Rhesusvarnir á Íslandi
Rhesusvarnir hófust á Íslandi í lok árs 1969 með aðkomu Blóðbankans. Rhesusvarnir felast m.a. í því að reyna að koma í veg fyrir að Rhesus D neikvæð kona sem gengur með Rhesus D jákvætt fóstur myndi anti-D á meðgöngunni. Árið 2018 hófst í Blóðbankanum Rhesus D skimun á fóstrum sem tryggir enn frekar öryggi á meðgöngu með öflugum rhesusvörnum.
Blóðbankinn býður öllum konum í meðgöngu upp á skimun fyrir blóðflokkamótefnum í byrjun meðgöngu í 10-12 viku. Hjá Rhesus D neikvæðum konum er aftur boðið upp á skimun fyrir blóðflokkamótefnum í 24-26 viku og þá er jafnframt boðið upp á Rhesus D skimun á fóstri. Ef fóstur reynist Rhesus D jákvætt er konunni boðið anti-D mótefni ( immúnóglóbúlín) í 28.viku til að draga úr líkum að móðirin myndi anti-D.
Blóðflokkur barns er síðan staðfestur með flokkun naflastrengssýnis hjá öllum Rhesus D neikvæðum konum. Mikilvægt er að allar Rhesus D neikvæðar konur sem fæða Rhesus D jákvætt barn fái anti-D mótefni (immúnóglóbúlín) til að koma í veg fyrir að þær myndi anti-D mótefni.
Um 15% Íslendinga eru Rhesus D neikvæðir þ.e. þeir bera ekki Rhesus D mótefnavaka á yfirborði rauðu blóðkornanna. Anti-D er eitt alvarlegasta mótefnið á meðgöngu sem myndast vegna misræmis á milli móður og fósturs. Það getur gerst við blóðblöndun þegar rauð blóðkorn fósturs komast inn í blóðrás móðurinnar t.d. við blæðingu á meðgöngu, inngrip s.s. legvatnsástungu eða vendingu, við hnjask eða í fæðingu.
Árangur Rhesus varna á Íslandi frá 1996 til 2015 er tekinn saman í eftirfarandi grein:
Hjá konum í meðgöngu með klínísk mikilvæg mótefni gerir Blóðbankinn títermælingar á 4 vikna fresti til að fylgjast með styrk mótefnis. Ef að styrkur mótefnis eykst getur þurft að flýta fæðingu. Í einstaka tilfellum er styrkur mótefnis svo mikill að það þurfi að gefa fóstrinu blóðinngjöf fyrir fæðingu.
Flutningur blóðflokkamótefna um fylgju er hægur þar til á um 24 viku meðgöngu og veikjast fóstrin sjaldan fyrir þann tíma. Flutningur eykst hratt á seinni hluta meðgöngu fram að fæðingu. Á þeim tíma er styrkur mótefnanna í fóstrinu oft hærri en í móður.
Ef um alvarlega nýburagulu er að ræða eftir fæðingu barns getur þurft að grípa til blóðskipta. Þá er valið rauðkornaþykkni sem er ekki með mótefnavökum sem móðirin er með mótefni gegn. Við blóðskipti er blóð barnsins fjarlægt smám saman og blóðskiptablóð gefið í staðinn.
Rhesus D neikvæðum konum er boðið upp á Rhesus D skimun á fóstri í 24-26 viku. Ef fóstur greinist Rhesus D jákvætt er móður boðið upp á anti-D mótefni (immúnóglóbúlín). Mótefnið binst fósturblóðkornum í blóðrás móðurinnar og eyðir þeim. Þannig kemur mótefnainngjöfin í veg fyrir að móðir byrji að mynda mótefni gegn rauðum blóðkornum fósturs.
Hvernig er prófið gert: Tekið er EDTA blóðsýni úr móður á 24-26 viku meðgöngu. Sýnið er spunnið til að losna við blóðkornin. Í blóðvökvanum finnast stuttir DNA bútar úr móður og fóstri úr niðurbrotnum frumum. Að jafnaði eru 10-30% DNA bútanna úr fóstrinu (niðurbrotsefni úr fylgju). Til að skima fyrir Rhesus D er DNA einangrað úr blóðvökvanum og gerð sértæk qPCR mögnun á Rhesus D geninu. Úrfelling á Rhesus D geninu er algengasta orsök fyrir Rhesus D neikvæðri arfgerð á meðal Evrópubúa. Ef ekkert Rhesus D magnast úr sýninu eru bæði móðir og fóstur með úrfellinguna (Rhesus D neikvæð). Ef genið hins vegar magnast bendir það til að fóstrið sé ekki með úrfellinguna og þar með Rhesus D jákvætt. Rhesus D neikvæðar konur, sem ganga með Rhesus D neikvæð fóstur þurfa ekki að fá anti-D mótefnasprautu.
Að jafnaði er Rhesus D skimun á fóstum gerð vikulega. Svörin birtast í Heilsugátt 1-2 vikum eftir að sýni eru send til rannsóknar.