Pöntun blóðhluta og skráning inngjafar
Rafræn pöntun blóðhluta
Rafræn pöntun blóðhluta er gerð í gegnum Sögu eða heilsugátt. Forsenda fyrir rafrænni pöntun blóðhluta er sú að sjúklingur hafi verið blóðflokkaður og að samræmingarpróf (BAS/BKS) hafi verið framkvæmt í það minnsta einu sinni áður. Ef að leggja á inn pöntun á einingum af rauðkornaþykkni verður samræmingarpróf (BAS/BKS) að vera í gildi.
„Ef um bráðatilfelli er að ræða þarf að hringja í Blóðbankann og tilkynna að pöntun hafi verið gerð og brýna að blóðhlutar berist hratt til viðkomandi deildar.“
Sjá nánar í Gæðahandbók Blóðbanka og/eða í 22 kafla í gæðahandbók Landspítala.
Pöntun blóðhluta símleiðis eða á Blóðbankabeiðni
Ef að panta á blóðhluta fyrir sjúkling og ekki hægt að gera það rafrænt í gegnum Sögu eða Heilsugátt er hægt að hringja í Blóðbankann, þar sem starfsmaður Blóðbankans tekur niður pöntun á blóðhlutum. Einnig er hægt að panta rauðkornaþykkni á Blóðbankabeiðni- rannsóknir og blóðhlutar. Alltaf skal hringja eða senda rafræna pöntun til Blóðbankans ef gefa á sjúklingi blóðflöguþykkni eða blóðvökva og leggja inn pöntun fyrir þeim blóðhlutum.
Ef að leggja á inn pöntun á einingum af rauðkornaþykkni verður samræmingarpróf (BAS/BKS) að vera í gildi. Ef að leggja á inn pöntun fyrir blóðflöguþykkni eða blóðvökva þarf sjúklingur að vera blóðflokkaður tvisvar sinnum í Blóðbankanum til að tryggja öryggi inngjafar.
Upplýsingar frá Blóðbankanum, skráning á inngjöf blóðhluta Interinfo er að finna í Heilsugátt undir valmynd.
Upplýsingakerfi Blóðbankans ( ProSang ) er skráninga og öryggiskerfi sem er lokað öðrum en notendum innan Blóðbankans.
Interinfo er eins konar gluggi viðskiptavina Blóðbankans í ProSang upplýsingakerfið og er hægt að nálgast það á netinu.
Interinfo sækir upplýsingar rafrænt í upplýsingakerfi Blóðbankans.
Interinfo nýtist starfsmönnum deilda, þar má finna upplýsingar, yfirlit og skráningar á öllu sem varðar blóðflokkun og blóðhluta fyrir sjúklinginn.
Opnið Sögu. Sláið inn kennitölu þess einstaklings sem á að skoða. Vinstra megin á skjánum er stika, á henni er hnappur "Blóðbankinn - Interinfo"
Smellið á "Blóðbankinn - Interinfo" og upp kemur mynd fyrir viðkomandi sjúkling.
Í Interinfo getur notandinn skoðað upplýsingar undir eftirfarandi flipum:
Upplýsingar um sjúkling
Hér má sjá nýjustu rannsóknarsvör um blóðflokkanir, stöðu prófa og frátekinna blóðhluta.
Svartextar
Hér má sjá upplýsingar um eldri rannsóknir með sérstökum svartextum svo sem upplýsingum um blóðflokkamótefni og HLA rannsóknir.
Samlestur með skanna
Hér er strikamerki af armbandi sjúklings lesið saman við strikamerki á blóðhluta.
Kemur í stað samlesturs tveggja starfsmanna við inngjöf blóðhluta.
Skrá blóðinngjöf
Hér er blóðinngjöf skráð rafrænt með skanna eða bendli.
Skráðar blóðinngjafir
Hér má sjá yfirlit yfir gefna blóðhluta og skrá aukaverkun.
Vefjaflokkun
Hér má sjá niðurstöður frá vefjaflokkunardeild frá og með 1.1.2013.
Stofnfrumur
Hér má sjá niðurstöður frá stofnfrumudeild frá og með 1.1.2013
Rauðkornaþykkni, plasma og blóðflögur má gefa milli blóðflokka ef farið er eftir vissum reglum. Blóðflögur má gefa milli ABO blóðflokka, reynt er að gefa sjúklingi blóðflögur úr sínum blóðflokki ef kostur er.
