp og eykst þá hratt – með örlitlu bakslagi á fyrri hluta 8. áratugarins – uns blóðsöfnun nær hámarki sínu árið 1983. Þá gerði tilkoma HIV-veirunnar og ótti almennings við smit Blóðbankanum slæma skráveifu og blóðgjafir drógust talsvert saman, sem fyrr segir. Með markvissum aðgerðum í þágu öryggis bæði blóðgjafa og blóðþega tókst að draga úr ótta fólks og þegar kom fram á 10 áratuginn höfðu blóðgjafir aftur náð sér á góðan skrið sem síðan hefur haldist.
Engu að síður krefst starfsemi Blóðbankans stöðugs og öflugs kynningarstarfs til að anna eftirspurn eftir blóði. Með opnun Blóðbankans varð eðlisbreyting á blóðgjöfum þar eð ekki var þá lengur nauðsynlegt að stefna blóðgjafa og -þega saman. Engu að síður varð áfram að vinna ötullega að því að hvetja fólk til blóðgjafa og eins og oft síðar reyndist það gjarnan þrautin þyngri.
Í blábyrjun gekk söfnun blóðs reyndar allvel og nóg blóð fékkst fremur auðveldlega. Aðstaða í hinum nýja blóðbanka var mun betri en aðstæður til blóðgjafa höfðu áður verið. Blóðgjafar lögðust á blóðrauða bekki sem voru nokkuð frábrugðnir þeim sem síðar komu til sögunnar, háir og flatir og minntu helst á skoðunarbekki heimilislækna. Hverjum blóðgjafa voru teknir fjögurhundruðogfimmtí mililítrar blóðs, sem leitt var í þartilgerða glerflösku svo og í minna glas til skoðunar. Út í blóðið var svo bætt storkuvara og flaskan því næst færð í sérstakt kæliherbergi þar sem ávallt var fjögurra gráðu hiti. Við þessar aðstæður var hægt að geyma blóðið í þrjár vikur áður en það varð ónothæft. Að blóðgjöf lokinni þáði blóðgjafinn svo veitingar á kaffistofu Blóðbankans eins og allar götur síðan.
Fljótlega eftir opnun bankans fór þó að draga nokkuð úr aðsókninni og ekki leið á löngu þar til erfitt var orðið að fá nægilegan fjölda blóðgjafa. Á þessum tíma varð hann því mjög að reiða sig á hin ýmsu félagasamtök, nemendur hinna ýmsu skóla, fyrirtækja og þar fram eftir götunum, ekki ólíkt því sem verið hafði áður en bankinn sjálfur tók til starfa. Sem fyrr segir fjölmenntu nemendur Stýrimannaskólans til að gefa blóð strax í kjölfar stofnunar bankans og á næstu árum voru þeir áfram duglegir að gefa og meðal traustustu gjafa. Þá samþykkti sambandsráð Íþróttasambands Íslands á fundi sínum vorið 1954 áskorun til íþróttamanna innan vébanda sambandsins þess efnis að þeir gæfu blóð ættu þeir þess yfirleitt nokkur tök. Skemmtileg saga af viðlíka framtaki er líka sú af slysavarnadeildinni Bræðrabandinu í Vestur-Barðastrandarsýslu og skal nú drepið á henni.
Skömmu fyrir stofnun Blóðbankans, árið 1952, stofnaði slysavarnadeildin Bræðrabandið í Rauðasandshreppi blóðgjafasveit og skyldu meðlimir hennar fara í Blóðbankann og gefa blóð í hvert sinn sem þeir ættu leið um Reykjavík. Var Bræðrabandið fyrst slysavarnadeilda landsins til að taka upp slíka starfsemi og það þó heimasveit hennar væri talsvert fjær Reykjavík en margra sambærilegra deilda. Það varð reyndar nokkur bið á því að einhver félaganna ætti erindi til Reykjavíkur en í mars 1956 varð Þórður Jónsson bóndi að Hvallátrum og formaður Bræðrabandsins fyrstur þeirra til að gefa blóð, fjórum árum eftir að blóðgjafasveit deildarinnar var formlega stofnuð.
