Leit
Loka

Sýni og beiðnir

SýnatökuglösÁ þessum síðum eru þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að rétt sýni úr réttum sjúklingi skili sér til Blóðbankans.

Rétt sýni er verulega mikilvægt fyrir sjúklinginn þar sem niðurstöðurnar eru varanlegar upplýsingar um blóðflokk sjúklings og notaðar til að velja rétta blóðhluta fyrir sjúklinginn. Fyrir blóðinngjöf er blóðflokkur alltaf staðfestur með nýju sýni til að tryggja öryggi sjúklings.

Sérstakar leiðbeiningar um sýnatökur fyrir blóðinngjöf

Þegar um er að ræða fyrirfram ákveðnar aðgerðir og sjúklingur hefur ekki verið til blóðflokkaður er best, m.t.t. öryggi hans, að senda eitt sýni og eina beiðni til blóðflokkunar við undirbúning og senda annað sýni og beiðni þegar hann kemur inn til aðgerðar. Heilbrigðisstarfsfólk með aðgang að Sögu/Orbit og Heilsugátt geta skoðað blóðflokk sjúklings í "Interinfo". Starfsmenn á öðrum stöðum þurfa að hringja til Blóðbankans og kanna hvort sjúklingur hefur verið blóðflokkaður.

Alltaf er skimað fyrir blóðflokkamótefnum um leið og sjúklingar eru blóðflokkaðir í fyrsta sinn og sjúkradeild/heilbrigðisstofnun látin vita ef sjúklingur greinist með blóðflokkamótefni. Við þær aðstæður þarf meiri undirbúning t.d. að senda tvö sýni til að hægt sé að staðfesta mótefni og krossprófa sérvaldar einingar.

Til að tryggja öryggi sjúklinga fyrir blóðinngjöf er ný blóðflokkun alltaf borin saman við eldri blóðflokkun. Þegar sýni eru tekin á sama tíma rýrir það öryggið sem fæst með þeim samanburði.

Ef sjúklingur hefur verið blóðflokkaður og reynist ekki með blóðflokkamótefni (sjá "Interinfo" sem starfsmenn hafa aðgang að í gegnum Sögu/Orbit og Heilsugátt) nægir að senda eitt sýni með beiðni. Það má taka við innskrift en athuga þarf hvort óska má eftir framlengingu á BAS prófi ef langt er í aðgerð.

Áreiðanleiki blóðrannsókna og örugg blóðinngjöf veltur á gæði sýna. Til að tryggja öryggi sjúklinga er stefna Blóðbankans sú að veita ekki undanþágu þegar gæði, merking og/eða rekjanleiki sýna er óásættanleg.

Markmið merkinga sýna og beiðna er að tryggja að Blóðbankanum berist rétt sýni til rannsóknar.

Sýni og beiðni skal merkja með nafni og kennitölu viðkomandi sjúklings.

Beiðni þarf alltaf að fylgja sýni til Blóðbankans. Á henni þurfa að koma fram upplýsingar um sjúkling, hvað á að rannsaka og hver pantar viðkomandi rannsókn. Blóðbankinn gerir ekki umbeðna rannsókn ef persónuvottun vantar.

Nánari upplýsingar um verklag við sýnatöku er í Handbók Blóðbankans .

Persónuvottun er mjög mikilvægur hluti af öruggri blóðbankaþjónustu. Persónuvottun jafngildir ábyrgð þess starfsmanns sem tekur sýnið á að sýnið sé úr réttum sjúklingi.

Við sýnatöku skal staðfesta að um réttan sjúkling sé að ræða. Sjúklingur gefur sjálfur upp fullt nafn og kennitölu, nema ástand hans hamli því og skal þá nota armmerki. Ef sjúklingur er ekki með armmerki þarf að fá annan starfsmann, sem veit hver sjúklingurinn er, til að staðfesta að um réttan sjúkling sé að ræða.

