Leit
Loka

Vefjaflokkun

Vefjaflokkar eru sameindir sem finnast utaná flestum frumum líkamans. Þéttleiki þessara sameinda utan á frumunum er mestur á hvítum blóðkornum. Þær hafa verið nefndar “Human leukocyte antigens” (leukocyte = hvítfrumur) því þessar sameindir fundust fyrst á hvítum blóðfrumum. Skammstöfunin HLA stendur fyrir þessar sameindir og er hún mikið notuð.

HLA sameindirnar gegna mikilvægu hlutverki í ónæmissvörun líkamans. Ef sýking kemur upp í líkamanum er peptíð sem er upprunnið úr sýklinum brotið niður í frumunni og bundið HLA sameind. Frumur ónæmiskerfisins “þreifa” á HLA sameindunum og ef frumur ónæmiskerfisins finna óþekkt peptíð sem upprunnið er t.d. úr bakteríu eða veiru, þá ræsist ónæmiskerfið.

Til að geta greint sem mestan fjölda óþekktra peptíða þarf margar gerðir af HLA sameindum. Því eru nokkur gen sem ákvarða þessar sameindir, hvert gen hefur mikinn breytileika og það leiðir til þess að margar útgáfur eru til af þessum sameindum.

Sameindir sem ákvarða vefjaflokka eru byggðar upp af tveimur próteinkomplexum. Vefjaflokkar skiptast í klassa I og klassa II eftir gerð þessara próteinkomplexa.

Klassi I: Aðeins annar próteinkomplexinn er ákvarðaður af vefjaflokkasameindum og hefur hann mikinn breytileika. Hinn próteinkomplexinn heitir β2-microglobulin og er upprunnin af öðru genasvæði. Enginn breytileiki er hjá β2-microglobulin próteinkomplexinum.

Klassi II: Báðir próteinkomplexarnir eru ákvarðaðir af vefjaflokkasameindum en aðeins annar, DRβ1, hefur umtalsverðan breytileika.

HLA mótefnavakar og gen þeirra.

HLA mótefnavakar og gen þeirra.

Gen sem geyma upplýsingar fyrir gerð vefjaflokka eru á litningi 6. Svæðið sem geymir þessi gen, er á genaríkasta svæði mannsins og hefur að geyma mörg gen sem tengjast ónæmiskerfinu. Genin eru nálægt hvert öðru og erfast því oft saman sem ein heild eða haplotypa. Hægt er með fjölskyldurannsóknum að greina hvernig þessar haplotypur erfast milli foreldra og barna.

Dæmi um hvernig HLA mótefnavakar erfast saman frá foreldrum til barna.

Hvert barn erfir eina haplotypu frá hvoru foreldri. Þar sem hvert foreldri er með tvær hapoltypur (eina á hvorum litningi) eru 50% líkur á að tvö börn sömu foreldra hafi sömu haplotypu frá sama foreldri. Þar sem möguleikar á samsetningu haplotypa foreldranna eru fjórir eru 25% líkur á að tvö börn sömu foreldra hafi báðar haplotypurnar sameiginlegar og einnig 25% líku á að þau hafi enga haplotypu sameinginlega, sjá mynd.

Vefjaflokkar sem skipta mestu máli eru: HLA-A, HLA-B og HLA-DR. Genin sem skrá fyrir þessum próteinum hafa mikinn breytileika en það er nauðsynlegt til að þessar sameindir geti þekkt sem mestan fjölda ókunnra peptíða frá sýklum.

Mikill breytileiki felur það í sér að til eru margar útgáfur af þessum próteinum og því eru litlar líkur á að tveir óskyldir einstaklingar hafi sömu gerð vefjaflokka.

Mikill breytileiki felur einnig í sér að það getur verið erfiðleikum bundið að greina á milli mismunandi vefjaflokka því fjöldi þekktra sameinda er mikill og tæknin sem notuð er til flokkunar verður að geta greint á milli þeirra.

Hvenær og til hvers vefjaflokkun

Vefjaflokkanir eru gerðar í tengslum við ígræðslu á nýrum og stofnfrumum. Nýraígræðslur úr lifandi gjöfum hófust á Íslandi síðla árs 2003 og hefur vefjaflokkunardeild Blóðbankans annast mikilvægar undirbúningsrannsóknir fyrir þessar aðgerðir. Stofnfrumuflutningar milli tveggja einstaklinga eru ekki gerðar á Íslandi en vefjaflokkunardeildin annast vefjaflokkun á sjúklingi og fjölskyldu hans og á grundvelli niðurstaðna vefjaflokkunar er ákvarðað hvort einhver fjölskyldumeðlimur undirgengst áframhaldandi rannsóknir.