Þótt ýmis félög tækju sig saman og stofnuðu til blóðgjafasveita varð Blóðbankinn fljótlega að leita í fjölmiðla til að vekja athygli á starfsemi sinni og eggja fólk til blóðgjafa. Þannig birtist ákall til Reykvíkinga um að gefa blóð í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins undir lok júlí 1954. Síðar í sömu viku var rætt við Elías Eyvindsson yfirlækni í blaðinu og hafði hann þar á orði að kalli bankans í Sunnudagsblaðinu hefði verið svarað vel. Í sama viðtali kvartar Elías þó nokkuð undan almennu tómlæti fólks til blóðgjafa. Grein svipaðs efnis má finna í Vísi árið á eftir þar sem blaðamaður tiltekur sérstaklega háskólastúdenta sem lata til blóðgjafa. Er sú gagnrýni að líkindum til komin vegna þess að samanburður háskólanema við nemendur ýmissa annarra skóla var neikvæður, en sem fyrr segir voru nemendur Stýrimannaskólans til að mynda meðal ötulustu blóðgjafa framan af. Þótti það til nokkurrar minnkunar fyrir háskólanema að standa sig ekki sem skyldi á þessu sviði.
Líkt og tölur yfir söfnun blóðeininga bera með sér urðu breytingar í þessum efnum fremur hægfara. Það koma enda vel í ljós á fimm ára afmælisári bankans, 1958, að áhyggjur heilbrigðisstarfsfólks voru á rökum reistar. Upp kom þá sú staða að þegar sjúkrahúsið Hvítabandið falaðist eftir tveimur flöskum af A+ blóði fyrir dauðvona sjúkling hjá Blóðbankanum var aðeins til ein flaska af blóði í þeim tiltekna flokki. Viðbótarblóð fékkst þó daginn eftir og ekki er að sjá að frekari eftirköst hafi orðið af þessu óheppilega atviki. Reyndar olli það dálitlum misskilningi í Alþýðublaðinu, sem upphaflega birti frétt þess efnis að alls ekkert blóð hefði verið til í téðum flokki. Blaðamanni virðist þar hafa hlaupið helst til mikið kapp í kinn því tveimur dögum síðar birtist leiðrétting þar sem raunverulegir málavextir eru skýrðir. Það gekk sannarlega á ýmsu á þessum fyrstu árum Blóðbankans.
Séu dagblöð frá tímabilinu skoðuð má líka sjá hve mjög Blóðbankinn lagði sig fram um að vekja fólk til vitundar um starfsemi sína og minna rækilega á sig. Frá síðari hluta 6. áratugarins og lengi vel þess 7. birtust daglega, eða að minnsta kosti nokkrum sinnum í viku, smáauglýsingar þar sem minnt er á starfsemi blóðbankans, staðsetning hans tiltekin og opnunartímar. Ekki hafa þessar auglýsingar verið taldar nákvæmlega en víst er að þær hlaupa á mörgum hundruðum alls, ef ekki þúsundum. Viðlíka auglýsingar birtust svo reglulega allt fram á tölvuöld, þótt aldrei hafi þær verið jafn tíðar og á ofangreindu tímabili. Þegar kemur fram á 9. áratuginn er síðan farið að ráðast í sérstök skammtímaátök til að vekja athygli á Blóðbankanum og fjölga blóðgjöfum. Í þessu skyni var einkum höfðað til ungs fólk og sérstaklega var til þess horft að fjölga blóðgjöfum meðal námsmanna. Sé saga kynningarstarfs Blóðbankans svo skoðuð í víðara samhengi og borin saman við bæði sögu hans í heild og jafnvel almenna sögu Íslands og heimsins má sjá að sjaldan hefur kynningarstarf verið eins brýnt og einmitt á 9. áratugnum. Einkum fræðsla um mikilvægi blóðgjafa. Ræðst það af tilkomu HIV-veirunnar í byrjun umrædds áratugar sem olli vægast sagt gríðarmiklum ótta í samfélaginu. Þennan ótta má meðal annars merkja af fjölmörgum blaðagreinum frá tímabilinu en eins bera tölur Blóðbankans yfir heildarmagn gefins blóðs, sem sjá má að ofan, það með sér svo ekki verður um villst að fólk fældist um þetta leyti frá blóðgjöfum – í fyrsta sinn frá stofnun Blóðbankans þremur áratugum fyrr drógust blóðgjafir saman á ársgrundvelli.