Undirskrift þess starfsmanns sem tekur sýnið jafngildir ábyrgð á að sýnið sé úr réttum einstaklingi, sbr. "Undirritaður tók meðfylgjandi sýni úr einstaklingnum sem skráður er á sýnaglas og beiðni".

Blóðbankinn gerir ekki umbeðna rannsókn ef persónuvottun vantar.

null

 

 Rannsókn                       Blóðsýni                              Til athugunar                           
 ABO/RhD flokkun og skimun fyrir blóðflokkamótefnum  1x 4 ml EDTA

 - Sendið alltaf 2 sýnaglös úr einstaklingum með blóðflokkamótefni

BAS/BKS próf  1x 4 ml EDTA

  - Sendið alltaf 2 sýnaglös úr einstaklingum með blóðflokkamótefni
 - Nánari upplýsingar um blóðþega yngri en 4 mánaða neðst

Greining blóðflokkamótefna  og títrun blóðflokkamótefna  2x 4 ml EDTA  
Beint Coomb's próf (DAT)   1x 4 ml EDTA
Skimun fyrir kuldavirkum blóðflokkamótefnum  1x 4 ml EDTA
 Aukaverkun eftir blóðgjöf  1x 4 ml EDTA

 - Fyllið út Blóðbankabeiðni - aukaverkanir og atvik og sendið með sýninu

 Ungbarnaflokkun   Microtube 1ml EDTA

 -  Ungbarnasýni eru sýni úr börnum yngri en 4 mánaða

Naflastrengsflokkun   4-10 ml EDTA
HPA-1 flokkun  1 x 4 ml EDTA   - Gerð á blóðsýni frá móður við grun um NAIT
 
 Leit að lifandi nýrnagjafa  4x 4 ml EDTA
 1x 4 ml heilblóðs, án andstorkuefna og gels
 
 Leit að látnum líffæragjafa  4x 4 ml EDTA
 1x 4 ml heilblóðs, án andstorkuefna og gels
 
 Leit að stofnfrumugjafa  1x 4 ml EDTA
 HLA mótefnaskimun  1x 4 ml EDTA
 1x 4 ml heilblóðs, án andstorkuefna og gels
 
 Vefjaflokkun B27  1x 4 ml EDTA  
 Vefjaflokkun DR  1x 4 ml EDTA  
 CD34+      1x 2ml EDTA  
 Annað    - Hafið samband við Blóðbankann

 

Blóðþegar yngri en 4 mánaða.

 Aðeins þarf eitt ungbarnasýni úr ungabörnum yngri en 4 mánaða til blóðinngjafar. Þegar blóðhlutar eru pantaðir í fyrsta sinn verður sýni úr móður að fylgja með sýni úr ungabarni. Ef móðir hefur ekki blóðflokkamótefni og barn er Coomb's próf neg er BKS próf barnsins framlengt til 4 mánaða aldurs og þá þarf ekki sýni aftur fyrr en barnið verður eldra en 4 mánaða. Blóðflokkur er ekki staðfestur þar sem að börn á þessum aldri fá öll AB neg plasma og O neg rauðkornaþykkni (nema blóðflokkamótefni móður valdi því að velja verði annan blóðflokk).

Á þessari síðu eru tenglar í allar beiðnir sem notaðar eru í Blóðbankanum. Hægt er að prenta beiðnirnar í lit eða í svarthvítu.

Athugið að Blóðbankinn tekur ekki við rafrænum beiðnum.

Í handbók Blóðbankans eru allar beiðnir Blóðbankans til staðar. Þar eru einnig upplýsingar um útfyllingu beiðna. 

Hér fyrir neðan eru helstu beiðnir Blóðbankans á pdf formi:

Blóðbankabeiðni rannsóknir og blóðhlutar

Blóðbankabeiðni aukaverkanir og atvik

Blóðbankabeiðni vefjaflokkun

Blóðbankabeiðni CD34 mælingar

Blóðbankabeiðni beiðni um stofnfrumuinngjöf 

Blóðbankabeiðni svörun við blóðflöguinngjöf