Vefjaflokkanir eru einnig framkvæmdar sem hluti af sjúkdómsgreiningu ákveðinna sjúkdóma sem hafa sterka tengingu við ákveðnar gerðir vefjaflokka. Þekktast í því samhengi er sjúkdómurinn hryggikt sem hefur sterka tengingu við vefjaflokkinn B27.

Frá árinu 2004 hefur Blóðbankinn verið í samstarfi við Norsku beinmergsgjafaskrána. Það er skrá yfir vefjaflokkaða blóðgjafa sem hafa lýst sig tilbúna til að gefa stofnfrumur til óskyldra aðila. Þessir blóðgjafar eru vefjaflokkaðir og þær upplýsingar ásamt upplýsingum um blóðflokk, aldur og kyn eru hýstar í Norsku beinmergsgjafaskránni. Ef sjúklingur sem þarfnast stofnfrumuígræðslu reynist ekki eiga ættingja með sömu vefjaflokkun er gerð leit að vefjaflokkuðum stofnfrumugjafa.

Vefjaflokkunardeild Blóðbankans hefur tekið þátt í rannsóknum á sjúkdómum þar sem grunur er um að tengsl séu við ákveðna vefjaflokka.


Hvað er gert í Vefjaflokkunardeild Blóðbankans?

Vefjaflokkanir:
Í vefjaflokkunardeild Blóðbankans eru gerðar vefjaflokkanir á A, B og DR genasæti. Vefjaflokkanir eru gerðar með aðferðum sem byggjast á greiningu á erfðaefninu (DNA). DNA er einangrað og síðan eru ákveðin svæði erfðaefnisins mögnuð upp og þau síðan greind með sérhæfðri tækni og hugbúnaði.

Gen sem ákvarða vefjaflokka einstaklings, hafa mikinn breytileika. Það þýðir að til eru margar útgáfur af þeim sameindum sem ákvarða vefjaflokk. Tæknin sem notuð er við greiningu verður að geta greint með nokkurri vissu á milli þessara mismunandi sameinda. Því er um að ræða mjög sérhæfða og flókna tækni en Blóðbankinn býr yfir tækni sem er mjög framarlega á þessu sviði í heiminum.

HLA-krosspróf:
HLA-krosspróf eru gerð milli líffæragjafa og líffæraþega til að kanna hvort þeginn sé með mótefni gegn vefjaflokkum gjafans. Ef um mótefni er að ræða hafnar ónæmiskerfi þegans líffærinu strax. HLA-krosspróf eru gerð þannig að eitilfrumur gjafa eru einangraðar og sera sjúklings blandað saman við. Ef sértæk mótefni þega eru til staðar bindast þau frumum frá gjafa. Komplementi er bætt við og ef binding mótefnis og frumu hefur átt sér stað verður frumuháð komplement dráp og hægt er í smásjá að greina litarmun á dauðum og lifandi frumum.

HLA-mótefnaskimun:
Við HLA-mótefnaleit er kannað hvort mótefni greinast gegn þeim sameindum sem ákvarða vefjaflokk. Vegna þess að mikill fjöldi vefjaflokkasameinda er til, er oft erfitt að greina hvort og þá hvaða mótefni um er að ræða. Blóðbankinn hefur frá árinu 2006 yfir að ráða nýrri tækni sem getur með töluverðri næmni greint þessi mótefni.

Sjúklingar sem bíða eftir líffæraígræðslu eru skimaðir fyrir HLA mótefnum því ekki er æskilegt að mögulegir gjafar hafi sömu vefjaflokkasameindir á yfirborði sinna frumna og þegi er með mótefni gegn.

Á yfirborði blóðflaga eru vefjaflokkasameindir. Ónæmiskerfi sjúklinga sem hafa mótefni gegn þessum sameindum eyðileggur blóðflögur með sameindum sem þeir hafa mótefni gegn. Því getur verið nauðsynlegt að greina hvaða mótefni um er að ræða og velja blóðflögugjafa á grundvelli þeirra niðurstaðna.