Var því líkt farið hvarvetna á Vesturlöndum. Þó kom þetta minna að sök en ætla mætti hérlendis þar sem blóðbankastarfsemi var hröðum skrefum að breytast, blóðhlutavinnsla jókst til muna og nýting blóðs þar með. Á þann hátt tókst að vinna vel úr samdrættinum jafnvel þótt að árið 1986 væri byrjað að gera hjartaskurðaðgerðir á Landspítala sem eins og gefur að skilja kröfðust gríðarmikils blóðs. Með kraftmiklum aðgerðum til að tryggja öryggi blóðgjafa og -þega tókst að eyða ótta fólks við smit um blóðgjafir. Til að byrja með var hert á almennum varúðarráðstöfunum við flutninga blóðs. Fyrst og fremst var haft eftirlit með vissum áhættuhópum, kannað hvaðan blóðgjafar koma og hvar þeir hefðu verið en í nóvember 1985 var byrjað að skima allar blóðeiningar fyrir alnæmi, um líkt leyti og sambærileg skimun hófst erlendis. Áður höfðu sýni verið geymd um alllangt skeið í sama tilgangi. Skimun byrjaði reyndar á Borgarspítalanum eftir að samningar tókust á milli Blóðbankans og Borgarspítala en hún færðist svo yfir á rannsóknarstofu Blóðbankans fyrir veiru- og veirumótefnaskimpróf um áramót ´85-´86. Gaf Íslandsdeild Rauða krossins tæki til að sinna þessu verki.
Sama ár mátti engu að síður litlu muna að illa færi. Lyfjainnflytjendur og heildsalar lögðu þá hart að heilbrigðisyfirvöldum að kaupa blóðefni frá Frakklandi, sem voru talsvert ódýrari en þau blóðefni sem keypt voru frá Norðurlöndum. Ekki varð af umræddum áformum, einkum vegna andstöðu Þórarins Ólafssonar, yfirlæknis á svæfingadeild Landspítalans. Frönsku blóðefnin reyndust ekki vera skimuð fyrir alnæmisveiru og í sambandi við þessi viðskipti kom upp mikið hneykslismál, hið mesta í tengslum við franskt heilbrigðiskerfi á síðari árum. Ólafur Jensson, yfirlæknir Blóðbankans, sagði lán að storkuþáttur VIII sem notaður var til meðferðar dreyrasjúklinga hefði verið keyptur frá Finnlandi, en þaðan hafði hann verið keyptur allt frá árinu 1973. Sýktur, innfluttur storkuþáttur hefði meðal annars verið í umferð í Danmörku, Þýskalandi og á Englandi. Ólafur Ólafsson, landlæknir sagði ennfremur að íslenskum heilbrigðisyfirvöldum hefðu boðist ódýrt blóðefni frá Bandaríkjunum á árunum 1970-1989, en að þau hefðu stutt fyrrnefndan Ólaf Jensson í þeirri afstöðu að kaupa heldur af Finnum. Þá benti landlæknir líka á að í Bandaríkjunum og víðast hvar á meginlandi Evrópu væri sá háttur hafður á að kaupa blóð, sem byði upp á óheppilega blóðgjafa, en að íslensk heilbrigðisyfirvöld hefðu það fyrir stefnu að kaupa blóð þaðan sem það væri gefið. Segja má að Blóðbankanum og íslensku heilbrigðiskerfi hafi gengið vel að takast á við þann mikla vanda sem steðjaði að blóðgjafastarfsemi í kjölfar tilkomu HIV-veirunnar. Nokkur smit greindust sem rekja mátti til blóðgjafa, árið 1989 höfðu fjórir einstaklingar smitast við blóðgjöf svo vitað var og höfðu öll tilvikin átt sér stað áður en byrjað var að skima blóð fyrir veirunni árið 1985. Smám saman fjaraði hinn mikli ótti við smit út og þegar kom fram á 10. áratuginn höfðu blóðgjafir aftur náð fyrri dampi og tóku að aukast á nýjan leik.
Síðla árs 1987 heimsóttu fulltrúar Rauða krossins og Blóðbankans Háskóla Íslands þar sem þeir fengu að fara inn í kennslustundir til að kynna blóðgjafastarfsemi. Uppteknum hætti var haldið fram á næsta ár og í febrúar 1988 fór fram allsérstæð keppni í Menntaskólanum í Reykjavík, nefnilega keppni í blóðgjöfum. Ekki var það reyndar einstaklingskeppni en slíkt framtak væri í hæsta máta vafasamt heldur kepptu bekkir sín á milli. Sá bekkur sem gaf hlutfallslega mest blóð fékk fyrir vikið svokallaðan blóðbikar. Bekkurinn 5. X stóð uppi sem sigurvegari með áttatíuogníu prósent gjafahlutfall. Um það var talað í kjölfar keppninnar að bíll hefði verið í viðstöðulausum akstri á milli Menntaskólans og Blóðbankans morguninn sem keppnin fór fram.
