Heilsufarsskilmerki
Um starfsemi Blóðbankans gildir reglugerð 441/2006 um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs. Hún mælir fyrir um gæða- og öryggisstaðla fyrir blóð og blóðhluta úr mönnum við söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs. Þar er mælt fyrir um þau heilsufarsskilmerki sem blóðgjafar þurfa að uppfylla til þess að mega gefa blóð.
Blóðbankinn hefur það ávallt að leiðarljósi að fagleg sjónarmið séu grundvöllur heilsufarsskilmerkja blóðgjafa. Blóðbankanum er umhugað að vinna markvisst með heilbrigðisyfirvöldum að breytingum á heilsufarsskilmerkjum í samræmi við það sem gert er í öðrum löndum.
Blóðbankinn skilaði umsögn um tillögur heilbrigðisráðherra um breytingar á reglugerð (dags. 9. september 2021) er varða heilsufarsskilmerki blóðgjafa og frávísanir vegna áhættuþátta.
Blóðbankinn gerði veigamiklar athugasemdir við tillögur heilbrigðisráðherra um breytingar á reglugerð sem varðar heilsufarsskilmerki blóðgjafa og frávísanir vegna áhættuþátta. Orðalag og innihald í reglugerðardrögunum eru að mati Blóðbankans illa ígrundað og breytingar ekki tímabærar með þeim hætti sem þær eru settar fram. Sjá umsögn í heild sinni hér að neðan.
Blóðbankinn ítrekaði áður kynnta tímaáætlun um mikilvæga áfanga á þeirri leið að auka öryggi blóðhluta, í takt við tillögur ráðgjafanefndar um fagleg málefni blóðbankaþjónustu frá 2019:
- Innleiðing á nákvæmari aðferðum við greiningu blóðborinna smitsjúkdóma (nucleic acid testing, NAT skimun, kjarnsýrupróf) á árinu 2022.
- Endurteknar áhættugreiningar á tímabilinu 2022-2026 til að meta áhrif breytinga og stýra breytingum á heilsufarsskilmerkjum.
- Undirbúningur og innleiðing á smithreinsun rauðkorna 2022-2025.
Það skal áréttað að Blóðbankinn telur þessar tillögur sínar auka öryggi sjúklinga (blóðþega) en muni jafnframt auka aðgengi fjölda einstaklinga sem vilja gefa blóð, en geta ekki vegna gildandi skilmerkja. Þar má nefna fólk sem ferðast mikið, hefur húðflúr, fer í speglanir á meltingarvegi, ákveðnir hópar innan MSM-hópsins sem teljast í áhættumati hafa sömu áhættu og almennt íslenskt þýði, og margt fleira má nefna.
Ef þessum ráðum Blóðbankans og ráðgjafanefndarinnar verður fylgt þá má styrkja blóðgjafahópinn á Íslandi, sem er mikilvægt þegar litið er til aldursþróunar íslenska þýðisins. Hér er því leitað leiða til að stíga inn í áskoranir framtíðar, en á sama tíma tryggja öryggi sjúklinga (blóðþega). Hér er EKKI verið að byggja hindranir, hér er verið að leita nýrra leiða, líkt og ætíð í starfi Blóðbankans.
- Athugasemdir Blóðbankans í samráðsgátt
- Fylgiskjal - Heimildir | Crepas ofl. Estimating national rates of HIV infection... | Samþykkt Evrópuráðs 2013 | Scmidt ofl. The Denominator problem
- Fylgiskjal - Mikilvægar ráðleggingar, verkefnalisti næstu ára
- Fylgiskjal - Minnisblað Blóðbankans til ráðherra 2018 um MSM og blóðgjafir
- Fylgiskjal - Innleiðing NAT-skimunar, áhættugreiningar og breytingar á frávísun MSM í kjölfarið
- Fylgiskjal - Nánari greining og rýni á orðalagi, innihaldi og afleiðingum fyrirhugaðra reglugerðarbreytinga heilbrigðisráðherra