Ferli við pöntun og inngjöf blóðhluta
1. Fyrirmæli læknis í sjúkraskrá
Læknir þarf að skrá fyrirmæli um inngjöf blóðhluta skilmerkilega
í sjúkraskrá sjúklings. Meðal annars skulu koma fram hvaða
blóðhluta skal gefa, fjölda blóðhluta og tímasetning inngjafar sbr.
Klínískar leiðbeiningar um blóðhlutanotkun (2012).
Fyrirmæli um inngjöf blóðhluta skulu gefin af læknum og skráð
á viðeigandi fyrirmælablöð eða rafrænt eftir því sem við á.
2. Beiðnir og blóðsýni
Sjúklingur þarf að eiga samræmingarpróf ( BAS/BKS ) í gildi til
að hægt sé að afgreiða blóðhluta.
Samræmingarpróf ( BAS/BKS) er staðfesting á áður greindum blóðflokk
og trygging fyrir því að blóðhluti sem eigi að gefa inn sé af réttum blóðflokki.
Ef að samræmingarpróf ( BAS/BKS ) er ekki í gildi þarf að senda beiðni
og blóðsýni til Blóðbankans. Muna þarf að auðkenna sjúkling og að persónuvotta beiðni.
Ef sjúklingur er ekki til blóðflokkaður þarf að senda sýni ásamt beiðni þar
sem beðið er um blóðflokkun.
Það er mikilvægt öryggisatriði að sýnataka fyrir blóðflokkun og
samræmingarpróf ( BAS/BKS ) sé gerð á mismunandi tíma þannig
að staðfesting á blóðflokk sjúklings sé örugg.
Upplýsingar um blóðflokk og samræmingarpróf ( BAS/BKS )
má nálgast í Interinfo sem er aðgengilegt bæði úr Heilsugátt og Sögu.
3. Pöntun á blóðhluta
Þegar staðfest er að sjúklingur eigi samræmingarpróf ( BAS/BKS )
í gildi er hægt að panta blóðhluta fyrir sjúkling.
Hægt er að gera rafræna pöntun á blóðhlutum í Heilsugátt eða hringja
í Blóðbankann (s. 543-5507 / 543-5514 ).
Einnig er hægt að panta rauðkornaþykkni á beiðni
sem fylgir sýni í samræmingarpróf ( BAS/BKS ).
4. Flutningur blóðhluta
Starfsmenn Blóðbankans taka frá blóðhluta fyrir sjúklinga og senda
í sérstökum blóðflutningstöskum á viðeigandi sjúkrahús þar sem þeir
eru geymdir í blóðkæliskápum fram að notkun.
Þetta á ekki við um blóðflöguþykkni því það er sent beint á
deild sjúklings og má ekki geyma í kæli.
Starfsmenn sjúkradeilda sækja blóðhluta í blóðkæliskáp fyrir inngjöf.
Mikilvægt er fyrir öryggi blóðhluta að þeir séu geymdir við rétt hitastig.
Hefja skal inngjöf á rauðkornaþykkni og plasma innan við 30 mínútum
eftir að einingar eru teknar úr blóðkæliskáp.
5. Inngjöf blóðhluta
Mikilvægt öryggisatriði fyrir inngjöf blóðhluta:
Auðkenni sjúklings: Spyrja um fullt nafn sjúklings og kennitölu
og bera saman við armband sjúklings, fyrirmæli í sjúkraskrá og
merkingu á fylgiseðlum blóðhluta.
Fyrirmæli um blóðinngjöf: Staðfesta að verið sé að gefa inn
rétta tegund af blóðhluta með því að lesa fyrirmæli í sjúkraskrá
saman við merkingu á fylgiseðlum blóðhluta.
Athuga sérstaklega hvort að blóðhluti uppfylli kröfur sjúklings
til dæmis um geislun blóðhluta. .
Blóðhluti og fylgiseðlar: Samlestur á blóðhluta og fylgiseðli;
blóðhlutanúmer, ABO RhD blóðflokkur og fyrningardagsetning blóðhluta.
6. Skráning inngjafar í Interinfo
Það er lögbundin skylda að skrá upplýsingar um inngjöf blóðhluta til að
uppfylla skyldur um rekjanleika blóðhluta skv. reglugerð um notkun blóðhluta.
Með rekjanleika er tryggð vitneskja um hvaða blóðhluti er inngefinn í blóðþega.
Æskilegt er að skráning sé gerð í Interinfo sem er aðgengilegt bæði úr Sögu
og Heilsugátt.
Sjá nánar: reglugerð um notkun blóðs.