Stofnfrumugjafaskrá
Stofnfrumugjafaskrá er listi yfir einstaklinga sem eru tilbúnir að gefa hluta af sínum blóðmyndandi stofnfrumum (haematopoietic stem cells) til sjúklinga sem þurfa á þeim að halda.
Vilt þú skrá þig á stofnfrumugjafaskrá?
Einungis blóðgjafar geta orðið stofnfrumugjafar.
Aldur 18-40 ára
Stofnfrumugjafaskráin er einskorðuð við blóðgjafa því þeir eru heilsuhraustir og vitað er að þeir eru tilbúnir að gefa í þágu sjúkra. Nauðsynlegt er að hafa marga blóðgjafa á stofnfrumugjafaskrá því breytileiki vefjaflokka er mikill og fjöldi samsetninga þeirra skiptir milljónum. Meiri líkur eru á að finna gjafa meðal fólks af sama uppruna. Því er mikilvægt fyrir íslenska sjúklinga að hægt sé að leita að gjafa meðal Íslendinga og auka þannig líkurnar á að gjafi finnist.
Vilt þú verða stofnfrumugjafi? - Upplýsingarit.
Blóðbankinn er í samstarfi við norsku stofnfrumugjafaskrána, The Norwegian Bone Marrow Donor Registry (NBMDR). Blóðgjafar sem vilja taka þátt í þessu eru vefjaflokkaðir og þær upplýsingar eru skráðar inn í Stofnfrumugjafaskrána. Einnig eru upplýsingarnar skráðar hjá Bone Marrow Donors Worldwide (BMDW). Alþjóðleg tengsl eru milli stofnfrumugjafaskráa og er því hægt að leita á heimsvísu að heppilegum gjafa.