Rauðkornaþykkni
Í rauðkornaþykkni er nánast enginn blóðvökvi. Rauð blóðkorn í O blóðflokki eru ekki með ABO mótefnavaka og má því gefa það einstaklingum af flokki A, B, og AB. Þeir sem eru í AB blóðflokki eru ekki með nein ABO mótefni í blóðvökva og geta því þegið rauðkornaþykkni úr öllum ABO blóðflokkum .
Blóðvökvi ( plasma )
Blóðvökvi einstaklinga í O blóðflokki inniheldur mótefni gegn A,B og AB mótefnavökum. Blóðvökva í O blóðflokki má því aðeins gefa einstaklingum í O blóðflokki.
Einstaklingar í AB blóðflokki eru ekki með mótefni gegn ABO blóðflokkum í blóðvökva. AB blóðvökva má því gefa einstaklingum af öllum gerðum ABO blóðflokka.
Fylgiseðill er festur við alla blóðhluta sem afgreiddir eru frá Blóðbankanum. Þar kemur fram nafn og kennitala sjúklings, auk auðkennis- og tegundanúmers blóðhlutans , sjá nánari leiðbeiningar um merkingu blóðhluta.
Einnig kemur fram niðurstaða samræmingarprófs.
Á fylgiseðlinum er skráður gildistími frátökunnar, þ.e. dagsetning og tími sem blóðhlutinn er frátekinn í sjúkling.
ATH ! Ekki má gefa blóðhlutann ef frátökutíminn er útrunninn.
Hlutverk fylgiseðils er að auðvelda þeim sem setur upp blóðhlutann að ganga úr skugga um að blóðhlutinn sé ætlaður viðkomandi sjúklingi.
Auðkennisnúmer á fylgiseðli skal vera í samræmi við auðkennisnúmer blóðhluta
Ef að rafræn skráning er gerð á inngjöf blóðhluta í Interinfo kerfi Blóðbankans má farga pappírum eftir inngjöf blóðhluta.
Blóðhlutar fráteknir/ gefnir:
Með fyrstu einingu í hverri frátöku fylgir yfirlit yfir fráteknar einingar á blóðinngjafablaði. Þar kemur fram fjöldi eininga sem teknar hafa verið frá í sjúklinginn í frátökuumferð og gildistími frátöku. Einnig koma fram auðkennis- og tegundanúmer eininganna.
Þetta eyðublað þarf að fylla út ef að inngjöf blóðhluta er ekki skráð í Interinfo kerfi Blóðbankans. Það er gert til að geta haldið utan um inngjafir í sjúkling. Þegar blóðgjöf hefst límir sá sem er ábyrgur fyrir blóðinngjöfinni límflipann af einingunni í þar til gerðan reit á eyðublaðinu og skráir dagsetningu inngjafar. Þegar inngjöf lýkur er skráð á eyðublaðið hvort að inngjöf hafi haft í för með sér aukaverkun eður ei og kvittað fyrir með fangamarki sínu. Þannig á að merkja við og skrá hverja einingu sem er inngefin. Þetta eyðublað á að varðveita skv. reglum um sjúkraskrá.
Ef blóðhluti er skráður inngefinn í Interinfo þarf ekki að fylla út blóðinngjafablaðið heldur má farga eyðublaðinu að lokum inngjafar.
Blóðpöntunarseðill:
- Með fyrstu einingu í hverri frátöku fylgir nýr blóðpöntunarseðill.
- Notið ávallt nýjasta pöntunarseðilinn, hendið þeim eldri.
- Á blóðpöntunarseðlinum kemur fram nafn og kennitala sjúklings auk blóðflokks.
- Mikilvægt er að fylla út í alla reitina um fjölda eininga sem panta á og dagsetningu á inngjöf blóðhluta. Einnig þarf að koma fram sjúkdómur og/eða aðgerðardagur. Einnig þarf að skrá dagsetningu sýnatöku og persónuvotta fyrir töku sýnis.
- Skráið sendanda (deild/stofnun), viðtakanda og greiðanda ef hann er annar en sendandi.
- Tryggið að blóðpöntun sé á áberandi stað í sjúkraskrá sjúklings til að auka öryggi við sýnatöku.
ATH! Plasma og blóðflögur á alltaf að panta rafrænt eða símleiðis.