Ráðist var í viðlíka átök af og til næstu ár en um sinn snemmsumars 1990 töldu reyndar ýmsir bjartsýnir menn horfur á því að senn yrði slík viðleitni óþörf. Birtist þá greinin „Geta kýr leyst vanda Blóðbankans?" í tímaritinu Bóndanum en tilefni hennar voru tilraunir vísindamanna í Boston í Bandaríkjunum með vinnslu á gjörhreinsuðu hemóglóbíni úr kúablóði. Blaðamaður Tímans greip hugmyndina á lofti og spurði í fyrirsögn í blaðinu: „Rennur kúablóð innan tíðar um æðar manna?" Voru höfundar beggja greina bjartsýnir á að hemóglóbínið kæmi til með að leysa blóð af hólmi í lækningum og að þá yrði vandi margra blóðbanka jafnframt leystur, framboð af kúablóði væri svo gott sem ótakmarkað og hemóglóbínið bæði fullkomlega laust við veirusmit og óháð blóðflokkum. Sem raun ber vitni varð þó ekki af kúablóðsbyltingunni og áfram mátti Blóðbankinn vinna að því að vekja athygli fólks á starfi sínu.
Þegar nálgast fór árið 2000 hljóp allnokkur kraftur í slíka viðleitni. Árið 1999 var til að mynda efnt til Heilsuátaks Blóðbankans í samstarfi við Landlæknisembættið og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Árið eftir var svo enn reynt að höfða til ungs fólks en í þetta sinn með nokkuð nýstárlegum hætti þegar útvarpsstöðin Mónó 87,7 efndi í samvinnu við Blóðbankann til svokallaðs blóðsugudags í verslunarmiðstöðinni Kringlunni. Reyndar var það átak tilkomið af jafnvel enn verri nauðsyn en oft áður en blóðbirgðir bankans voru þá komnar að hættumörkum. Mikið var um að vera í kringum uppákomuna, popparar tóku lagið og fleira. Dagurinn bar enda tilætlaðan árangur og mikill fjöldi hlustenda stöðvarinnar mætti í Kringluna til að gefa blóð í hreyfanlegri blóðgjafarstöð sem þar hafði verið komið upp. Vegna þess hve vel gekk var efnt til blóðsugudags á ný árið eftir en þá í samstarfi við útvarpsstöðina Radíó X.
Um vorið 2001 var líka höfðað til ungs fólks á nýstárlegan hátt þegar Blóðbankinn auglýsti að þeir sem kæmu til að gefa blóð fengju miða í kvikmyndahús, þó ekki á hvaða mynd sem er heldur einmitt hina afar viðeigandi Dracula: 2001. Það sama ár réðst bankinn líka í verkefni sem miðaði að því að fjölga blóðgjöfum framtíðar og vekja börn til meðvitundar um mikilvægi blóðgjafa þegar hann gaf út barnabókina Blóðgóða, eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson. Var hún gefin blóðgjöfum til að áframgefa til barna sinna, barnabarna eða annarra. Börn fengu líka virkt hlutverk við samningu bókarinnar því haldin var samkeppni þeirra á meðal til að finna nöfn á söguhetjurnar. Hið öfluga auglýsingastarf bankans sannaði gildi sitt hinn 25. nóvember 2002 þegar metfjöldi fólks mætti til að gefa blóð, alls 197 manns. Var það mikla átak ekki tilkomið af góðu einu en dagana á undan hafði birgðastaða bankans verið afar slæm.
Árið á eftir hófu Blóðbankinn og símfyrirtækið Og Vodafone farsælt samstarf um auglýsingaherferðir en það sama ár varð bankinn einmitt fimmtíu ára. Eftir fimmtíu ára starf safnaði bankinn um fimmtánþúsund einingum blóðs árlega og blóðgjafar töldu um tíuþúsund. Afmælinu var meðal annars fagnað með opnu húsi í bankanum. Árið 2005 var herferðinni „Hetjur óskast", í samstarfi við Og Vodafone hrundið af stað. Var átakinu ætlað að draga fram þá staðreynd að sérhver blóðgjafi sé hetja í hvert skipti sem hann gefur blóð og athygli vakin á því að til að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu þarf Blóðbankinn um sjötíu blóðgjafa á dag. Þessu átaki var svo haldið áfram árið á eftir undir lítillega breyttu heiti – „Allir geta verið hetjur." Sem fyrr segir var samstarf Blóðbankans og Vodafone farsælt og því til staðfestingar hlaut Blóðbankinn til að mynda verðlaun fyrir auglýsingu sína „Ert þú gæðablóð?" á málræktarþingi íslenskrar málnefndar sem fram fór í hátíðarsal Háskóla Íslands hinn 19. nóvember 2005.
Jákvæð athygli samfélagsins beindist svo enn að starfsemi bankans vorið 2006 þegar Guðbjörn Magnússon, rafeindavirki, var útnefndur Hvunndagshetja Fréttablaðsins fyrir að hafa reglulega gefið blóð allar götur frá árinu 1965. Þegar blaðið ræddi við hann vegna útnefningarinnar lét hann afar vel af Blóðbankanum og starfsfólki hans. Í desember sama árs náði Guðbjörn svo þeim merkilega áfanga að gefa blóð í hundraðogfimmtugasta skipti, og hafði hann þá gefið oftar en nokkur annar Íslendingur. Skömmu síðar, í byrjun janúar 2007, náðist enn merkur áfangi í blóðgjöfum þegar fimmtugasti blóðgjafinn bættist í hóp þeirra sem gefið höfðu blóð hundrað sinnum eða oftar. Skömmu síðar flutti Blóðbankinn svo í núverandi húsnæði sitt. Síðustu ár hefur Blóðbankinn eftir sem áður verið duglegur að vekja athygli á sér óg hvetja fólk til blóðgjafa með hinum ýmsu auglýsingaherferðum og uppátækjum.
Nýtt fag verður til
Að öllu samanteknu má það heita merkilegt að nokkrum hafi þótt blóðgjafir fýsilegar áður en ABO-blóðflokkakerfið var uppgötvað. Mestan heiður af uppgötvun þess á austurríski læknirinn Karl Landsteiner (f. 1868 – d. 1943) sem birti niðurstöður sínar í ritgerð árið 1901. Merkilegt nokk vakti uppgötvun Landsteiners ekki ýkja mikla athygli í fyrstu og raunar varð blóðflokkun ekki að almennu verklegi í læknavísindum fyrr en á 3. áratug 20. aldar. Í því samhengi er auðvelt að skilja hví Landsteiner fékk Nóbelsverðlaun í læknisfræði einmitt árið 1930, tuttuguogníu árum eftir að hann kunngerði uppgötvun sína. Um líkt leyti voru að verða stórstígar framfarir í læknisfræði, þar á meðal voru fyrstu vísarnir að blóðbankastarfsemi að taka á sig mynd. Tilurð þeirra valt mjög á uppgötvunum nokkurra ótengdra hópa vísindamanna sitthvorum megin áramóta 1914-1915, á storkuvara fyrir blóð í geymslu, ákveðna lausn sodium citrate. Varð þá fyrst ónauðsynlegt að stefna blóðgjafa og –þega ævinlega saman, með öðrum orðum varð mögulegt að geyma blóð utan líkama fólks.
Þessar fyrstu þreyfingar í blóðbankastarfsemi voru sem eðlilegt er um margt frábrugðnar því sem síðar varð í faginu og kannski þess vegna eru nokkur áhöld um það nákvæmlega hvenær fyrsti blóðbankinn var settur á legg. Í nútímaskilningi þess orðs var það að líkindum blóðbanki sá sem rússneski læknirinn Sergei Yudin kom á fót við Nikolay Sklifosovskiy-stofnunina í Moskvu árið 1930. Enn frekari framfarir í átt til nútíma blóðbankastarfsemi urðu árið 1935 við Mayo Clinic í Minnesota í Bandaríkjunum þar sem John S. Lundy skipulagði og setti á stofn fyrsta blóðbankann þarlendis. Þar var blóði safnað í þartilgerðar flöskur og það síðan geymt í kæli uns að því kom að nota þurfti það. Þetta sama ár var svo haldið í Róm fyrsta heimsþing Alþjóðlegs félags um blóðgjafir (e. International Society of Blood Transfusion). Allnokkru áður hafði fyrstu skipulögðu blóðgjafaþjónustu veraldar verið komið á legg í Lundúnum, eða þegar árið 1921. Var þar um að ræða þjónustu á vegum Rauða krossins, sem sá um að skrá væntanlega gjafa, blóðflokkagreina þá og hafa samband þegar á þurfti að halda. Má kalla að þar hafi verið um að ræða gangandi blóðbanka. Fyrsti vísirinn að íslenskum blóðbanka var einmitt af þeim meiði og skal nú vikið að þróun þessara mála á Íslandi.